Öflug almannaþjónusta er fjárfesting í fólki og friði. Fjármálastefna stjórnvalda felur aftur á móti í sér lækkandi hlutdeild opinberra útgjalda með hliðsjón af landsframleiðslu. Niðurskurðarstefna og sú mikla samþjöppun auðs sem er að verða hér á landi er skaðleg fyrir samfélagið, ýtir undir stéttskiptingu, eykur hættuna á jaðarsetningu og fátækt, auknum ójöfnuði í ráðstöfunartekjum, heilsu og menntun. BSRB hafnar þessari stefnu sem dregur úr félagslegri samheldni, dregur þróttinn úr hagkerfinu og eykur hættu á misbeitingu pólitísks valds. Efla þarf almannaþjónstuna og tilfærslukerfin samhliða frekari tekjuöflun hins opinbera.
Hagstjórnarákvarðanir stjórnvalda ættu að styðja við kjarasamninga en ekki taka til baka þær kjarabætur sem launafólk ávinnur sér. Verðbólga er aftur farin á kreik eftir áratug af stöðugu verðlagi. Þetta hefur dregið úr kaupmætti launafólks. Verðbólguna má helst rekja til þess að undanfarin ár hefur skattalækkunum og óvæntum meiriháttar útgjöldum ekki verið mætt með tekjuöflun. Eftirlit stjórnvalda með markaðsöflunum er í skötulíki auk þess sem fákeppni á mörgum mörkuðum ýtir undir hærra verðlag. Skortur á húsnæði hefur valdið því að húsnæðis- og leiguverð hefur hækkað umfram verðlag og fögrum áformum um uppbyggingu hefur ekki verið fylgt eftir. Afleiðingar verðbólgunnar eru hátt vaxtastig langt umfram það sem heimilin og fyrirtækin geta borið. BSRB krefst þess að verðlagsþróun verði tekin föstum tökum með uppbyggingu húsnæðis og öflugu samkeppniseftirliti. BSRB leggur áherslu á að skattkerfið stuðli að jöfnuði og samfélagssátt. Þau sem betur eru stæð ættu að leggja hlutfallslega meira til en hin sem eru verr stödd með sérstöku skattþrepi á allra hæstu tekjurnar og stóreignaskatti á hreina eign þeirra allra ríkustu. BSRB krefst þess að brugðist verði við auknum eignaójöfnuði og að eignamyndun eignarhaldsfélaga sem ekki eru í atvinnurekstri verði skattlögð hjá eigendum.
BSRB vill að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður þannig að tekjuskattur á rekstrarhagnað og fjármagnstekjuskattur verði sambærilegur við tekjuskatt á launatekjur og að skatthlutfallið sé hærra fyrir þá sem eru með hæstu fjármagnstekjurnar. Einnig þarf að herða reglur um skattlagningu reiknaðs endurgjalds þannig að ákveðið lágmark heildartekna verði skattlagðar sem almennar tekjur. Þá þarf að stórefla skattaeftirlit, en fjárveitingar í þann málaflokk skila sér margfalt til baka í opinbera sjóði með aukinni skattheimtu. Sveitarfélögin veita íbúum sínum mikilvæga þjónustu og verkefnum þeirra fjölgar jafnt og þétt. Tekjustofnar sveitarfélaga endurspegla ekki þessa þróun. Þessi þróun hefur leitt til þess að laun starfsfólks hjá sveitarfélögunum eru að jafnaði þau lægstu á íslenskum vinnumarkaði og uppbygging mikilvægrar grunnþjónustu er ófullnægjandi með auknu álagi á starfsfólk og fjölskyldur, sérstaklega konur. BSRB telur því nauðsynlegt að hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum hins opinbera verði endurskoðuð og aukin.
Ísland er ríkt af auðlindum. BSRB krefst þess að auðlindir verði í almannaeigu og þjóðin fái réttmæta hlutdeild í arðinum sem nýting þeirra skapar. Auðlindagjöld fyrirtækja sem nýta sameiginlegar auðlindir eiga að taka mið af þeirri rentu sem til verður við nýtingu þeirra. BSRB leggur áherslu á opinbert eignarhald á grunninnviðum samfélagsins og leggst alfarið gegn sölu opinberra fyrirtækja.
Álagning kolefnisgjalds á jarðefnaeldsneyti er mikilvægur liður í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. BSRB krefst þess að áður en ákvarðanir um skattlagningu eða skattaívilnanir til að draga úr losun eru teknar verði gerð greining á áhrifum skattlagningarinnar á mismunandi tekjuhópa. Ef byrðarnar reynast leggjast þungt á tekjulægri hópa verður að bregðast við með fjárfestingum í loftslagsvænni þjónustu sem getur komið í stað þeirrar sem verið er að skattleggja eða með beingreiðslum til tekjulægri hópa sem verst verða fyrir barðinu á skattlagningunni.
