Veikindaréttur

Veikindaréttur er mismunandi eftir því hvort einstaklingar starfa á hinum opinbera eða almenna vinnumarkaði. Lágmarksreglur má finna í lögum en aukin réttindi hafa verið tryggð með kjarasamningum. Sérstakar reglur gilda um tímavinnustarfsfólk og er veikindaréttur þeirra styttri. Nánar er fjallað um öll þessi atriði hér að neðan.

Lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla kveða á um lágmarksréttindi starfsmanna til greiðslu launa ef þeir forfallast frá störfum vegna veikinda og slysa. Kjarasamningar hafa flestir að geyma betri réttindi. Lögin fjalla einnig um sérstakan rétt vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma, en í þeim tilvikum eiga starfsmenn, auk veikindaréttar, sérstakan rétt til dagvinnulauna í þrjá mánuði.

Veikindaréttur

  • Styrktar- og sjúkrasjóðir

    Flest aðildarfélög BSRB hafa sameinast um einn styrktar- og sjúkrasjóð, Styrktarsjóð BSRB. Þau félög sem eru með eigin sjúkrasjóði eru Póstmannafélag Íslands, Landssamband lögreglumanna og sá hluti Sameykis sem áður tilheyrði SFR. Sjóðirnir veita sjúkradagpeninga ef starfsmenn hafa tæmt rétt sinn hjá vinnuveitanda og fjölmarga styrki, svo sem vegna sjúkraþjálfunar, krabbameinsleitar, gleraugnakaupa, líkamsræktar og fleira. Frekari upplýsingar um styrki má finna á vef Styrktarsjóðs BSRB og á vefsíðum nefndra aðildarfélaga. 

  • Veikindi barna

    Í kjarasamningum er fjallað um rétt starfsmanna vegna veikinda barna. Starfsmaður á rétt á að vera frá vinnu samtals 12 vinnudaga á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri ef annarri umönnun verður ekki við komið. Þessi réttur skerðir ekki önnur réttindi samkvæmt veikindakafla kjarasamnings.

    Ef barn undir 16 ára aldri lendir í alvarlegum veikindum sem veldur sjúkrahúsvistun má nýta framangreindan rétt vegna þess samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga BRSB og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

  • Lausn frá störfum vegna heilsubrests

    Um lausnarlaun er fjallað í kjarasamningum opinberra starfsmanna. Um lausnarlaun embættismanna er fjallað í starfsmannalögum og eru reglurnar mjög sambærilegar. Reglurnar kveða á um greiðslu þriggja mánaða lausnarlauna þegar starfsmaður er leystur frá störfum vegna veikinda. Nánar er fjallað um lausnarlaun hér.

  • Hlutaveikindi

    Í kjarasamningum hjá ríki og sveitarfélögum er heimildarákvæði um hlutaveikindi. Það ákvæði er einnig að finna hjá mörgum þeim ohf. fyrirtækjum og sjálfseignarstofnunum sem aðildarfélög BSRB semja við en almennt er ekki slíkt ákvæði í kjarasamningum á almenna markaðnum.

    Starfsmenn þurfa leyfi yfirmanns til að vinna skert starfshlutfall og oft er um að ræða tímabundið ástand. Ákvæðinu er t.d. oft beitt þegar starfsmaður hefur verið frá vinnu um lengri tíma og fær aðlögunartíma þegar hann kemur til baka til starfa, með því að vinna skert starfshlutfall í nokkrar vikur.

    Þegar starfsmaður er í hlutaveikindum eru veikindi talin líkt og um tvo starfsmenn sé að ræða. Hann fær því laun fyrir það hlutfall sem hann vinnur, en veikindagreiðslur fyrir hitt hlutfallið og dragast þeir frá áunnum veikindarétti hans.

  • Veikindi, slys og uppsagnarfrestur

    Starfsmenn njóta sömu kjara á uppsagnarfresti eins og áður og á það einnig við um veikindarétt. Ef veikindi standa lengur en uppsagnarfresti nemur skiptir máli hvort veikindin hafi hafist fyrir eða eftir uppsögn.

