Ályktun 47. þings BSRB um kvenfrelsi

Nú hálfri öld eftir fyrsta kvennaverkfallið er framlag kvenna til samfélagsins enn ekki að fullu metið að verðleikum. Kynskiptur vinnumarkaður er meginástæðan fyrir launamun kynjanna hér á landi sem og annars staðar í heiminum.

Konur eru í meirihluta í þeim störfum sem eru hvað lægst launuð svo sem við umönnun, hjúkrun, félagsþjónustu og í menntakerfinu. Þar eru konur af erlendum uppruna líka fjölmennur hópur.

Konur eru ólíklegri til að vera fjárhagslega sjálfstæðar en karlar og þar ræður launamunur kynjanna úrslitum. Við sættum okkur ekki við samfélag sem viðheldur misrétti með því að greiða kvennastéttum lægri laun en karlastéttum. Við sættum okkur ekki við samfélag sem byggir velferð sína á herðum kvenna sem vinna á afsláttarkjörum. Stjórnvöldum ber skylda til að grípa til aðgerða og leiðrétta laun kvennastétta til samræmis við raunverulegt virði þeirra fyrir samfélagið.

Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að unnið verði að gerð heildstæðs virðismatskerfis til að bera megi saman störf þvert á stofnanir ríkisins að því markmiði að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Slíkt kerfi mun eingöngu taka til grunnlauna og leggur 47. þing BSRB ríka áherslu á að einnig verði þróað kerfi sem nær til viðbótarlauna og bæði kerfin verði tilbúin fyrir árslok 2026. Starfsmatskerfi sveitarfélaganna nær til grunnlauna starfsfólks og þarfnast endurskoðunar og uppfærslu ásamt því að þróa þarf viðbótarlaunakerfi til að tryggja launajafnrétti.

47. þing BSRB krefst þess að unnið verði að tillögum aðgerðahóps um launajafnrétti sem felur í sér þróun samningaleiðar að nýsjálenskri fyrirmynd sem auðveldar einstaklingum að reisa kröfur til launajafnréttis.

 

Reykjavík, 4. október 2024

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?