Allir njóta friðhelgi um einkalíf sitt og persónu hvort heldur er í starfi eða frítíma, innan veggja heimilis og á vinnustað. Starfsmenn eiga því rétt til að njóta persónuverndar í ráðningarsambandi og á vinnustað.
Lagaumhverfi Íslendinga verndar friðhelgi einkalífsins með ýmsum hætti. Helst ber að nefna ákvæðis 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, mannréttindasáttmála Evrópu sem lögleiddur var með lögum nr. 62/1994 og alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þá er að finna ákvæði til verndar friðhelgi einkalífs í almennum hegningarlögum nr. 19/1940, og lög nr. 80/2019 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Sérlög um friðhelgi einkalífsins eða ákvæði þar um í atvinnulífinu er ekki fyrir hendi hér á landi líkt og víða tíðkast t.d. á Norðurlöndunum.
Þróunin á ákvæðum laga um friðhelgi einkalífs hefur verið sú að gildissvið reglunnar hefur rýmkað verulega og tengsl þess við vernd persónuupplýsinga stórlega aukin. Umfjöllunarefnið hér varðar friðhelgi einkalífs og persónuvernd í atvinnulífinu. Möguleikar atvinnurekenda til að halda uppi eftirliti hafa í samræmi við þróun á sviði upplýsinga- og samskiptatækni hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Þá hafa atvinnurekendur ákveðinn rétt til að fylgjast með starfsmönnum á grundvelli atvinnufrelsis og eignarréttar þeirra á þeim hlutum sem starfsmenn nota við vinnu sína. Þannig mætast þessir ólíku hagsmunir starfsmannsins annars vegar og atvinnurekandans hins vegar sem báðir njóta stjórnarskrárverndar.