Persónuverndarstefna BSRB

BSRB leggur mikið upp úr því að tryggja öryggi persónuupplýsinga félagsmanna aðildarfélaga sinna og annarra sem tengjast starfseminni. Öll meðferð persónuupplýsinga innan bandalagsins skal vera í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Í því skyni hefur starfsfólk bandalagsins fengið fræðslu um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Stefna BSRB er að unnið sé með eins lítið af persónugreinanlegum upplýsingum og mögulegt er til að geta veitt þá þjónustu sem bandalaginu ber að veita aðildarfélögum sínum og félagsmönnum þeirra.

Meginhlutverk BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og stuðla að bættu velferðarsamfélagi. Bandalagið fer með samningsrétt í sameiginlegum málum félaganna og þeim sem því er falið hverju sinni.

Persónuverndarstefna

  • Breytingar persónuverndarstefnu og tengiliðaupplýsingar

    BSRB áskilur sér rétt til þess að breyta og uppfæra persónuverndarstefnu þessa hvenær sem er. Tilkynnt verður sérstaklega um allar slíkar breytingar á heimasíðu BSRB.

    Ef þú óskar eftir nánari upplýsingum varðandi persónuverndarstefnu BSRB skaltu hafa samband við skrifstofu BSRB, Grettisgötu 89, 105 Reykjavík. Sími: 525-8300. Netfang: bsrb@bsrb.is.

  • Lög og lögsaga

    Þessi persónuverndarstefna fellur undir íslensk lög. Leysa skal úr ágreiningi sem kann að rísa í tengslum við persónuverndarstefnuna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur ef ekki er hægt að leysa úr honum á annan hátt.

  • Ábyrgð og aðgangur að persónugreinanlegum upplýsingum

    BSRB ber ábyrgð á því að skráning, varðveisla og meðferð persónuupplýsinga sé í samræmi við gildandi lög. Allar upplýsingar sem félagsmenn aðildarfélaga BSRB láta bandalaginu í té eða upplýsingar sem BSRB sækir með þeirra leyfi til þriðja aðila eru eingöngu sóttar í þeim tilgangi að hægt sé að veita þeim þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.

    Bandalagið veitir þér aðgang og afrit að gögnum í hvaða tilgangi sem er, þ.m.t. til að leiðrétta gögn ef þau eru ónákvæm eða eyða gögnum ef bandalaginu ber ekki skylda til að varðveita þau lögum samkvæmt. Beiðni um slíkt gæti þó verið hafnað ef um er að ræða tilvik sem telst vera lítilvægt eða tilefnislaust. Beiðnir um aðgang, leiðréttingu eða eyðingu má senda á netfangið bsrb@bsrb.is.

  • Tölfræðilegar samantektir

    BSRB áskilur sér rétt til að útbúa tölfræðilegar samantektir og aðrar afleiddar upplýsingar sem án alls vafa eru ekki persónugreinanlegar og notfæra okkur þær í starfi bandalagsins, til dæmis fyrir ársskýrslu BSRB og á fundum á vegum bandalagsins.

  • Upplýsingar til þriðja aðila og bókhaldsgögn

    BSRB mun ekki undir nokkrum kringumstæðum afhenda, selja eða leigja persónuupplýsingar til þriðja aðila nema slíkt sé skylt samkvæmt lögum eða samkvæmt beiðni félagsmanns.

    Bókhaldsgögn eru geymd í samræmi við lög og reglur um færslu bókhalds og varðveislu þess. Að þeim tíma liðnum er þeim eytt, að undanskildum upplýsingum á skilagreinum sem er ekki eytt.

  • Vefhegðun og skráning á póstlista

    Þegar notendur heimsækja vefsvæði BSRB kann bandalagið að safna tæknilegum upplýsingum um notkun þeirra, t.d. um tegund vafra, hvaða vefsíður notendur heimsækja á vefnum, tímann sem notendur verja á vefnum o.s.frv. Í þeim tilvikum sem persónuupplýsingar eru skráðar skuldbindum við okkur til að varðveita þær upplýsingar á öruggan hátt.

    Á vef BSRB er boðið upp á skráningu á póstlista bandalagsins. Þeir sem hafa áhuga á því að skrá sig þurfa einungis að gefa upp gilt netfang. Póstlisti bandalagsins er notaður til að senda fréttabréf BSRB og aðrar upplýsingar sem við teljum mikilvægt að koma á framfæri við félagsmenn og aðra sem vilja fylgjast með starfsemi okkar.

    Netföng sem skráð hafa verið á póstlista BSRB eru aldrei send utanaðkomandi aðilum né eru þau notuð í öðrum tilgangi en lýst hefur verið hér að ofan. Í öllum póstum sem sendir eru á póstlistann er hlekkur þar sem hægt er að afskrá netfang af póstlistanum.

  • Eyðing persónuupplýsinga

    Meginreglan er sú að persónuupplýsingum verði eytt þegar þeirra er ekki þörf lengur en í síðasta lagi við lok þess almanaksárs þegar sjö ár eru liðin frá öflun þeirra. Iðgjaldasaga félagsmanns auk upplýsinga um aðstoð í kjaramálum eru aftur á móti undantekningar og verða slíkar upplýsingar varðveittar lengur en þó þannig að upplýsingarnar séu ekki persónugreinanlegar þegar þess er kostur. Öllum upplýsingum sem aflað er í sambandi við slík mál, t.d. launaseðlum og tímaskriftum, verður þó eytt í samræmi við meginregluna.

  • Meðferð persónuupplýsinga

    Persónuupplýsingar verða ekki notaðar í neinum öðrum tilgangi en þeirra er aflað.

    BSRB áskilur sér rétt til að deila persónuupplýsingum með aðilum sem koma að tæknilegu viðhaldi eða greiðsluþjónustu (slíkir aðilar kallast héðan í frá einu nafni „þriðju aðilar“) að því marki sem nauðsynlegt er svo bandalagið geti innt þjónustu sína af hendi.

    Dæmi um slíka þriðju aðila eru vinnuveitendur félagsmanna aðildarfélaga BSRB. En þeir senda mánaðarlega skilagreinar til BSRB þar sem fram kemur fjárhæð greiddra félagsgjalda félagsmanna til síns stéttarfélags sem á aðild að BSRB. Bandalagið ábyrgist að nota þessar upplýsingar eingöngu í bókhaldslegum tilgangi og til að tryggja réttindi félagsmanna aðildarfélaga. Upplýsingar um skilagreinar verða varðveittar án tímatakmarka. Um er að ræða að lágmarki nafn og kennitölu launamanns, nafn og kennitölu launagreiðanda og skilatímabil.

    Aðildarfélög bandalagsins geta leitað lögfræðiráðgjafar hjá BSRB vegna réttindamála félagsmanna sinna. Vegna ráðgjafarinnar er iðulega óskað eftir ráðningarsamningi, launaseðlum og öðrum skriflegum gögnum þegar slíkt er nauðsynlegt. Félagsmaðurinn sækir viðkomandi upplýsingar sjálfur og afhendir sínu stéttarfélagi og veitir samþykki fyrir því að leitað verði aðstoðar lögfræðings BSRB ef félagið svo kýs. Félagsmenn aðildarfélaga BSRB eiga sínar persónuupplýsingar og hafa einir aðgang að þeim ásamt starfsfólki BSRB og þess stéttarfélags sem viðkomandi á aðild að.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?