Jafnréttislögin nr. 150/2020 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 banna hvers kyns mismunun á grundvelli allra þeirra breyta sem nefndar eru í lögunum. Eru það kyn, kynþáttur, þjóðernisuppruni, trú, lífsskoðun, fötlun, skert starfsgeta, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning. Lögin heimila þó sértækar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika hópa sem hallar á, og jafnvel veita forgang um tíma. Einnig er það ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna eða annars fólks sem gengur með barn vegna þungunar og barnsburðar.
Bein mismunun er bönnuð, en það er þegar einstaklingur af öðru kyninu, þjóðernisuppruna eða vegna annarrar breytu, fær hagstæðari meðferð en annar einstaklingur af öðru kyni, þjóðernisuppruna eða annars, fær, hefði fengið eða mundi fá við sambærilegar aðstæður. Dæmi um þetta eru orlofsákvæði kjarasamninga opinberra starfsmanna sem áður miðuðust við lífaldur. Þeim hefur nú verið breytt.
Óbein mismunun er einnig bönnuð, og reynir mun oftar á lögin varðandi slíka mismunun. Óbein mismunun er þegar hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kæmi verr við einstaklinga af öðru kyni, þjóðernisuppruna o.s.frv., borið saman við einstaklinga úr öðrum hópi nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar. Dæmi um þetta má nefna að ef hlutastarfsmenn njóta ekki einhverra starfskjara sem starfsmenn í fullu starfi njóta, og mikill meirihluti hlutastarfsmanna eru konur. Þá væri um óbeina mismunun á grundvelli kyns að ræða, jafnvel þótt skilyrðið starfshlutfall kynni að virðast hlutlaust.
Lagabálkarnir tveir banna mismunun að því er varðar kjör, ráðningar, uppsagnir, þátttöku í samtökum launafólks og atvinnurekenda, starfsþjálfun og fleira sem varðar vinnumarkað.
Forgangsregla jafnréttislaga
Mikilvægur þáttur í jafnréttislögum er hin svokallaða forgangsregla. Hún kemur ekki berum orðum fram í lögunum heldur byggir á dómafordæmum Hæstaréttar. Hún kom fyrst fram í máli nr. 339/1990, sem varðaði skipun í lektorsstöðu í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Kona höfðaði málið þar sem hún taldi að hún hefði verið hæfari en sá karlmaður sem skipaður var. Dómurinn byggir á eldri jafnréttislögum, en hefur þó fullt gildi í dag. Hæstiréttur segir: „Í 1. gr. laga nr. 65/1985 segir, að tilgangur þeirra sé að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Í 2. gr. segir, að konum og körlum skuli með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu og menntunar. Þá segir í 3. gr. meðal annars: ,,Hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, ekki ganga gegn lögum þessum. ..." Loks segir í 9. gr. meðal annars: ,,Atvinnurekendur skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar...“
Af þessu er ljóst, að með lögunum er leitast við að stemma stigu við mismunun. Erfitt er oft og tíðum að sanna, að um hana hafi verið að ræða. Lögin yrðu að þessu leyti þýðingarlitil, nema meginreglurnar i 1., 2., 3. og 9. gr. séu skýrðar svo við núverandi aðstæður, að konu skuli veita starf, ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin, að því er varðar menntun og annað, sem máli skiptir, og karlmaður, sem við hana keppir, ef á starfssviðinu eru fáar konur. Ber að leggja þá skýringu til grundvallar i máli þessu.“
Þessi túlkun Hæstaréttar, þ.e. að konu skuli veita starf ef hún er að minnsta kosti jafn hæf og karlmaður, og fáar konur eru á sviðinu, hefur verið staðfest í fjölmörgum dómum Hæstaréttar síðan.
Uppsagnir eða fækkun starfsmanna
Dómstólar hafa einnig staðfest að jafnréttislög hafa þýðingu þegar fækka á starfsmönnum. Í Hrd. nr. 134/1996 var deilt um hvort við uppsögn konu úr starfi innkaupamanns sérvöru hjá Hagkaup hafi verið mismunað eftir kynferði. Skipulagsbreytingar voru gerðar á innkaupasviði og var starfsmönnum fækkað um einn. Valið stóð á milli konu og karlmanns með sambærilega menntun en skemmri starfsaldur. Hjá Hæstarétti kom fram að það væri atvinnurekandans, að sýna fram á að uppsögnin hafi ekki falið í sér kynjamismunun í skilningi þágildandi jafnréttislaga. Hæstiréttur benti á að í innkaupadeild sérvöru hallaði mjög á karlmenn og skipulagsbreytingarnar höfðu meiri áhrif á starfssvið konunnar. Þótti því nægilega sýnt fram á að konunni hefði ekki verið mismunað eftir kynferði. Hæstiréttur tók þó fram að við takmarkaðar skipulagsbreytingar ættu að vera tök á því að leita fyrst annarra leiða áður en til uppsagna starfsfólks kæmi. Konan hafi verið kunnug starfsemi fyrirtækisins en engin gögn hafi verið lögð fram í málinu um að henni hafi verið boðið sambærilegt starf.
Sambærilegur dómur er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2243/2011. Þar hafði konu verið sagt upp störfum hjá Skjólskógum, skógrækt, en tveir karlar höfðu starfað áfram. Ekki náðist að sanna að karlmennirnir væru hæfari en konan og hallaði á konur á starfssviðinu og því var um brot á jafnréttislögum að ræða.