Réttur til launa vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma byggir bæði á lögum og kjarasamningum. Um mikilvæg réttindi er að ræða. Í sumum tilvikum kann einnig að vera um skaðabótaskyld slys að ræða og þarf þá að líta til reglna skaðabótaréttar.
Vinnuslys
Þegar fjallað er um vinnuslys í vinnuréttarlegum skilningi skiptir ekki máli hvort atvinnurekandi eða einhver sem hann ber ábyrgð á er um slysið að kenna. Ef slík slys verða á viðkomandi starfsmaður sinn veikindarétt samkvæmt kjarasamningi, en að auki greiðast dagvinnulaun í 91 daga. Slysarétturinn er sjálfstæður og skerðir ekki annan veikindarétt. Ávinnsla hans er einnig ólík veikindarétti, þannig að hann gildir frá fyrsta starfsdegi og fyrir hvert slys.
Atvinnurekandi á einnig að standa straum af kostnaði við að flytja hinn slasaða til heimilis eða sjúkrahúss og greiðir eðlilegan sjúkrakostnað á meðan hann nýtur launa, ef Tryggingastofnun greiðir hann ekki.
Slys á leið til eða frá vinnu
Slys á beinni leið til eða frá vinnu skapa sama greiðslurétt og vinnuslys. Með beinni leið frá vinnu er átt við eðlilega leið. Starfsmaður sem þarf að stoppa á leikskóla til að sækja barn telst vera á beinni leið þrátt fyrir stoppið. Dómstólar hafa fjallað um álitamál af þessu tagi. Í Hrd. nr. 388/2016 var fjallað um starfsmann sem stoppaði á bensínstöð. Það var talið vera hluti af beinni leið frá vinnu. Einnig má nefna dóm Hrd. nr. 434/2017, en þar kom fram að ekki þarf að velja stystu leið, heldur eðlilega leið og hefur starfsmaður nokkuð val um það hvaða umferðaræðar hann velur. Í þeim dómi var einnig staðfest að heimili er aðsetur manns, en ekki endilega skráð lögheimili hans.
Atvinnusjúkdómar
Hugtakið atvinnusjúkdómur er ekki skilgreint í lögum eða kjarasamningum. Almennt er þó átt við sjúkdóm sem á rætur að rekja til starfs viðkomandi. Atvinnusjúkdómar eru sjúkdómar sem eiga beint eða óbeint rætur að rekja til vinnunnar, hvort heldur sem er vegna eðlis vinnunnar, tilhögunar vinnu eða aðbúnaðar á vinnustað.
Atvinnusjúkdómar geta verið ýmis konar. Til dæmis ofnæmi fyrir tilteknum efnum og stoðkerfisvandamál. Einnig heyrnarskerðing vegna hávaða. Oft getur verið mjög erfitt að sanna að um atvinnusjúkdóm sé að ræða þar sem sanna þarf að orsök sjúkdómsins sé að finna í vinnuumhverfinu.
Um atvinnusjúkdóma og varnir gegn þeim er fjallað í vinnuverndarlögum og ýmsum reglugerðum. Með sama hætti og varðandi vinnuslys, tengjast atvinnusjúkdómar vinnurétti og skaðabótarétti. Nokkrir dómar hafa fallið um skaðabótaskylda atvinnusjúkdóma.
Í Hrd. nr. 315/2006 var fjallað um mál starfsmanns sem starfaði við speglun hjá spítala í tæp 10 ár. Hún þurfti að nota sterk sótthreinsiefni við starf sitt og fór að finna fyrir einkennum astma sem gerði henni ókleift að sinna starfi sínu áfram. Var talið að yfirmenn á spítalanum hefðu ekki fylgt þeim reglum sem í gildi voru um meðferð efna á vinnustöðum og var spítalinn því talinn bera ábyrgð á sjúkdómnum.
Í dómi Hrd. 1996:4139 var fjallað um heyrnaskerðingu sem maður varð fyrir vegna langvarandi hávaða á vinnustað. Reglum um hávaðavarnir var ekki fylgt og var fyrirtækið því talið bótaskylt. Starfsmaðurinn sjálfur bar þó þriðjung tjónsins þar sem hann hafði farið í heyrnarmælingu og vitað af skaðanum nokkuð fyrr en lét forsvarsmenn fyrirtækisins ekki vita svo þeir gætu brugðist við.
Fleiri dómar hafa fallið, m.a. um ýmis hættuleg efni og asbest. Enn hefur ekki fallið dómur sem staðfestir að sjúkdómseinkenni vegna myglu á vinnustöðum geti verið atvinnusjúkdómur. Það sama gildir um kulnun og sjúklega streitu, ekki hefur enn verið dæmt í slíku máli.