
BSRB kallar eftir meiri metnaði í opinberum rekstri
Í umsögn BSRB um fjármálaáætlun 2026-2030 er fjármálastefnu ríkissjórnarinnar mótmælt. Til stendur, án rökstuðnings, að draga úr umfangi hins opinbera í hagkerfinu á sama tíma og þarfir almennings eru að aukast og verða flóknari. Horfast þarf í augu við þá staðreynd að skattar hafa verið lækkaðir á undangengnum kjörtímabilum án þess að aflað hafi verið tekna á móti og hefur ríkissjóður því verið rekinn með halla um árabil. BSRB hvetur ríkisstjórnina til að afla frekari tekna til að tryggja að ríkið geti sinnt meginverkefnum sínum sem eru að halda uppi öflugu velferðarkerfi þar sem öll búa við örugga framfærslu, framúrskarandi heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntun, jafnrétti og öryggi óháð búsetu og efnahag ásamt innviðafjárfestingu.