BSRB skilaði umsögn um breytingar á lögum um opinber fjármál þann 2. apríl sl. Þar er komið inn á ýmsa þætti sem varða þau þingmál sem hér eru til umfjöllunar.
Í fjármálaáætlun kemur fram að markmið stjórnvalda sé að „halda áfram að bæta afkomu hins opinbera, þannig að hún stuðli að lækkun skuldahlutfalls og tryggi sjálfbærni opinberra fjármála til lengri tíma“ (bls. 37). BSRB er sammála þessu markmiði en telur að aukna áherslu þurfi að leggja á tekjuöflun í stað áframhaldandi niðurskurðar og aðhalds á útgjaldahlið. Eðli málsins samkvæmt er mikilvægt að endurskoða og endurmeta reglulega útgjaldaþörf en sú stefna sem birtist í fjármálastefnunni felur í sér áframhaldandi aðhaldsstig í rekstri ríkisins. Þar er lögð áhersla á að lækka heildarútgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) um 1,6% á tímabilinu sem stefnan nær til og í fjármálaáætlun kemur fram að sá samdráttur verði fyrst og fremst ríkisútgjaldamegin. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir því að hlutfall ríkisútgjalda fari úr 31% í rúmlega 29% af VLF á tímabilinu en svo lágt hefur það ekki verið síðan 2006 (bls. 54). Til að ná þessu markmiði er gert ráð fyrir að árlegur raunvöxtur ríkisúgjalda verði 2,6% árið 2026 en aðeins 1,3% að meðaltali á árunum 2027-2030.
BSRB hefur áður bent á hvernig ófjármagnaðar skattalækkanir áranna 2018-2022 nema að núvirði um 60 mö.kr. og eru ein af meginorsökum þess að rekstur ríkisins er ekki sjálfbær. Bandalagið styður áform fjármálaáætlunar um tekjuöflun en telur að lengra þurfi að ganga. BSRB hefur lýst yfir áhyggjum af að stöðugleikareglan takmarki árlegan raunvöxt opinberra útgjalda við 2% af VLF og bent á að hún sé næm fyrir upphafsskilyrðum. Ítrekað hefur verið bent á af hálfu fjármálaráðuneytis og fjármálaráðs að reksturinn sé ekki sjálfbær. Þá telur BSRB að hámark raunvaxtar þurfi að vera hærra en 2% árlega að teknu tilliti til aukins kostnaðar vegna fjölgunar aldraðra, breyttrar íbúasamsetningar landsins sem kallar á fjölbreyttari og mögulega flóknari þjónustu og svo hefur læknavísindunum fleygt fram þannig að mögulegt er að veita lyf og meðferðir sem áður stóðu ekki til boða og kröfur almennings um heilbrigðisþjónustu hafa aukist í samræmi við það. Fjármálaáætlun boðar í raun að fjármagna eigi bróðurpart ófjármagnaðra skattalækkana undangenginna ára með niðurskurði í samneyslunni. BSRB mótmælir þessari stefnu harðlega.
Í fjármálaáætlun er birt mynd á bls. 63 af þróun útgjaldaflokka ríkisins sem hlutfall af VLF fyrir þrjú mismunandi tímabil.

Mynd 1: Útgjöld A-1 hluta ríkissjóðs
Þessi mynd sýnir glöggt að hagræðingarkrafan bitnar harðast á samneyslunni sem á að verða lægra hlutfall af VLF á tímabilinu 2026-2030 en hún var að meðaltali á árunum 1998-2025. Tilfærslurnar sem hlutfall af VLF eru að aukast ef atvinnuleysistryggingar eru undanskildar en nánar verður fjallað um breytingar á atvinnuleysistryggingum síðar í umsögninni. Breytingar á fjárfestingum sem hutfall af VLF eru óverulegar m.v. undangengin ár og ná ekki sama hlutfalli og á árunum 1998-2010.
Bandalagið lýsir sig andsnúið áframhaldandi aðhaldi og niðurskurði og hvetur ríkisstjórnina til að auka enn frekar tekjuöflunina til að tryggja útgjaldastig sem samræmist norrænu velferðarríki.
Hagræðingarkrafan er kynjuð
Launafólk í aðildarfélögum BSRB, stærstu heildarsamtökum opinberra starfsmanna, þekkir hvað best hvernig viðvarandi niðurskurðar- eða aðhaldskrafa hefur grafið undan opinberri þjónustu og gert starfsaðstæður erfðari vegna manneklu og skorts á fjárfestingu í húsnæði og viðeigandi búnaði og tækjum. Þau starfa flest í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, velferðarþjónustu, löggæslu og stjórnsýslu.
