BSRB eru stærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi. Öll stéttarfélög starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði geta orðið aðilar að BSRB. Bandalagið var stofnað 14. febrúar 1942 og í dag eru aðildarfélög BSRB 19 talsins og fjöldi félagsmanna um 23.000. Um tveir þriðju félagsmanna eru konur. BSRB hét áður Bandalag starfsmanna ríkis og bæja en nafninu var breytt í BSRB með breytingu á lögum þess árið 2015.
Hlutverk BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og stuðla að bættu velferðarsamfélagi. Bandalagið fer með samningsrétt í sameiginlegum málum félaganna og þeim sem því er falið hverju sinni.
BSRB styður og eflir aðildarfélögin við gerð kjarasamninga og hagmunagæslu félagsmanna. Þá vinnur bandalagið að samstöðu meðal aðildarfélaga og stuðlar að jafnræði þeirra í framkvæmd þjónustu til félagsmanna. Bandalagið vinnur jafnframt að fræðslu- upplýsinga- og menningarstarfsemi og jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði.
Þá vinnur BSRB að aukinni samstöðu, samstarfi og tengslum í stéttarfélagsmálefnum innanlands og erlendis.
Félagamiðstöðin
Félagamiðstöðin að Grettisgötu 89 hýsir höfuðstöðvar BSRB. Félagamiðstöðin er sameign BSRB og nokkurra aðildarfélaga bandalagsins sem eru með skrifstofur í húsnæðinu. Auk skrifstofuaðstöðu eru fundarsalir, mötuneyti og samkomusalur sem nýtist til námskeiða, funda og mannamóta.
Auk BSRB eru eftirtalin félög með skrifstofur í húsinu: Landssamband lögreglumanna, Póstmannafélag Íslands, Sameyki stéttarfélag, Félag flugmálastarfsmanna ríkisins og Félag íslenskra flugumferðastjóra. Auk þess er Styrktarsjóður BSRB í húsinu.
Opnunartímar skrifstofu BSRB eru mánudag til fimmtudag frá 8 til 16, en svarað er í síma milli klukkan 9 og 16. Á föstudögum er opið frá 8 til 12 en svarað í síma milli klukkan 9 og 12.
Stjórn BSRB samþykkti á fundi sínum þann 22. september 2017 nýja ritstjórnarstefnu fyrir vef BSRB. Ritstjórnarstefnuna má finna hér.
Lagalegir fyrirvarar