Lífeyriskerfi Íslendinga stendur á sterkum grunni byggðum á þremur stoðum: Opinberu almannatryggingakerfi, atvinnutengdum lífeyrissjóðum með skylduaðild og frjálsum lífeyrissparnaði. Styrkur íslenska kerfisins felst að stórum hluta í sjóðsöfnun en með því er átt við að eignir eru lagðar fyrir jafnóðum og réttinda er aflað til greiðslu lífeyris síðar.
Lífeyrissjóðir
Með lögfestingu tilgreindrar séreignar árið 2023 hefur samtryggingarþáttur lífeyriskerfisins veikst á kostnað séreignar, ósamræmi í kerfinu aukist sem og áhætta sjóðsfélaga. Breytingin getur haft verulega neikvæð áhrif á lífeyrisréttindi tekjulægra fólks, kvenna og þeirra sem verða öryrkjar snemma á starfsævinni. Markmiðið með jöfnun lífeyrisréttinda á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins, samkvæmt samkomulagi sem var gert árið 2016, var að samræma lífeyrisréttindi og auka sjálfbærni kerfisins. Lögfesting tilgreindrar séreignar gengur þvert á þau markmið. BSRB er mótfallið breytingum á lífeyrissjóðunum sem auka flækjustig þess og áhættu sjóðsfélaga.
BSRB leggur ríka áherslu á að staðinn verði vörður um samtryggingarsjóðina og að breytingar á lífeyrissjóðakerfinu stuðli að styrkingu þeirra. Tryggja þarf meiri jöfnun milli sjóða vegna mismunandi örorkubyrði með auknum fjárframlögum frá ríkinu og draga úr hvötum til séreignarsparnaðar innan skylduiðgjalda. Hvatarnir birtast meðal annars í því að hægt er að taka hann út frá 60 til 62 ára aldri. Misrétti skapast milli þeirra sem eru með allan sinn lífeyri í samtryggingu og hinna sem geta tekið hluta skyldubundna lífeyrisins út sem séreign áður en starfsævi lýkur. Þau sem hafa tekið út þá séreign sína sem er hluti af skylduiðgjaldi fá þannig lægri greiðslur úr lífeyrissjóði þegar starfsævinni lýkur en auka tekjur sínar með hærri greiðslum frá almannatryggingum. BSRB er á móti einstaklingshyggju í lífeyrismálum og krefst þess að stjórnvöld beygi af þeirri braut.
BSRB krefst þess að þær stéttir sem þurfa að hætta að vinna fyrr, til dæmis vegna álags í starfi sem slítur þeim fyrir aldur fram, fái rétt til snemmtöku lífeyris sem fjármagnaður verði sérstaklega með hærra mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Sömuleiðis þarf að tryggja að fólk sem þess óskar geti unnið þrátt fyrir að 70 ára aldri sé náð og njóti þess í lífeyrisréttindum sínum.
Almannatryggingar
Almannatryggingar eru mikilvægur hluti af öryggisneti velferðarsamfélagsins til að tryggja mannsæmandi lífskjör þeirra sem ekki hafa náð að safna nægilegum lífeyrissparnaði á starfsævinni eða hafa misst starfsgetu vegna veikinda, slysa eða fötlunar.
BSRB krefst þess að launafólk sem greitt hefur í lífeyrissjóði alla starfsævina sjái þess stað í afkomu sinni þegar kemur að starfslokum. Tryggja þarf að greiðslur almannatrygginga fylgi launaþróun í landinu og hækka þarf almenn frítekjumörk sem hafa staðið í stað frá árinu 2017. Þannig hefur sífellt hærra hlutfall greiðslna frá lífeyrissjóði skert greiðslur almannatrygginga því frítekjumörkin hafa ekki þróast til samræmis við verðlag.
BSRB styður meginmarkmið nýs örorkulífeyriskerfis sem eru m.a. að bæta afkomu örorkulífeyrisþega, einfalda örorkulífeyriskerfið og auðvelda þátttöku og endurkomu einstaklinga á vinnumarkað eftir áföll. Mikilvægt er að fólki sé gert kleift að snúa aftur á vinnumarkaðinn eftir veikindi, slys eða önnur áföll. Rannsóknir sýna að fjárhagsáhyggjur og slæm fjárhagsstaða hafa verulega neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks og geta leitt til langtímaveikinda. BSRB telur þó ýmsa ágalla á nýju fyrirkomulagi í tengslum við starfsgetumat örorkulífeyriskerfisins. Heilsugæslunni er falið veigamikið hlutverk í nýju kerfi en heilsugæslan hefur verið vanfjármögnuð um árabil og þjónustan skert. Án viðbótarfjármagns mun heilsugæslan veikjast enn frekar og hið opinbera heilbrigðiskerfi þar með.
Ný tegund virknigreiðslna frá Vinnumálastofnun fyrir þau sem eru á hlutaörorku veldur líka áhyggjum. Í raun er búið að setja hluta fólks með skerta starfsgetu í þá stöðu að eiga erfitt með að hafna atvinnu af ótta við að missa virknigreiðslurnar. BSRB telur nýtt kerfi ekki taka tillit til þess að fólk með skerta starfsgetu er ekki í sömu aðstæðum og fólk sem er í atvinnuleysistryggingakerfinu. Einnig þarf að tryggja að framboð á viðeigandi hlutastörfum sé til staðar, ekki síst hjá hinu opinbera. BSRB hafnar skilyrðingum á atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu og mun berjast fyrir því að þessi þáttur nýs kerfis verði endurskoðaður sérstaklega þegar til endurskoðunar kerfisins kemur í árslok 2028. BSRB leggur einnig áherslu á að almannatryggingar og lífeyrissjóðir vinni betur saman þegar kemur að réttindum vegna örorku.