Réttindi vaktavinnufólks

Vinnufyrirkomulag vaktavinnufólks er með öðrum hætti en þeirra sem vinna dagvinnu. Því eru fjölmörg ákvæði kjarasamninga sem fjalla eingöngu um vaktavinnufólk.

Réttindi vaktavinnufólks

  • Vinnutími vaktavinnufólks

    Í kjarasamningum sem undirritaðir voru vorið 2020 var samið um styttingu vinnuvikunnar. Breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks tóku gildi 1. maí 2021. Vinnuvika vaktavinnufólks í fullu starfi er 36 stundir, en fyrir það vaktavinnufólk sem vinnur nokkurn hluta utan dagvinnumarka getur vinnuvikan farið niður í 32 stundir.

  • Fæðispeningar

    Greiðsla fæðispeninga þegar matstofa er lokuð. 

    Í flestum kjarasamningum aðildarfélaga BSRB er kveðið á um að greiða skuli starfsmönnum fæðispeninga sem eru á vakt þegar matstofa vinnustaðar sé ekki opin. Kjarasamningsákvæðið felur í sér að jafn vel þó atvinnurekandi gefi starfsmönnum kost á að panta mat á þeim tíma sem matstofan er lokuð þarf engu að síður að greiða fæðispeningana. Almennt hljóðar umrætt kjarasamningsákvæði svo:

    „Starfsmaður á vakt þegar matstofa vinnustaðar er ekki opin skal fá það bætt með fæðispeningum sem nema 380 kr. enda sé vinnuskylda starfsmanns a.m.k. 1 klst. fyrir og 1 klst. eftir umsamda matartíma á viðkomandi vakt sbr. tímasetningar matartíma í gr. 3.2.1“
    Ágreiningur um túlkun þessa ákvæðis varð milli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) og er fjallað um hann í Félagsdómi nr. 11/2013.

    Málsatvik voru þau að starfsmönnum HSu gafst kostur á að panta mat fyrir kvöld- eða næturvakt fyrir kl. 13 þann dag er vaktin átti að hefjast. Matarbakkinn var sendur á deild viðkomandi starfsmanns með kvöldmatnum fyrir deildina. Á öllum deildum er hægt að hita matinn upp og aðstaða til að setjast niður og borða. Á hverri deild er kaffistofa, býtibúr með ísskáp, borði, kaffikönnu, leirtaui og því sem fylgi venjulegu eldhúsi.

    Dómurinn taldi að fyrrnefnd aðstaða til að matast fullnægði ekki því að geta talist matstofa í skilningi ákvæða kjarasamnings né heldur samkvæmt almennum málskilningi. Var því niðurstaðan sú að matstofan væri ekki opin þegar starfsmaðurinn var við störf á kvöld – og næturvöktum. Hsu hefði því borið að greiða henni fæðispeninga samkvæmt tilvitnuðu kjarasamningsákvæði. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi verið brotið gegn umræddri kjarasamningsgrein.

  • Matar- og kaffitímar

    Samkvæmt kjarasamningum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga hefur starfsfólk í vaktavinnu ekki sérstakan matar- og kaffitíma. Almennt er ákvæði þess efnis að finna í gr. 2.6.9 í kjarasamningum. Ákvæði þar um eru flest samskonar og er svohljóðandi í kjarasamningi Samflots við Samband íslenskra sveitarfélaga:

    2.6.9 Starfsfólk í vaktavinnu hefur ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsmönnum er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni, þegar því verður við komið starfsins vegna.

  • Vinnuskil vegna sérstakra frídaga og stórhátíðardaga

    Árleg vinnuskylda vaktavinnufólks sem vinnur á reglubundnum vöktum skal að jafnaði vera sú sama og hjá dagvinnufólki. Vaktavinnufólk getur þurft að vinna á sérstökum frídögum og stórhátíðardögum ef slíkir dagar falla á vaktskrá og er þá greitt stórhátíðarálag. Óháð því hvort vaktavinnumaður vinnur umrædda frídaga lækkar vinnuskylda hennar/hans um 7,2 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf vegna sérstakra frídaga og stórhátíðardaga sem falla á virka daga og um 3,6 stundir vegna aðfangadags og gamlársdags. Að jafnaði skal taka út lækkun á vinnuskilum innan tímabils vaktskrár en starfsmaður getur óskað eftir því að safna upp vinnuskilum vegna sérstakra frídaga og stórhátíðardaga. Skal það tilkynnt fyrir framlagningu vaktskrár og er yfirmanni skylt að verða við óskum starfsmanns enda verði því viðkomið vegna starfsemi stofnunar. 

  • Vægi vinnuskyldustunda

    Um vægi vinnuskyldustunda er fjallað í grein 2.6.8 í kjarasamningi.

    Vinnuskyldustundir utan dagvinnumarka samkvæmt skipulagðri vaktskrá hafa ólíkt vægi. Vinnuskyldustundir sem greiddar eru með 33,33% og 55% vaktaálagi hafa vægið 1,05 þannig að fyrir hverjar 60 mínútur reiknast 63 mínútur upp í vinnuskil. Stundir sem greiddar eru með 65% og 75% vaktaálagi hafa vægið 1,2 þannig að fyrir hverjar 60 mínútur reiknast 72 mínútur.

    Þrátt fyrir þetta skulu vinnuskil starfsmanns í fullu starfi aldrei fara undir 32 stundir að jafnaði.  

  • Vaktahvati

    Um vaktahvata er fjallað í grein 2.6.10 í kjarasamningi.

    Vaktahvati er greiddur sem hlutfall mánaðarlauna vegna fjölbreytileika og fjölda vakta á launatímabili samkvæmt skipulögðum vöktum innan vinnuskyldu. Vaktir eru flokkaðar í fjóra flokka, dagvakt, næturvakt, helgarvakt og kvöldvakt. Starfsmaður verður að mæta til vinnu í minnst tvo flokka og ná 15 stundum í hverjum flokki. Lágmarksfjöldi stunda utan dagvinnumarka til að telja í vaktahvatann er 42 stundir. Starfsmaður þarf að auki að mæta minnst 14 sinnum til vinnu á launatímabili. Vaktahvatinn getur numið á bilinu 2,5% til 12,5% af mánaðarlaunum starfsmanns.

     

  • Vaktaálag

    Vaktaálag er greitt fyrir vinnu utan dagvinnutíma með eftirfarandi hætti:

    • 33,33% kl. 17:00 – 24:00 mánudaga til fimmtudaga
    • 55,00% kl. 17:00 – 24:00 föstudaga
    • 65,00% kl. 00:00 – 08:00 þriðjudaga til föstudaga
    • 55,00% kl. 08:00 – 24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga
    • 75,00% kl. 00:00 – 08:00 laugardaga, sunnudaga, mánudaga og sérstaka frídaga
    • 90,00% kl. 00:00 – 24:00 stórhátíðardaga, þó þannig að á frá kl. 16:00 til 24:00 á aðfangadag og gamlársdag og kl. 00:00 til 08:00 á jóladag og nýársdag er 120% álag.

    Brot úr klukkustund greiðist hlutfallslega.

     

     

     

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?