Undanfarin ár hafa átt sér stað miklar og hraðar breytingar á vinnumarkaði. Sú þróun mun halda áfram á næstu árum með aukinni framþróun tækninnar og tilkomu gervigreindar. Við þessu þarf að bregðast með róttækum aðgerðum til að stórefla möguleika fólks á vinnumarkaði til starfsþróunar.
Evrópusambandið hefur sett skýr markmið um starfsþróun sem miða að því að árlega sæki 60% starfsfólks á vinnumarkaði nám til að auka hæfni sína og þekkingu. Ísland hefur engin markmið sett sér í þessum efnum. Tölur Hagstofu Íslands sýna að hlutfallið fer lækkandi milli ára en árið 2023 sótti eingöngu 25% fólks á vinnumarkaði slíkt nám. Ef rýnt er í stöðu hópa á vinnumarkaði út frá menntun var hlutfallið lægst meðal þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólanámi, eða 13%.
Samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnun næst mestur árangur í starfsþróunarmálum ef þau eru unnin í samstarfi starfsfólks og stjórnenda. Helstu hindranir starfsfólks til að sækja símenntun eru fjárhagslegur kostnaður og tímaskortur. Aðrir þættir sem starfsfólk nefnir er undirmönnun, skortur á upplýsingum um hvað standi þeim til boða og hverju símenntunin skili þeim í launum. Rannsóknir sýna jafnframt að hvatning stjórnenda skiptir sköpum í því hvort starfsfólk sæki sér símenntun.
47. þing BSRB gerir þær kröfur til ríkis, sveitarfélaga og annarra atvinnurekenda að þau setji sér virka starfsþróunarstefnu og -áætlanir, bæði fyrir vinnustaði í heild og fyrir einstaklinga, sem unnar eru í samstarfi við starfsfólk. Starfsfólk þarf að hafa gott aðgengi að upplýsingum um sína starfsþróunarmöguleika.
Menntun, þjálfun og fræðsla sem eykur hæfni verður að vera hluti af vinnustaðamenningu til framtíðar. Hverfa þarf frá þeirri nálgun að starfsfólk þurfi að ganga á eftir því að komast í símenntun og ættu stjórnendur að taka virkan þátt í að hvetja starfsfólk til aukinnar menntunar og þjálfunar á vinnutíma.
Reykjavík, 4. október 2024