Barnabætur
BSRB telur það forgangsmál að bæta stöðu tekjulægri fjölskyldna. Samfélag jafnaðar verður ekki byggt nema allar fjölskyldur geti boðið börnunum sínum upp á sambærileg tækifæri óháð efnahag og búsetu. Sérstaklega þarf að auka stuðning við einstæða foreldra en börn þeirra eru í mun meiri áhættu að lenda í fátækt en önnur börn. Ísland sker sig úr gagnvart hinum Norðurlöndunum hvað barnabætur varðar. Norræna velferðarkerfið gerir almennt ráð fyrir því að réttur til barnabóta sé sá sami vegna allra barna óháð efnahag foreldra nema í Danmörku þar sem barnabætur eru skertar hjá fólki sem er komið um eða yfir meðaltekjur. BSRB telur nauðsynlegt að endurskoða íslenska kerfið frá grunni, líta til danska kerfisins sem fyrirmyndar og leggja bestu mögulegu gögn um kjör barnafjölskyldna til grundvallar. Hér á landi hafa verið gerðar umbætur á barnabótakerfinu í tengslum við gerð kjarasamninga en ganga þarf mun lengra til að tryggja að bæturnar skerðist ekki fyrr en við meðallaun en nú fá aðeins tekjulægstu fjölskyldurnar fullar barnabætur. Barnabætur eiga að fylgja launaþróun og vera þær sömu fyrir öll börn óháð aldri.
Húsnæðisstuðningur
BSRB leggur áherslu á að húsnæðisstuðningskerfin tryggi að húsnæðiskostnaður sé ekki umfram 25% af ráðstöfunartekjum svo að tekjulægri heimili og fólk með þunga framfærslubyrði séu ekki með íþyngjandi byrði húsnæðiskostnaðar.
Beinn húsnæðisstuðningur ríkisins við eigendur hefur tekið eðlisbreytingum með heimild til að nýta skattfrjálsan séreignasparnað til að greiða niður húsnæðislán. Í stað þess að húsnæðisstuðningur við eigendur sé greiddur úr ríkissjóði með vaxtabótum er fólk að ganga á eigin lífeyrissparnað til öflunar húsnæðis og ríki og sveitarfélög verða af skatttekjum til framtíðar. Á sama tíma hefur dregið úr stuðningi vaxtabótakerfisins ár frá ári og eru fjárframlög til kerfisins nú hverfandi. Því er mikilvægt að húsnæðisstuðningur til fólks, með meðaltekjur eða lægri, sem býr í eigin húsnæði verði endurskoðaður frá grunni.
Húsnæðisbætur til leigjenda hafa hækkað á undanförnum árum til samræmis við verðlag. Tryggja þarf að þessi þróun haldi áfram. Húsnæðisstuðningur til leigjenda er tvíþættur, annars vegar tekju- og eignatengdar almennar húsnæðisbætur sem ríkissjóður fjármagnar og hins vegar sérstakur tekju- og eignatengdur húsnæðisstuðningur sveitarfélaga. Sum sveitarfélög binda stuðninginn ákveðnum skilyrðum um félagslega stöðu en önnur ekki. Unnið hefur verið að því að sameina bæði kerfin í eitt til að tryggja jafnræði milli leigjenda óháð búsetu en fjármögnun hefur ekki verið tryggð. BSRB krefst þess að tryggt verðifjármagn svo að hægt verði að sameina kerfin, leigjendum til hagsbóta.
Atvinnuleysis- og almannatryggingar
Fólk á rétt á öruggri afkomu í gegnum ólík æviskeið, aðstæður og áföll á lífsleiðinni. Öryggisnetið á að tryggja afkomu okkar þegar við veikjumst, slösumst, eldumst eða missum vinnuna. Á Íslandi eru hópar aldraðra, öryrkja, atvinnulausra og vinnandi fólks sem búa við ótrygga afkomu og líða efnislegan skort. Það er bæði óþarft og óásættanlegt. Tryggja þarf að fjárhæðir almannatrygginga og frítekjumörk fylgi launaþróun og hækka verður atvinnuleysisbætur þannig að þær séu ekki lægri en lægstu laun á vinnumarkaði. Tekjutengdar bætur greiðist strax í kjölfar atvinnumissis og í sex mánuði.