Tilgangur áminningar er bregðast við tilteknu framferði opinbers starfsmanns og að veita honum færi á að bæta ráð sitt í kjölfar starfsbrots. Verði hann uppvís að sams konar framferði og áminning hefur verið veitt fyrir kann það að leiða til uppsagnar. Gerðar eru ríkar kröfur til stjórnvalds um sönnun fyrir því að starfsmaður hafi gerst sekur um þær ávirðingar sem áminning er reist á.
Mismunandi reglur gilda um áminningu starfsmanna ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Fjallað er um áminningarskyldu ríkisstarfsmanna í lögum en í kjarasamningum varðandi starfsmenn sveitarfélaga. Ákvæðin eru að miklu leyti samhljóma en þó er munur á því hvort þau taki til framferðis innan eða utan starfs. Reglur um áminningu starfsmanna ríkisins varða bæði atriði sem snúa að framferði starfsmanns innan og utan starfs, sbr. orðalag 21. gr. starfsmannalaga:
Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.
Hjá starfsmönnum sveitarfélaga er ákvæði um áminningu vegna starfsbrots hins vegar bundin við atriði sem snúa að framferði starfsmanns í starfi:
Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða afhafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal vinnuveitandi veita honum skriflega áminningu.
Sveitarfélög hafa þannig ekki heimild til að áminna starfsmann og eftir atvikum segja honum upp í kjölfar áminningar vegna hegðunar utan starfs nema heimild til þess sé ótvírætt til staðar í kjarasamningi eða lögum. Að öðrum kosti getur ákvörðunin verið talin ólögmæt, sbr. Hrd. nr. 396/2015.
Því til viðbótar gilda reglur stjórnsýsluréttar við töku ákvörðunar um veitingu áminningu en þær reglur hafa að nokkru leyti verið tilgreindar í kjarasamningsákvæðum varðandi starfsmenn sveitarfélaga.
Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda um aðdraganda og veitingu áminningar. Umfjöllunin þar á eftir tekur jöfnum höndum til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga nema annað sé sérstaklega tilgreint. Loks verður fjallað um áminningar á almennum vinnumarkaði eftir því sem við á en almennt er áminning ekki nauðsynlegur undanfari lögmætrar áminningar á almennum vinnumarkaði.
Uppsagnir af ástæðum sem varða ekki starfsmanninn sjálfan, s.s. hagræðing í rekstri, fækkun starfsmanna eða skipulagsbreytingar eru ekki háðar undanfarandi áminningu á hendur starfsmanni, sbr. t.d. Hrd. nr. 376/2016. Undir slíkum kringumstæðum þarf því ekki að áminna starfsmann svo að uppsögn geti verið heimil, svo lengi sem að um raunverulega hagræðingu eða skipulagsbreytingu sé um að ræða. Sjá nánari umfjöllun hér.