47. þing BSRB skorar á stjórnvöld að taka ábyrgð á stjórn efnahagsmála og bregðast við þrálátri verðbólgu með raunverulegum aðgerðum. Launafólk sýndi mikla ábyrgð í vor með hóflegum kjarasamningum til fjögurra ára. Hægar dregur úr verðbólgu en gert var ráð fyrir í vor og langvarandi verðbólga og háir vextir bitna verst á láglaunafólki, barnafjölskyldum og ungu fólki. Fylgjast verður með stöðu þessara hópa og bregðast við með viðeigandi stuðningi til að koma í veg fyrir óafturkræft tjón af völdum fátæktar. Hagstjórnarákvarðanir stjórnvalda ættu að styðja við kjarasamninga en ekki taka til baka þær kjarabætur sem launafólk ávinnur sér. Skortur á húsnæði hefur valdið því að húsnæðis- og leiguverð hefur hækkað langt umfram verðlag og fögrum áformum um uppbyggingu hefur ekki verið fylgt eftir. BSRB krefst þess að sveitarfélögin taki ábyrgð á lögbundnu hlutverki sínu að tryggja öllum íbúum heilnæmt húsnæði við hæfi. Aðgerðaleysi þeirra hefur leitt til þess að fjöldi fólks býr ekki við húsnæðisöryggi og staðan á húsnæðismarkaði ógnar efnahagslegum stöðugleika.
Eftirlit stjórnvalda með markaðsöflunum er í skötulíki auk þess sem fákeppni á mörgum mörkuðum ýtir undir hærra verðlag og veitir bönkunum tækifæri til að hækka þjónustugjöld og vexti að vild. BSRB krefst þess að stjórnvöld efli samkeppniseftirlit og að fyrirtæki sýni sömu ábyrgð við verðlagningu og launafólk gerði með hóflegum kjarasamningum. Fyrirtæki sem hækka verð umfram verðbólgumarkmið grafa undan kaupmætti launafólks og ógna forsendum kjarasamninga.
BSRB hafnar niðurskurðarstefnu stjórnvalda. Skuldasöfnun ríkisins má fyrst og fremst rekja til ófjármagnaðra skattalækkana undanfarin ár og óvæntra meiriháttar útgjalda sem ekki var mætt með tekjuöflun. BSRB krefst þess að umbætur verði gerðar á skattlagningu fjármagns og fjármagnstekna til að jafna skattbyrði milli launatekna og fjármagnstekna og að skattaívilnunum til ferðaþjónustufyrirtækja verði hætt. Tryggja þarf eignarrétt almennings á auðlindum með því að hækka auðlindagjöld þeirra fyrirtækja sem hagnýta þær þannig að þau endurspegli ávinning af notkuninni og með sérstakri skattlagningu á endursölu á notkunarheimildum. Þá þarf að ráðast í markvissar aðgerðir gegn skattsvikum og undanskotum. Með tekjunum getur ríkið greitt niður skuldir og hafið endurreisn velferðarkerfisins. Gott aðgengi að almannaþjónustu, óháð efnahag, er eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins.
Reykjavík, 4. okt. 2024