Loftslagsmálin eru stærsta áskorunin sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir. Tíminn til að bregðast við loftslagsbreytingum er að renna út. Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og binding kolefnis eiga því að vera efst á verkefnislista stjórnvalda. BSRB styður loftslagsmarkmið stjórnvalda en krefst þess að meiri þungi verði settur í aðgerðir því loftslagsbreytingar ógna öryggi og lífsgæðum mannkyns. Hraða þarf aðgerðum til að draga úr losun þeirra atvinnugreina sem bera mesta ábyrgð á losun á Íslandi. Einnig þarf að flýta uppbyggingu almenningssamgangna og tryggja að þær verði í opinberum rekstri, líkt og önnur innviðauppbygging vegna loftslagsaðgerða og aðlögunar að loftslagsbreytingum.
BSRB krefst þess að réttlát umskipti verði höfð að leiðarljósi í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og þeim breytingum sem óhjákvæmilegar eru. Markmið réttlátra umskipta eru að fjárfestingar skapi græn störf og að tekjulægri hópar taki ekki á sig hlutfallslega meiri byrðar. Græn störf eru þau störf sem stuðla að samdrætti í losun, tryggja mannsæmandi laun, vinnumarkaðstengd réttindi og gott starfsumhverfi. BSRB telur nauðsynlegt að aðilar vinnumarkaðarins setji sér sameiginleg markmið um réttlát umskipti svo að réttindi og kjör launafólks séu tryggð, ekki síður en atvinnulífsins.
BSRB krefst þess að auðlindir landsins verði þjóðareign og aðgangur allra að hreinu drykkjarvatni sé tryggður. Nýting náttúruauðlinda þarf að vera sjálfbær og víðtæk samfélagsleg sátt þarf að ríkja um nýtingu þeirra. Stefna á að enn frekari friðlýsingu og nýju ákvæði í stjórnarskrá um vernd náttúru, óbyggðra víðerna og umhverfis.