Um laun og launagreiðslur er fjallað í lögum en fyrst og fremst í kjarasamningum. Laun eru ákveðin með kjarasamningum og eru það lágmarkskjör allra sem starfa í starfsgreininni, samkvæmt 1. gr. starfskjaralaganna nr. 55/1980. Opinberir starfsmenn starfa flestir eftir launatöxtum sem eru ákveðnir annað hvort í kjarasamningi eða stofnanasamningi. Á almennum vinnumarkaði setja kjarasamningar lágmarkskjör en í ráðningarsamningi er oft samið um einstaklingsbundin kjör.
Í sumum kjarasamningum er fjallað um greiðslur launa. Í kjarasamningi aðildarfélaga BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga segir t.d. að föst laun greiðist eftir á, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Beri fyrsta dag mánaðar upp á frídegi skal útborgun launa fara fram síðasta virka dag þar á undan. Segja má að það sé meginregla á vinnumarkaði.
Skilgreining á hugtakinu laun er ekki eins í öllum tilvikum. Hugtakið er nefnt í ýmsum lögum og í kjarasamningum. Í sinni einföldustu mynd má segja að laun séu endurgjald fyrir vinnu í hvaða formi sem greitt er. Algengast er að laun séu greidd með peningum en laun geta einnig verið greidd með fríðindum, úttektum á vörum eða öðru. Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar, svo sem dagpeningar og akstursgreiðslur, eru hins vegar ekki laun. Í jafnréttislögum er hugtakið laun skilgreint á eftirfarandi hátt: „Almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans.“
Laun njóta verndar eignaréttarákvæða stjórnarskrár og hefur það verið staðfest með dómum Hæstaréttar. Það sama gildir um aflahæfi fólks, þ.e. getan til þess að afla sér tekna.
Óheimilt er að greiða laun með skuldajöfnuði, þ.e. að taka laun upp í skuld, nema um það hafi verið sérstaklega samið. Það kemur fram í lögum um greiðslu verkkaups, nr. 28/1930 og hefur verið staðfest í mörgum dómum Hæstaréttar.
Í kjarasamningum er samið um mánaðarlaunataxta og má þar einnig finna leiðbeiningar um það hvernig eigi að reikna út tímalaun. Þá er samið um yfirvinnutaxta, vaktaálag og bakvaktaálag.