    Ef veikindi hefjast fyrir uppsögn ber starfsmanni réttur til greiðslu samkvæmt áunnum veikindarétti þó svo að veikindi standi lengur en uppsagnarfrestur eða biðlaunaréttur. Starfsmaður á þannig rétt til launa eins lengi og óvinnufærni stendur, óháð því hversu lengi uppsagnarfrestur stendur, eða þar til veikindaréttur hans er fullnýttur.

    Ef veikindi hefjast eftir uppsögn lýkur veikindarétti um leið og ráðningarsambandinu lýkur formlega við starfslok. Þá stendur bara eftir starfslokauppgjör vegna áunninna réttinda, svo sem orlofs og frítökuréttar.

    Ef starfsmaður hefur lent í vinnuslysi, slysi á leið til eða frá vinnu eða atvinnusjúkdómi verður réttur hans til launa ekki skertur með uppsögn og heldur starfsmaður launagreiðslum svo lengi sem slysaréttur hans nær og óvinnufærni stendur.

  • Tilkynning og læknisvottorð

    Ef starfsmaður verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss, skal hann þegar í stað tilkynna það yfirmanni sínum. Yfirmaður metur hvort starfsmaður eigi að skila læknisvottorði. Á sumum vinnustöðum eru sérstakar reglur um hvert og hvernig tilkynna eigi veikindi, en ef engar slíkar reglur eru til staðar skal tilkynna næsta yfirmanni. Yfirmaður getur krafist læknisvottorð vegna óvinnufærni hvenær sem hann telur þörf á því.

    Í kjarasamningum opinberra starfsmanna er einnig fjallað um að ef óvinnufærni er meira en fimm vinnudagar samfleytt skuli starfsmaður alltaf skila læknisvottorði. Það sama gildir um endurteknar fjarvistir.

    Ef fjarvistir vegna veikinda eru langvarandi skal starfsmaður endurnýja læknisvottorð eftir því sem yfirmaður ákveður, en ekki sjaldnar en mánaðarlega. Hægt er að veita undanþágu frá þessu ef fyrirséð er að veikindin verði til langs tíma.

    Á opinberum vinnumarkaði er skilyrði að stafsmaður sem hefur verið óvinnufær vegna veikinda eða slysa í samfellt einn mánuð eða lengur skili starfshæfnivottorði áður en hann mætir aftur til vinnu.

    Starfsmaður á rétt á að fá endurgreiddan kostnað vegna læknisvottorða og læknisheimsókna sem tengjast öflun vottorða.

  • Vinnuslys og atvinnusjúkdómar

    Réttur til launa vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma byggir bæði á lögum og kjarasamningum. Um mikilvæg réttindi er að ræða. Í sumum tilvikum kann einnig að vera um skaðabótaskyld slys að ræða og þarf þá að líta til reglna skaðabótaréttar.

    Vinnuslys

    Þegar fjallað er um vinnuslys í vinnuréttarlegum skilningi skiptir ekki máli hvort atvinnurekandi eða einhver sem hann ber ábyrgð á er um slysið að kenna. Ef slík slys verða á viðkomandi starfsmaður sinn veikindarétt samkvæmt kjarasamningi, en að auki greiðast dagvinnulaun í 91 daga. Slysarétturinn er sjálfstæður og skerðir ekki annan veikindarétt. Ávinnsla hans er einnig ólík veikindarétti, þannig að hann gildir frá fyrsta starfsdegi og fyrir hvert slys.

    Atvinnurekandi á einnig að standa straum af kostnaði við að flytja hinn slasaða til heimilis eða sjúkrahúss og greiðir eðlilegan sjúkrakostnað á meðan hann nýtur launa, ef Tryggingastofnun greiðir hann ekki.

    Slys á leið til eða frá vinnu

    Slys á beinni leið til eða frá vinnu skapa sama greiðslurétt og vinnuslys. Með beinni leið frá vinnu er átt við eðlilega leið. Starfsmaður sem þarf að stoppa á leikskóla til að sækja barn telst vera á beinni leið þrátt fyrir stoppið. Dómstólar hafa fjallað um álitamál af þessu tagi. Í Hrd. nr. 388/2016 var fjallað um starfsmann sem stoppaði á bensínstöð. Það var talið vera hluti af beinni leið frá vinnu. Einnig má nefna dóm Hrd. nr. 434/2017, en þar kom fram að ekki þarf að velja stystu leið, heldur eðlilega leið og hefur starfsmaður nokkuð val um það hvaða umferðaræðar hann velur. Í þeim dómi var einnig staðfest að heimili er aðsetur manns, en ekki endilega skráð lögheimili hans.

