Ef tveir eða fleiri umsækjendur teljast jafnhæfir til að gegna starfi sem ráða á í geta svonefndar forgangsreglur fengið aukið vægi við töku ákvörðunar.
Forgangur fatlaðra
Í 3. mgr. 22. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er kveðið á um að fatlaðir skuli hafa forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélögum ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja.
Forgangsregla jafnréttislaga
Önnur forgangsregla hefur verið leidd af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 (hér eftir jafnréttislög) í dómaframkvæmd. Þetta er sú forgangsregla sem hvað mest hefur reynt á fyrir dómstólum. Áréttað skal að jafnréttislögin gilda fyrir allan vinnumarkaðinn og forgangsregla jafnréttislaga tekur því til ráðninga hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði. Þó eru aðeins dómafordæmi fyrir beitingu hennar á opinberum vinnumarkaði.
Reglan gengur fyrst og fremst út á það að séu karl og kona jafnhæf til starfs ber að velja umsækjanda af því kyni sem færra er af í viðkomandi starfsstétt. Ef forgangsreglan á við þarf að undirbúa og taka ákvörðun í málinu með þeim hætti að skýrt sé að henni hafi verið beitt (Álit UA frá 28. janúar 2008 í máli nr. 4699/2006 (Embætti lögregluvarðstjóra).
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. jafnréttislaga er hvers kyns mismunun á grundvelli kyns bönnuð. Í 2. mgr. sömu greinar segir að sértækar aðgerðir gangi ekki gegn jafnréttislögum. Hugtakið sértækar aðgerðir merkir sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnum sviðum þar sem á annað kynið hallar, sbr. 7. tl. 2. gr. jafnréttislaga.
Algengt er að hugtökin „sértækar aðgerðir“ og „jákvæð mismunun“ séu lögð að jöfnu. Þau spanna aftur á móti tvö ólík svið. Íslensk löggjöf hefur eingöngu stuðst við sértækar aðgerðir en ekki jákvæða mismunun. Hið sama má segja um dómaframkvæmd. Þegar jákvæðri mismunun er beitt er einstaklingur af því kyni sem á hallar ráðinn í starf að uppfylltum lágmarksskilyrðum, jafnvel þótt hæfari einstaklingur af hinu kyninu sé á meðal umsækjenda. Þetta fyrirkomulag gengur því lengra en sértækar aðgerðir. Í forgangsreglu jafnréttislaga felst því í raun að séu tveir umsækjendur um starf og „hæfni“ þeirra sú sama skal leitast við að ráða það kynið sem á hallar á starfssviðinu. Jákvæð mismunun á hinn bóginn lætur staðar numið við „hæfi“ umsækjenda.
Forgangsregla jafnréttislaga er leidd af Hrd. 1993, bls. 2230 (Helga Kress). Málsatvik voru eftirfarandi:
Tveir umsækjendur voru um lektorsstöðu í bókmenntum við Háskóla Íslands. Konan H og karlinn M þóttu skara fram úr öðrum umsækjendum að mati dómnefndar. Þótti H hafa meiri og víðtækari reynslu en M sem háskólakennari og fræðimaður og mælti því dómnefnd með því að hún yrði valin til starfsins. M varð hins vegar valinn. Niðurstaða héraðsdóms var að H hefði verið hæfari til starfsins en M. Í hæstaréttardómnum var ekki fjallað sérstaklega um sönnunargildi þeirra gagna sem lágu fyrir um hæfni umsækjenda en talið var nægilega komið fram að H og M hafi bæði verið hæf og ekki hafi verið um ólögmætar ástæður að ræða af hálfu ráðherra sem veitti M starfið. Leit Hæstiréttur þá til tilgangs jafnréttislaganna og taldi að „lögin yrðu þýðingarlítil nema meginreglur laganna séu skýrðar svo að konu skuli veita starf, ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin er varðar menntun og annað sem máli skiptir og karlmaður sem við hana keppir ef á starfssviðinu eru fáar konur.“ Taldi því Hæstiréttur ljóst að setja hefði átt H í umrædda stöðu.
Hæstiréttur hefur vísað til dómsins í síðari dómaframkvæmd, til að mynda í dómum Hrd. 1998, bls. 3599, Hrd. 2002, bls. 3401 (mál nr. 121/2002) og Hrd. 16. nóvember 2006 (mál nr. 195/2006). Í öllum þessum dómum er kannað hvort forgangsreglunni hafi verið fylgt. Í máli Helgu Kress voru aðstæður þannig að veitingarvaldshafinn gaf ekki nákvæmlega upp hvaða sjónarmið lágu til grundvallar við ráðninguna og því hafði Hæstiréttur lítið sem ekkert til að byggja á. Rétturinn setti sér því sjálfur mælikvarða almenns eðlis, svo sem um menntun, starfsreynslu o.s.frv. og mat umsækjendur út frá þeim viðmiðum. Á þennan hátt komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að umsækjendurnir tveir væru jafnhæfir.
Athyglisvert er að í nokkrum dómum Hæstaréttar þar sem fjalla um jafnréttislög, svo sem Hrd. 1993, bls. 2230, Hrd. 1996, bls. 3760 og Hrd. 2002, bls. 3401 (mál nr. 121/2002), hefur Hæstiréttur í úrlausn sinni „lagt með sjálfstæðum hætti mat á hæfni þess sem var ráðinn í starfið með tilliti til þeirra sjónarmiða sem upplýst er að stjórnvaldið hafi byggt á við ráðninguna, í samanburði við þann úr hópi umsækjenda sem lagt hefur málið fyrir dóm“ (Álit UA frá 21. mars 2006 í máli nr. 4210/2004 (Embætti ráðuneytisstjóra)).
Hið gagnstæða var uppi í dómi Hæstaréttar frá 16. nóvember 2006 í máli nr. 195/2006. Þar lagði rétturinn við úrlausn sína mat á hæfni umsækjendanna tveggja á grundvelli þeirra sjónarmiða sem ljóst var að viðkomandi stjórnvald ætlaði að byggja á. Rétturinn lagði því ekki mat með sjálfstæðum hætti á hæfni þess sem ráðinn var í starfið.