Markmið laga um tímabundna ráðningu starfsmanna nr. 139/2003 er að tryggja að starfsmönnum með tímabundna ráðningu sé ekki mismunað gagnvart þeim sem ráðnir eru ótímabundið. Lögin taka til starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberum vinnumarkaði.
Í 4. gr. laganna segir að starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið eigi ekki að njóta hlutfallslega lakari starfskjara en sambærilegur starfsmaður með ótímabundna ráðningu af þeirri ástæðu einni að hann er ráðinn tímabundið. Það er þó heimilt í þeim tilfellum sem að það er réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.
Í 5. gr. kemur fram að óheimilt er að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár. Þó er heimilt að endurnýja tímabundinn ráðningarsamning stjórnanda, sem gerður hefur verið til fjögurra ára eða lengri tíma, í jafnlangan tíma hverju sinni. Vinnuveitandi skal þó ávallt leitast við að ráða starfsmann ótímabundið. Nýr ráðningarsamningur telst taka við af öðrum samningi sé hann framlengdur eða ef nýr tímabundinn samningur kemst á milli sömu aðila innan sex vikna frá lokum gildistíma eldri samnings.
Vinnuveitanda ber skylda til að veita tímabundið ráðnum starfsmönnum upplýsingar um störf sem losna innan fyrirtækisins svo að þeir hafi sömu tækifæri til að vera ráðnir ótímabundið og aðrir starfsmenn, t.d. með því að setja upp tilkynningu þess efnis á viðeigandi stað innan fyrirtækisins. Einnig skal greiða götu tímabundinna starfsmanna að starfsmenntun og starfsþjálfun, sbr. 6. gr. laganna.
Einnig er fjallað um tímabundnar ráðningar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og í flestum kjarasamningum stéttarfélaga sveitarfélagsstarfsmanna.
Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að heimilt er að ráða starfsmann til starfa tímabundið og er unnt að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma. Tímabundin ráðning skal þó aldrei vara samfellt lengur en í tvö ár, sbr. 41. gr. starfsmannalaga og fyrrnefnd lög um tímabundna ráðningu starfsmanna.