Ályktun 47. þings BSRB um að brúa umönnunarbilið

Eitt megineinkenni norræna velferðarmódelsins er ríkur stuðningur við jafnrétti kynjanna í bæði fjölskyldu- og jafnréttisstefnu. Hluti þess er að tryggja aðgengi og þátttöku beggja foreldra á vinnumarkaði og jafna ábyrgð þeirra á umönnun barna sinna. Ýmsar stjórnvaldsaðgerðir á sviði jafnréttismála, eða skortur á þeim, hafa verið gagnrýndar fyrir að festa í sessi staðalmyndir um umönnunarhlutverk kvenna. Slíkar staðalmyndir draga úr möguleikum kvenna til að vera fjárhagslega sjálfstæðar og þar með raunverulegu frelsi þeirra. Þannig ríkja enn úreltar hugmyndir um að móðirin sé í aðalhlutverki við umönnun barna og heimilis en faðirinn í hlutverki fyrirvinnu og í aukahlutverki þegar kemur að umönnun barna sinna.

Ólíkt hinum Norðurlöndunum hefur Ísland ekki tryggt samfellu í stuðningi við barnafjölskyldur þar sem umönnunarbilið svokallaða; tímabilið frá lokum fæðingarorlofs þangað til barn fær inn á leikskóla, er enn óbrúað. Innan við 10% barna fær leikskólapláss við 12 mánaða aldur og yfir helmingur þeirra er orðinn meira en 18 mánaða við upphaf leikskóladvalar. Mæður eru mun líklegri en feður til að lengja fæðingarorlof sitt eða minnka við sig vinnu til að brúa bilið. Konur taka að meðaltali rúma sjö mánuði í fæðingarorlof en karlar um fjóra. Samkvæmt nýlegri rannsókn Fjármálaráðuneytisins lækka tekjur mæðra um 30-50% á fæðingarári barns og eru enn 20% lægri tveimur árum eftir fæðingu. Tekjur feðra lækka hins vegar aðeins um 3-5% við fæðingu og á öðru ári eru þær orðnar þær sömu og áður.

47. þing BSRB gerir þá kröfu á stjórnvöld að lögfesta rétt barna til öruggrar dagvistunar af hálfu hins opinbera strax að loknu fæðingarorlofi foreldra jafna þannig stöðu barnafjölskyldna óháð búsetu. Fjárfesta þarf í leikskólakerfinu þannig að leikskólaplássum fjölgi og húsnæði, með tilliti til rýmis, öryggis og hljóðvistar, sé fullnægjandi bæði fyrir börn og starfsfólk. Þá þarf að tryggja góðar starfsaðstæður starfsfólks og hækka laun þeirra, líkt og allra kvennastétta í almannaþjónustu. 47. þing BSRB hafnar illa ígrunduðum tilraunum til að leysa vandann sem ýmis sveitarfélög hafa gripið til, svo sem að stytta dvalartíma barna, fjölga lokunardögum, hækka gjaldskrár eða taka upp heimgreiðslur.

 

Reykjavík, 4. október 2024

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?