Heilbrigðiskerfið er grunnstoð samfélagsins. Góð heilbrigðisþjónusta bætir lífsgæði fólks og öryggi, auk þess sem góð heilsa er þjóðhagslega hagkvæm. Fjármagna skal heilbrigðiskerfið úr sameiginlegum sjóðum og auka þarf fjárveitingar í fjárlögum til samræmis við meðaltal OECD ríkja. Kerfið á að tryggja öllum jafnan aðgang að fyrsta flokks gjaldfrjálsri þjónustu óháð búsetu. Forsenda þess er að fjöldi starfsfólks sé í samræmi við þörf og þá kröfu sem gerð er til heilbrigðisþjónustunnar sem og gott og öruggt starfsumhverfi.
Fjárskortur margra mikilvægra heilbrigðisstofnana hefur leitt til undirmönnunnar, gríðarlegs álags á starfsfólk og aukinnar hættu á langtímaveikindum og örorku. Mikilvæg þjónusta hefur verið skorin niður og einkafyrirtæki taka yfir sífellt stærri hluta þjónustunnar. Þetta hefur ekki leitt til styttri biðlista heldur þvert á móti aukið ójöfnuð. Einkafyrirtæki reka þjónustuna í hagnaðarskyni sem hefur í för með sér aukinn kostnað fyrir þau sem þurfa á þjónustunni að halda.
Rannsóknir sýna vaxandi heilsuójöfnuð á Íslandi. Það eru einstaklingar með lægri tekjur og minni menntun sem búa við lakari heilsu og lífsgæði. Innflytjendur, eldra fólk og þau sem eiga við langvarandi heilsufarslegar eða líkamlegar áskoranir að stríða eru sérstaklega viðkvæmir hópar. BSRB krefst þess að aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði bætt óháð efnahag eða búsetu. Bandalagið krefst þess að aukið verði við fjárfestingar í menntun og vinnuaðstæðum heilbrigðisstarfsfólks. Auk þess þarf að hefja átak í forvörnum allt frá leikskóla og auka stuðning við þau sem standa höllum fæti. Það er forgangsmál að öll njóti jafns aðgengis að heilbrigðisþjónustu, menntun og tómstundum til að tryggja jöfnuð í heilsu.
BSRB leggst alfarið gegn markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu og gjaldtöku sem byggir á hagnaðarsjónarmiðum. Einkarekstur dregur úr skilvirkni kerfisins, yfirsýn og samhæfingu, eykur hættu á oflækningum og torveldar eftirlit með gæðum og umfangi. Aukin áhersla á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu bitnar helst á þeim sem þurfa á þjónustunni að halda, vegna aukins kostnaðar. Að jafnaði eykur einkavæðing þrýsting á launalækkanir og uppsagnir starfsfólks til að auka hagnað af rekstrinum sem rennur þá í vasa eigendanna á kostnað launafólks og gæða þjónustunnar.
Skortur á viðeigandi þjónustuúrræðum fyrir aldraða skapar einnig vanda fyrir heilbrigðiskerfið því ekki er hægt að útskrifa fólk af sjúkrahúsum ef hjúkrunarrými skortir. Til að bregðast við þessu er brýnt að tryggja öldruðum viðunandi úrræði, þar á meðal nægjanleg hjúkrunarrými og heimaþjónustu, sem gerir þeim kleift að búa við öryggi og virðingu. Þetta stuðlar einnig að betri nýtingu heilbrigðiskerfisins og eykur lífsgæði aldraðra. BSRB leggur áherslu á að stjórnvöld setji fram áætlun og viðeigandi fjármagn til að mæta þessum brýnu þörfum.
Efla þarf fjarheilbrigðisþjónustu, sjúkraflutninga og sjúkraflug, til að tryggja öryggi og aðgengi allra íbúa landsins. Sömuleiðis þarf að hækka verulega endurgreiðslur á ferða- og dvalarkostnaði íbúa landsbyggðarinnar til að tryggja sömu réttindi fyrir öll við að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Jafnframt þarf að tryggja að heimaþjónusta sé í samræmi við gefin fyrirheit um landið allt, óháð búsetu og aldri. Stórbæta þarf aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu til að tryggja að þau fái viðeigandi stuðning og meðferð þegar á þurfa að halda.
Fíknisjúkdómar hafa eyðileggjandi áhrif á heilsu, fjárhag og lífshamingju einstaklinga og fjölskyldna. BSRB leggur ríka áherslu á aukið eftirlit og forvarnir til að vernda bæði einstaklinga og samfélagið frá þessum skaðlegu áhrifum. Jafnframt þarf að auka fjármagn til meðferðarúrræða vegna fíknisjúkdóma.
Í ljósi þeirrar ógnar sem netsala áfengis getur haft á lýðheilsu styður BSRB við þá yfirlýsingu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), um mikilvægi gagnreyndrar áfengisstefnu, og að viðhalda einkasölu ríkisins á áfengi í gegnum ÁTVR í samræmi við lýðheilsusjónarmið og gildandi lög.