Í umræðu um opinber fjármál er mikilvægt að hafa í huga að, samkvæmt skrágögnum Hagstofu Íslands, starfa yfir 40% kvenna á aldrinum 25-64 ára á íslenskum vinnumarkaði hjá hinu opinbera, um 17% hjá ríkinu og 23% hjá sveitarfélögunum. Konur eru 72% þeirra sem starfa á opinbera vinnumarkaðnum.
Þegar rætt er um fjárhag hins opinbera er því verið að fjalla um starfsvettvang og starfsaðstæður kvenna og þjónustu og tekjutilfærslur sem konur njóta í meira mæli en karlar. Til að skýra þetta nánar má benda á að örugg dagvistun fyrir börn, auk umönnunar eða þjónustu við sjúka, aldraða og fatlað fólk, er forsenda atvinnuþátttöku kvenna og fjárhagslegs sjálfstæðis svo ekki sé talað um aukinnar verðmætasköpunar í hagkerfinu.
Konur á vinnumarkaði eru að jafnaði með lægri laun en karlar og reiða sig því meira á tekjutengd stuðningskerfi eins og húsnæðisstuðning og barnabætur auk þess sem þær taka hærra hlutfall fæðingarorlofsdaga en karlar. Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem starfa innan menntakerfisins (78%) og mennta sig líka í meira mæli en karlar. Þær lifa að jafnaði lengur en njóta færri heilbrigðra ára að meðaltali en karlar og eru því í meiri þörf fyrir heilbrigðisþjónustu, en hún eykst verulega eftir 65 ára aldur. Konur eru líka í miklum meirihluta þeirra sem starfa í heilbrigðis- og félagsþjónustu (72%).
Konur eru að jafnaði með lægri ævitekjur en karlar sem þýðir minni réttindi kvenna utan vinnumarkaðar til lífeyrisgreiðslna. Af þessum sökum reiða þær sig í meira mæli á greiðslur almannatrygginga. Jafnframt sýna tölur að nýgengi örorku er hæst meðal eldri kvenna. Öll umræða um opinber fjármál er því mjög kynjuð þó það sé sjaldan dregið fram í opinberri umræðu og áhrif efnahagsaðgerða ekki rædd í því ljósi.
Viðvarandi hagræðingarkrafa er rót félagslegs óstöðuleika
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á hagræðingu, einfaldari stjórnsýslu og sameiningu stofnana. Þessar áherslur endurspeglast að einhverju leyti í fjármálaáætlun. Hagræðing í ríkisrekstri hefur allt frá aldamótum verið sjálfstætt markmið allra ríkisstjórna. Þar sem þessi hugmyndafræði er síendurtekið stef eru mörg farin að líta á hana sem hálfgert náttúrulögmál. Minna fer fyrir umræðu um að meginverkefni ríkis og sveitarfélaga er, auk innviðafjárfestinga, að halda uppi öflugu velferðarkerfi þar sem öll búa við örugga framfærslu, framúrskarandi heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntun, jafnrétti og öryggi óháð búsetu, efnahag og uppruna. Þetta endurspeglast meðal annars í því að umfangsmestu verkefni ríkisins á hverjum tíma eru velferðarmál, heilbrigðismál, menntamál, innanríkismál og menningarmál. Uppleggið á hverjum tíma ætti því snúast um hvernig þjónustu sé stefnt að því að veita og hvernig megi ná þeim markmiðum í stað þess að byrja á þeim öfuga og ómarkvissa enda að velta fyrir sér hvernig megi skera niður. Þessi öfuga markmiðssetning, niðurskurður og vanfjármögnun þjónustunnar um árabil, er rótin að þeim félagslega óstöðugleika og óróa sem gætt hefur hér á landi sem og víða annars staðar í heiminum á þessari öld.