    Atvinnusjúkdómar

    Hugtakið atvinnusjúkdómur er ekki skilgreint í lögum eða kjarasamningum. Almennt er þó átt við sjúkdóm sem á rætur að rekja til starfs viðkomandi. Atvinnusjúkdómar eru sjúkdómar sem eiga beint eða óbeint rætur að rekja til vinnunnar, hvort heldur sem er vegna eðlis vinnunnar, tilhögunar vinnu eða aðbúnaðar á vinnustað.

    Atvinnusjúkdómar geta verið ýmis konar. Til dæmis ofnæmi fyrir tilteknum efnum og stoðkerfisvandamál. Einnig heyrnarskerðing vegna hávaða. Oft getur verið mjög erfitt að sanna að um atvinnusjúkdóm sé að ræða þar sem sanna þarf að orsök sjúkdómsins sé að finna í vinnuumhverfinu.

    Um atvinnusjúkdóma og varnir gegn þeim er fjallað í vinnuverndarlögum og ýmsum reglugerðum. Með sama hætti og varðandi vinnuslys, tengjast atvinnusjúkdómar vinnurétti og skaðabótarétti. Nokkrir dómar hafa fallið um skaðabótaskylda atvinnusjúkdóma.

    Í Hrd. nr. 315/2006 var fjallað um mál starfsmanns sem starfaði við speglun hjá spítala í tæp 10 ár. Hún þurfti að nota sterk sótthreinsiefni við starf sitt og fór að finna fyrir einkennum astma sem gerði henni ókleift að sinna starfi sínu áfram. Var talið að yfirmenn á spítalanum hefðu ekki fylgt þeim reglum sem í gildi voru um meðferð efna á vinnustöðum og var spítalinn því talinn bera ábyrgð á sjúkdómnum.

    Í dómi Hrd. 1996:4139 var fjallað um heyrnaskerðingu sem maður varð fyrir vegna langvarandi hávaða á vinnustað. Reglum um hávaðavarnir var ekki fylgt og var fyrirtækið því talið bótaskylt. Starfsmaðurinn sjálfur bar þó þriðjung tjónsins þar sem hann hafði farið í heyrnarmælingu og vitað af skaðanum nokkuð fyrr en lét forsvarsmenn fyrirtækisins ekki vita svo þeir gætu brugðist við.

    Fleiri dómar hafa fallið, m.a. um ýmis hættuleg efni og asbest. Enn hefur ekki fallið dómur sem staðfestir að sjúkdómseinkenni vegna myglu á vinnustöðum geti verið atvinnusjúkdómur. Það sama gildir um kulnun og sjúklega streitu, ekki hefur enn verið dæmt í slíku máli.

  • Hvað eru greiðsluskyld veikindi?

    Við mat á því hvað eru greiðsluskyld forföll er byggt á skilgreiningu læknisfræðinnar á sjúkdómshugtakinu. Algengast er að stuðst sé við læknisvottorð. Dómstólar hafa fjallað um nokkur álitamál tengt því hvaða sjúkdómar falli undir veikindakafla kjarasamninga.

    Í dómi Hæstaréttar 1996 bls. 2023 var fallist á að vöðvabólga væri sjúkdómur í skilningi laga 19/1979. Ástand mannsins var slíkt að um óvinnufærni var að ræða.

    Tannsjúkdómar geta verið greiðsluskyldir ef starfsmaður forfallast frá vinnu af þeim völdum. Reglubundið eftirlit og viðgerðir hjá tannlækni falla þó ekki þar undir.

    Fegrunar- eða lýtaaðgerðir sem eru ekki nauðsynlegar vegna afleiðinga sjúkdóma eða slysa teljast ekki til greiðsluskyldra forfalla.

