„Sameiginleg fræðslu- og þjálfunarmiðstöð er krafa samfélagsins og forsenda þess að tryggja megi öllum sem sinna slysavarna- og viðbragðsaðilum aðgengi að nauðsynlegri þjálfun og menntun“, segir Einar Örn Jónsson, slysavarna og björgunarmaður, eftir málþing sem Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) stóð fyrir í Reykjavík í gær.
Um 100 manns tóku þátt í málþingi LSS, sem er eitt aðildarfélaga BSRB, en þangað var stefnt öllum viðbragðsaðilum til að ræða um sameiginlega fræðslu- og þjálfunaraðstöðu. Á málþinginu kynntu viðbragðsaðilar sín þjálfunar- og fræðslumál og töluðu um nauðsyn þess að koma á laggirnar sameiginlegri aðstöðu.
Niðurstaða málþingsins var sú að stofnaður verði klasi viðbragðsaðila til að þróa verkefnið áfram, leita staðsetningar og fjármögnunar. Ákveðið var að nýta þá góðu aðstöðu sem er til staðar hjá viðbragðsaðilum til að auka samvinnu og bæta þjálfun. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna mun óska eftir tilnefningum frá viðbragðsaðilum til að ákveða næstu skref.
„Stofna þarf klasa viðbragðsaðila um fræðslu- og þjálfunarmiðstöð til að þróa verkefnið áfram, leita staðsetningar og fjármögnunar,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri LSS. Hann segir að á hverjum degi séu menn í slysavarna- og viðbragðsstörfum að vinna við krefjandi aðstæður við að bjarga fólki og öðrum verðmætum. Með sívaxandi fjölda ferðamanna aukist álagið á þennan hóp með hverju árinu. Betra aðgengi að þjálfun og menntun sé því æ háværari krafa þeirra sem vinna við þessi störf.
Löngu tímabært
Einar Örn segir að víða um land sé í gangi ýmiss konar endurmenntun og þjálfun en það sé löngu orðið tímabært að samræma þetta starf, auka samvinnu og efla þjálfun með þeim hætti. „Með því tryggjum við jafnari gæði fræðslu og þjálfunar og jafnt aðgengi að þessari mikilvægu þjónustu en í leiðinni nýtum styrkleika hvers viðbragðsaðila um sig,“ segir Einar Örn. Hann segir enn fremur að ef starfið væri sýnilegra væri án efa auðveldara að sannfæra yfirvöld um gildi fjármagns í umrædda aðstöðu en oft séu menn þarna að vinna kraftaverk.