Öflug almannaþjónusta byggð á gildum samvinnu og jafnaðar er ein af grunnstoðum velferðarsamfélagsins. Eitt meginhlutverk hins opinbera er að halda uppi öflugu velferðarkerfi þar sem öllum er tryggð örugg framfærsla, framúrskarandi heilbrigðis- og félagsþjónusta, menntun og öryggi, óháð búsetu og efnahag. Til að tryggja jöfnuð verður hið opinbera að fjármagna, skipuleggja og stýra velferðarkerfinu. Lagarammi almannaþjónustunnar verður því að vera nægilega traustur til að veita vernd gegn markaðsvæðingu og stöðva þarf útvistun starfa.
Starfsfólk almannaþjónustunnar er mikilvægasta auðlind hennar. Of víða nær fjöldi starfsfólks ekki skilgreindri mannaflaþörf vegna skorts á fjármagni eða af því að fólk fæst ekki til starfa. Rannsóknir sýna að starfsfólk í velferðarþjónustu upplifir verri líkamlega og andlega heilsu og minni starfsánægju samanborið við aðrar starfsstéttir. Enn fremur hefur slysatíðni verið há í opinberri þjónustu, einkum hjá lögreglu.
Til að tryggja öfluga og góða almannaþjónustu er mikilvægt að kjör endurspegli verðmætin sem störfin skapa, mönnun sé með réttum fjölda og samsetningu starfsfólks og að starfsfólk búi alltaf við besta mögulega starfsumhverfi, þar sem öryggi, þekking, gagnkvæm virðing, góð samskipti, fagmennska og heilsa er höfð að leiðarljósi. Tryggja þarf að stjórnendur hafi þekkingu og hæfni til að vinna að þessum markmiðum.