Hagræðing
Undanfarna áratugi hefur starfsfólk ríkis og sveitarfélaga búið við fjöldann allan af hagræðingaaðgerðum eða niðurskurðaraðgerðum sem fela yfirleitt í sér flatan niðurskurð á stofnanir sem ber þess merki að ekki hafi verið tekið tillit til verkefnanna sem sinna á innan stofnunarinnar. Allar breytingar koma að ofan og eru sjaldan ræddar við fólkið á gólfinu sem þekkir störfin eða starfssemina best til undirbúnings ákvörðuninni – fólkinu sem þarf að hlaupa hraðar, gefur allt í störfin sín og er að miklum meirihluta til konur. Ár eftir ár er niðurskurði, eða flatri hagræðingakröfu, beitt þar sem þegar eru of fáir við störf og erfitt er að fá fólk til starfa, vegna skorts á fjármagni eða vegna mikilla veikinda starfsfólks. Innlendar sem erlendar rannsóknir sýna að starfsfólk í velferðarþjónustu upplifir verri líkamlega og andlega heilsu og minni starfsánægju samanborið við aðrar starfsstéttir. Þetta kemur t.d. fram í rannsókninni Einkenni starfa, vinnuumhverfi og ástæður brotthvarfs af íslenskum vinnumarkaði.[1] Þar segir:
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að álag í starfi var töluvert misjafnt eftir því hvort um konur eða karla var að ræða og hvort fólk starfaði á kvenna- eða karlavinnustað. Konur voru til dæmis líklegri en karlar til að þurfa að kljást við erfiða viðskiptavini, þjónustunotendur eða nemendur í sínu starfi. Þá var algengast að kvennastéttir á borð við ófaglærða í umönnun, háskólamenntaða sérfræðinga í kennslu eða uppeldisfræði og sérfræðinga í heilbrigðisvísindum þyrftu að klást við krefjandi viðskiptavini og notendur. Sömu hópar voru líklegastir til að segjast vera í tilfinningalegum erfiðum aðstæðum í vinnunni. Þá höfðu hlutfallslega fleiri konur en karlar of mikið að gera í vinnunni og meira var um að þær þyrftu að vinna á miklum hraða. Afleiðingar mikils álags geta verið alvarlegar, enda voru konur og kvennastéttir líklegri en karlar og karlastéttir til að hafa einhvern tíma verið frá vinnu í tvo mánuði eða meira vegna veikinda.
Auk veikinda sem rekja má til þess að starfsfólk er undir stöðugu álagi, og þarf að hlaupa hraðar til að sinna öllum verkefnum, hefur mygla uppgötvast á fjölda vinnustaða þar sem viðhald hefur verið vanrækt í sparnaðarskyni. Þá eru jafnvel dæmi um slys sem má rekja til skorts á viðhaldi. Þar til viðbótar hefur slysatíðni verið mikil hjá stéttum eins og lögreglu bæði vegna skorts á fjármagni til að tryggja fullnægjandi þjálfun en líka vegna skorts á fólki til starfa. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að lögreglumönnum verði fjölgað sem er jákvætt en mikilvægt er að hafa í huga að önnur megináskorun lögreglunnar, líkt og fjölda annarra ríkisstofnana, er að halda fólki í starfi og vinna gegn mikilli starfsmannaveltu.
Rannsóknir sýna að þættir í vinnuumhverfinu sem hafa neikvæð andleg áhrif bera með sér gríðarlegan samfélagslegan kostnað auk kostnaðar vegna veikindafjarveru. BSRB hvetur stjórnvöld til að setja sér háleit markmið um gæði opinberrar þjónustu og gera starfsaðstæður starfsfólks ríkisins að forgangsmáli og draga þannig úr veikindakostnaði og þeim kostnaði sem felst í starfsmannaveltu. Með þessum aðgerðum má ná fram verulegri hagræðingu til lengri tíma, auk þess sem ríkisstjórnin myndi sýna hugrekki og marka árangursrík spor í sögu þar sem hagræðingaraðgerðir hafa reynst árangurslitlar og oft skaðlegar.
Einfaldari stjórnsýsla
Mikill metnaður hefur verið lagður í þróun stafrænnar þjónustu og stafrænna ferla af íslenskum stjórnvöldum. BSRB styður markmið um bætta þjónustu en hefur ítrekað bent á að mikilvægt sé að haft sé samráð við starfsfólk í þróunarferlinu sem þekki störfin best og hvaða lausnir geti mest létt undir með þeim og bætt þjónustuna. Þá verður ríkið að setja fram áætlun um hvernig það hyggist gefa starfsfólki sínu tækifæri til að auka færni og þekkingu til að takast á við breytt störf eða ný, ef svo ber undir. Innleiðingu nýrrar tækni og fræðslu- og þjálfunaráætlun þarf að vinna í samráði við viðkomandi stéttarfélög og starfsfólk. Misbrestur hefur orðið á þessu hjá ríkinu, t.d. við innleiðingu Starfræns Íslands, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar frá BSRB.