    Veikindi á meðgöngu eru greiðsluskyld líkt og önnur veikindi hvort sem veikindin tengjast þungun konunnar eða ekki. Í einhverjum tilvikum má líta til fæðingarorlofslaga, en fjallað er um þau á öðrum stað á vefnum.

    Frjósemis- og ófrjósemisaðgerðir teljast ekki til greiðsluskyldra forfalla þar sem þær eru ekki hluti af lækningu við sjúkdómi. Sjúkrasjóðir stéttarfélaga veita í sumum tilvikum styrki vegna slíkra aðgerða.

    Andlegir sjúkdómar, svo sem þunglyndi og kvíði, eru greiðsluskyldir með sama hætti og líkamlegir sjúkdómar, svo lengi sem þeir valda óvinnufærni.

    Héraðsdómur hefur einnig staðfest að offituaðgerðir geta fallið undir veikindahugtak kjarasamninga, en það var gert í dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. E-3377/2009. Í því tilviki var um óvinnufærni vegna offitu að ræða.

  • Veikindaréttur á almenna vinnumarkaðnum

    Veikindaréttur á almenna vinnumarkaðnum er talsvert frábrugðinn því sem gerist hjá opinberum starfsmönnum. Líkt og á opinbera vinnumarkaðnum hafa flest stéttarfélög samið um betri rétt en þann lágmarksrétt sem felst í lögum. Póstmannafélag Íslands hefur samið um talsvert meiri réttindi fyrir sitt fólk. Hjá þeim er veikindarétturinn tveir mánuðir á dagvinnulaunum auk vaktaálags eftir eitt ár, fjórir mánuðir eftir fimm ár og sex mánuðir eftir tíu ár.

    Mörg aðildarfélög BSRB gera kjarasamninga við ohf. fyrirtæki á almenna markaðnum og sjálfseignarstofnanir. Í mörgum tilvikum byggja þeir kjarasamningar á kjarasamningum við ríki eða sveitarfélög og eru því með ríkari veikindarétt en víða á almenna markaðnum.

    Í öðrum kjarasamningum á almennum markaði er veikindaréttur mismunandi. Ávallt skal skoða kjarasamning til þess að finna út veikindarétt.

  • Veikindaréttur starfsmanna ríkis og sveitarfélaga

    Réttur starfsmanna ríkis og sveitarfélaga til launa í veikindum fer eftir starfsaldri þeirra og ráðningarformi. Starfsmenn sem ráðnir eru ótímabundið eiga rétt á að halda fullum launum í veikindum í ákveðinn tíma sem tekur mið af starfsaldri.

    Veikindaréttur starfsmanna á mánaðarlaunum

    Almennt er fjallað um veikindarétt í 12. kafla kjarasamninga aðildarfélaga BSRB við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar segir að starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum haldi launum svo lengi sem veikindadagar hans verða ekki fleiri á 12 mánuðum en eftirfarandi:

    • 0-3 mánuðir í starfi: 14 dagar
    • Næstu 3 mánuði í starfi: 35 dagar
    • Eftir 6 mánuði í starfi: 119 dagar
    • Eftir 1 ár í starfi: 133 dagar
    • Eftir 7 ár í starfi: 175 dagar
    • Eftir 12 ár í starfi: 273 dagar
    • Eftir 18 ár í starfi: 360 dagar

    Átt er við almanaksdaga en ekki vinnudaga, þ.e. virka daga eða daga sem falla á vaktskrá.

    Veikindaréttur tímavinnufólks

    Tímavinnufólk á styttri veikindarétt en þeir sem eru ráðnir til starfa á mánaðarlaunum og er veikindaréttur þeirra eftirfarandi:

    • Á 1. mánuði í starfi: 2 dagar
    • Á 2. mánuði í starfi: 4 dagar
    • Á 3. mánuði í starfi: 6 dagar
    • Eftir 3 mánuði í starfi: 14 dagar
    • Eftir 6 mánuði í starfi: 30 dagar

    Einnig er hér átt við almanaksdaga en ekki vinnudaga og starfsmenn halda sínum launum.

    Veikindaréttur miðast við 12 mánuði aftur í tímann. Þannig ef starfsmaður veikist er talið 12 mánuði aftur og þeir veikindadagar sem hann hefur tekið á því tímabili dragast frá.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?