Hátt atvinnustig er ein af undirstoðum velferðarsamfélagsins og því er brýnasta viðfangsefni stjórnvalda hvers tíma að búa svo um að sem flest hafi tök á að stunda atvinnu við hæfi.
Atvinnustefna
BSRB leggur áherslu á að mótuð verði atvinnustefna fyrir Ísland í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að efla stoðir efnahagskerfisins. Vinnumarkaðurinn er að taka miklum breytingum, þá helst vegna tækniþróunar, breyttrar samsetningar þeirra sem hér búa með tilliti til aldurs og uppruna og loftslagsbreytinga. Stefnan þarf einnig að taka mið af réttlátum umskiptum til kolefnishlutleysis. Fyrir vinnumarkaðinn þýðir það að leggja þarf áherslu á grænar fjárfestingar sem skapa störf sem eru launuð með sanngjörnum hætti, veita atvinnuöryggi og vinnumarkaðstengd réttindi. Mikilvægur liður í umskiptunum er að gera fólki kleift að efla þekkingu sína og færni með sí- og endurmenntun á launum til að takast á við ný eða breytt störf.
Gervigreind
Ætla má að breytingar verði á störfum sökum gervigreindar. Nauðsynlegt er að efla þekkingu á notkun á gervigreind. Kenna þarf launafólki að hagnýta sér tæknina en ekki sýst að greina hlutdrægni og mismunun sem er innbyggð í gervigreindinni þar sem hún er mannanna verk. Mikilvægt er að lög og reglur liggi fyrir og séu aðgengilegar og gætt sé að öryggisþáttum þegar gervigreind er notuð.
Landshlutar
BSRB vill að staða landshlutanna verði styrkt svo þeir hafi aðdráttarafl fyrir fólk til búsetu og starfa. Styrkja verður uppbyggingu atvinnulífs og opinberrar þjónustu á landinu öllu. Verð á orku þarf að vera sambærilegt um land allt og sömuleiðis aðgengi að netsambandi og ljúka þarf ljósleiðaravæðingu sem er forsenda starfa og menntunar án staðsetningar.
Öflug almannaþjónusta
Opinber vinnumarkaður veitir almannaþjónustu sem tryggir jafnræði og aðgengi að félagslegum innviðum líkt og heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntun og opinberar fjárfestingar tryggja efnislega innviði eins og mannvirki, samgöngur og fjarskipti. Þannig skilar almannaþjónustan og opinberar fjárfestingar samfélagslegum arði með því að mynda þann grunn sem nauðsynlegur er fyrir öflugt atvinnulíf og nýsköpun. BSRB krefst þess að almannaþjónustan verði efld með því að byggja upp enn sterkari opinberan vinnumarkað sem er samkeppnisfær um starfsfólk við hinn almenna vinnumarkað.