Ályktun 47. þings BSRB um málefni innflytjenda

Jafnrétti er leiðarljós í allri starfsemi BSRB sem stendur vörð um að stjórnvöld og atvinnurekendur vinni markvisst að jafnrétti með því að tryggja jöfn tækifæri og jafna meðferð fólks á vinnumarkaði. Sérstaklega þarf að tryggja jafna stöðu og möguleika óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, stétt, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, tungumáli, búsetu, félagslegrar stöðu eða efnahags. Þá skal bandalagið sérstaklega vinna að inngildingu og valdeflingu jaðarsettra hópa. Gera ætti fræðslu um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu að skyldu á öllum skólastigum og á vinnumarkaði.

 

Staða kynjanna á vinnumarkaði

Kynskiptur vinnumarkaður er meginástæða launamunar kynjanna á íslenskum vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka kvenna er mjög há en um þriðjungur kvenna er í hlutastörfum vegna þess að þær axla meginábyrgð á fjölskyldu- og heimilisstörfum. Konur eru að jafnaði mun lengur frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna sem hefur verulega neikvæð áhrif á tekjur, launaþróun og starfsþróunarmöguleika þeirra. Einnig er mikill munur milli kvenna og karla þegar kemur að valda- og áhrifastöðum þar sem hallar verulega á konur. Almennt er vinnuvika kvenna lengri en karla þegar launuð sem ólaunuð vinna er lögð saman. Grípa verður til aðgerða á hverju sviði fyrir sig til að útrýma aðstöðu- og launamuni kynjanna, fólks af erlendum uppruna, hinsegin fólks og fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði.

 

Inngilding

BSRB leggur áherslu á inngildingu þegar kemur að jaðarsettum hópum líkt og innflytjendum og fólki með erlendan bakgrunn, fólki með fötlun og hinsegin fólki. Inngilding snýst um að gera ráð fyrir fjölbreytileika fólks í öllum aðstæðum, skapa vinnumarkað og samfélag þar sem öll geta tekið virkan þátt og ólíkir hópar fólks eiga þess kost að koma að ákvarðanatöku. Ábyrgðin liggur hjá samfélaginu öllu og vinnustaðir þurfa að vinna markvisst að inngildingu og virðingu fyrir fjölbreytileika og fjölmenningu. Mikil skautun í samfélagslegri umræðu hefur ýtt undir aðgreiningu og andúð í garð innflytjenda. Það er þvert á grunngildi okkar um jöfnuð, samstöðu og mennsku. Kynt hefur verið undir þær skoðanir að fólk af erlendum uppruna séu byrði á samfélaginu þegar staðreyndin er sú að þau stuðla að þeim hagvexti sem við búum við. Innflytjendur hér á landi eru almennt vel menntaðir, ungir og heilsuhraustir einstaklingar en stór hluti þeirra vinnur störf sem hæfa ekki menntun og reynslu þeirra. Börn eru einnig fjölmennur hópur og huga þarf sérstaklega að þeim, bæði börnum af fyrstu og annarri kynslóð innflytjenda, ekki síst í skólakerfinu. Atvinnuþátttaka karla og kvenna af erlendum uppruna er hærri en þeirra sem eru fædd hér á landi. Þá sýna rannsóknir að meira en helmingur fólks sem er af erlendum uppruna er búinn að taka ákvörðun um að setjast hér að til frambúðar.

BSRB gerir þá kröfu að stjórnvöld og atvinnurekendur grípi strax til aðgerða, hugi að stöðu innflytjenda og skapi inngildandi samfélag. Meta þarf framlag þeirra til samfélagsins að verðleikum og útrýma misrétti á vinnumarkaði þegar kemur að tækifærum og möguleikum til fjölbreyttra starfa og starfsþróunar. Auðvelda verður innflytjendum að fá menntun og reynslu frá heimalandinu viðurkennda og auka aðgengi og framboð af náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimati og námsleiðum sem styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði. Fjárfesta þarf myndarlega í gæða íslenskukennslu fyrir börn og fullorðna og tryggja að fólki á vinnumarkaði verði boðin gjaldfrjáls íslenskukennsla á vinnutíma.

 

Reykjavík, 4. október 2024

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?