Ályktun 47. þings um réttlát umskipti

Loftslagsbreytingar eru stærsta tilvistarógnin sem mannkyn hefur staðið frammi fyrir. Afleiðingarnar eru meðal annars skógareldar, flóð, skriðuföll, hvirfilbylir, þurrkar, heilsutjón og dauðsföll. Kostnaðurinn af þessu er gígantískur og talið er að hann nemi að lágmarki um 2 milljörðum króna á hverri klukkustund á heimsvísu og fari vaxandi. Ríki heims þurfa því að grípa til markvissra aðgerða strax og Ísland er þar engin undantekning. Yfir 90% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er frá fyrirtækjum en þrátt fyrir það er almenningur látinn bera þyngstu efnahagslegu byrðarnar af umhverfissköttum. Við það verður ekki unað. Baráttan við loftslagsbreytingar krefst samhents átaks stjórnvalda, fyrirtækja og launafólks. Réttlát umskipti eiga að vera leiðarljósið í allri stefnumótun og aðgerðum. Þannig drögum við úr ójöfnuði, stöndum vörð um vinnumarkaðstengd réttindi og stuðlum að starfsþróun. 47. þing BSRB krefst þess að stjórnvöld hefji strax vinnu í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á grundvelli ályktunar 111. þings Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttlát umskipti. 

 

Reykjavík, 4. október 2024

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?