Ein af meginkröfum BSRB er að fólk geti lifað mannsæmandi lífi á launum sínum. Rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður og kerfisbundið vanmat á hefðbundnum kvennastörfum er ein helsta skýringin á launamun kynjanna. Enn fremur að helsta leiðin til að leiðrétta laun kvennastétta sé með gerð heildstæðs virðismatskerfis til að bera megi saman jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði sem heyra undir sama launagreiðanda. BSRB leggur áherslu á að vinnu við gerð virðismatskerfis sem taki til allra starfa hjá ríkinu verði hraðað svo endurmeta megi störfin sem fyrst. Samhliða verði unnið að gerð verkfæra og fræðslu til stjórnenda sem styðji við innleiðingu. Þá verði þróuð samningaleið að nýsjálenskri fyrirmynd til að fjalla um jafnlaunakröfur einstaklinga. Starfsmatskerfi sveitarfélaganna verði einnig tekið til heildarendurskoðunar með launajafnrétti og bestu stöðu þekkingar að leiðarljósi. Þannig verði starfsfólki ríkis og sveitarfélaga tryggt jafnrétti í launum og afsláttarkjör á vinnu þeirra heyri sögunni til.
Um fjórðungur allra á íslenskum vinnumarkaði eru innflytjendur. Rannsóknir sýna að innflytjendur eru að jafnaði með lægri laun en innfæddir, þau eru oftar með menntun umfram þá sem krafist er fyrir störfin sem þau sinna og þau verða frekar fyrir réttindabrotum á vinnumarkaði. Hlutfall innflytjenda á atvinnuleysisskrá hefur hækkað mikið síðustu ár. Stjórnvöld, stéttarfélög og samfélagið allt bera ábyrgð á því að búa til inngildandi samfélag. Grípa þarf til margþættra aðgerða til þess að bæta stöðu innflytjenda, þar á meðal þarf að einfalda mat á fyrra námi, tryggja skilvirka upplýsingaþjónustu um íslenskt samfélag og réttindi á vinnumarkaði og gjaldfrjálsa íslenskukennslu á vinnutíma.
BSRB krefst þess að launamunur milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verði jafnaður samkvæmt samkomulagi um lífeyrismál frá september 2016. Tekin hafa verið skref í rétta átt með gerð tveggja áfangasamkomulaga en BSRB leggur ríka áherslu á að vinnunni verði hraðað, komist verði að samkomulagi til framtíðar og launamuni milli markaða útrýmt. Samhliða því verði formfest sérstök launaþróunartrygging en megintilgangur hennar er að tryggja samræmi í launaþróun á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins eftir að jöfnun hefur verið náð.
BSRB krefst þess að ríki og sveitarfélög setji sér reglur um mönnunarþörf þannig að öryggi starfsmanna og skjólstæðinga sé tryggt, álag minnki, starfs- og vinnuumhverfi sé samkvæmt reglum Vinnueftirlitsins og hvíldartíma ákvæði séu virt. Þessar reglur nái einnig til þeirra séreignastofnana og fyrirtækja sem eru með þjónustusamninga við opinbera aðila.
Stytting vinnuvikunnar
BSRB hefur náð sögulegum árangi við styttingu vinnuvikunnar með kjarasamningum um 36 tíma vinnuviku. Lögfesta þarf styttingu vinnuvikunnar og tryggja að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar. Á næstu árum þarf að ganga lengra í styttingu vinnutíma, með það að markmiði að vinnuvikan verði 32 stundir og öll fái vetrarfrí.
Styttri vinnuvika leiðir til meiri starfsánægju og aukinna afkasta, minni streitu vegna samþættingar fjölskyldu- og atvinnulífs, bættrar heilsu og aukinnar vellíðan. Hún stuðlar einnig að auknu jafnræði í ábyrgð á heimilis- og umönnunarstörfum, aukinni atvinnuþátttöku kvenna og að konur festist ekki í hlutastörfum vegna fjölskylduábyrgðar.