Ályktun 47. þings BSRB um húsnæðismál

Það að hafa þak yfir höfuðið er mannréttindi. Skortur á húsnæðisöryggi grefur undan velferð og hefur alvarlegar fjárhagslegar og félagslegar afleiðingar, sérstaklega fyrir börn.

47. þing BSRB krefst þess að stjórnvöld tryggi fólki húsnæðisöryggi. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld að leggja megináherslu á uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf. Markmið stjórnvalda ætti að vera að fólk greiði ekki meira en 25% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað. Fjárfestar hafa í auknum mæli keypt íbúðir í hagnaðarskyni á sama tíma og sífellt fleiri eiga erfitt með að finna sér viðeigandi húsnæði á viðráðanlegu verði. Húsnæðisverð hefur hækkað umfram verðlag og launavísitölu og þau sem verst verða úti eru láglaunafólk, innflytjendur, ungt fólk og börn þeirra.

47. þing BSRB krefst þess að stjórnvöld fjármagni að lágmarki stofnframlög til 1000 íbúða árlega á næstu árum í almenna íbúðakerfinu til að tryggja húsnæðisöryggi fyrir launafólk í lægri tekjuhópum og fjölskyldur þeirra. Um 4.000 umsóknir eru eftir íbúð hjá Bjargi íbúðafélagi og þarf því að auka fjárframlög til félagsins til muna og auka lóðaframboð. Ríki og sveitarfélög verða einnig að greiða götu leigufélagsins Blævar, sem er óhagnaðardrifið leigufélag í eigu BSRB og ASÍ, til að auka valkosti launafólks sem er yfir tekjuviðmiðum í almenna íbúðakerfinu og stuðla þannig að húsnæðisöryggi fyrir öll.

Framboð húsnæðis hefur ekki aukist nægilega mikið á undanförnum árum, en til marks um það hafa einungis fjögur af 64 sveitarfélögum lýst því yfir að þau ætli sér að taka þátt í húsnæðissáttmálanum. Sveitarfélög og ríkið verða að tryggja að byggt sé nægilega mikið af húsnæði, enda blasir hér annars við enn alvarlegri húsnæðisskortur, enn meiri hækkanir, aukin verðbólga og háir vextir.

Stjórnvöld verða að endurskoða húsnæðisstuðning við leigjendur, sem hefur rýrnað að raungildi. Einnig hefur fækkað verulega í hópi þeirra sem eiga rétt á vaxtabótum. 47. þing BSRB gerir þá kröfu að stjórnvöld tryggi öllum húsnæðisstuðning sem á þurfa að halda, og að fjárhæðir og skerðingarmörk fylgi verðlagi.

 

Reykjavík, 4. október 2024

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?