Sameining stofnana
Áform um sameiningu stofnanna hafa almennt verið sjálfstæð markmið en ekki byggð á skýrri framtíðarsýn um hvaða verkefnum eigi að sinna og hvernig. Fjöldi rannsókna sýna að sameiningar skila ekki alltaf þeim árangri sem að er stefnt – s.s. vegna skorts á undirbúningi, skipulagningu, skýrri markmiðasetningu og þess að ekki er hugað nægilega að starfsmannamálum eða menningu þeirra stofnana sem á að sameina. Reynslan sýnir að það er kostnaðarsamt í upphafi að sameina stofnanir og því er enn mikilvægara að vera með skýra langtímasýn um hvernig megi auka árangur og bæta þjónustuna. Þá má ekki gleymast mikilvægi þess að samhæfa þjónustu þvert á stofnanir og samvinnu þeirra en almennt hefur lítill gaumur verið gefinn að því.
Fjárframlög eftir málefnasviðum
Fjármálaáætlun veitir upplýsingar um fjárveitingar næstu fimm ára eftir málefnasviðum en upplýsingar um fjárveitingar innan málefnasviða eru verulega takmarkaðar. Algengt er að verið sé að fella niður fjárveitingar til tímabundinna verkefna, stundum eru þau skilgreind og stundum ekki. Fjárframlög eru víða lækkuð vegna óútfærðrar hagræðingarkröfu og einnig er vísað í lækkun fjárheimilda vegna tillagna hagræðingahóps án nánari skýringa á hvað í þeim felst. Af viðauka 2 í fjármálaáætlun má ráða að í útgjaldaramma málefnasviða sé gert ráð fyrir reiknuðum og kerfislægum útgjaldaþáttum. Þar segir einnig: „Þá byggist áætlunin einnig á tilteknum forsendum um launa- og verðlagsbreytingar...“. Áform um breytingar á útgjaldaramma eru settar fram á verðlagi ársins 2025 svo verðlagsbreytingar koma ekki til álita en varðandi launabreytingarnar þá er erfitt að meta hvort áætlað sé fyrir þeim. Sé það raunin er um gríðarlega raunlækkun útgjalda til flestra málefnasviða að ræða en umfjöllun BSRB gengur út frá að launabreytingar komi ekki fram í rammanum.
Sjúkrahúsþjónusta er langstærsta málefnasvið samneyslunnar og rennur mest af fjármagninu til Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Í greinagerð er fjallað um að eftirspurn eftir þjónustunni vaxi stöðugt vegna öldrun þjóðarinnar, aukningar á geðrænum áskorunum, aukningar á lífstílstengdum sjúkdómum, fólksfjölgunar og fleiri ytri áhrifaþátta. Bent er á að mönnunin sé ein stærsta áskorun málefnasviðsins og svarið við því sé að halda í núverandi starfsfólk, laða að nýtt starfsfólk og nýta sem best sérhæfingu hverrar starfstéttar og jafnvel að horfa til færslu verkefna milli starfstétta. Í þessu sambandi vill BSRB benda á að viðvarandi mannekla og fjárhagslegt aðhald hafa valdið auknu álagi á starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar og leitt til aukinnar veikindafjarveru starfsfólks og dregið úr starfsmannafestu. Endurmat á virði kvennastarfa er mjög mikilvæg forsenda þess að ná fram markmiðum stjórnvalda um betri mönnun og einnig verður að tryggja að fjárveitingar í málaflokkinn séu fullnægjandi. Það eru því vonbrigði að sjá að ekki sé gert ráð fyrir raunaukningu í málaflokkinn á tímabili áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að rekstrar- og tilfærslugjöld aukist um rúmlega 12 ma.kr. á tímabilinu en það dugir tæplega til að mæta kostnaðarauka vegna lýðfræðilegrar þróunar ef miðað er við reiknaðan kerfislægan vöxt vegna fjárlagaársins 2025. Það er því ekki að sjá af upplýsingum í greinagerð að um raunvöxt rekstrarútgjalda málefnasviðsins sé að ræða þrátt fyrir mikla þörf. Áætlunin fyrir þetta málefnasvið er því óraunhæf nema að uppbygging hjúkrunarheimila gangi hratt og örugglega fyrir sig þannig að fjármunir innan sjúkrahúsanna nýtist betur í kjaranstarfsemi. Ekki er fjallað sérstaklega um þennan mikilvæga þátt í umfjöllun um málefnasviðið. Fjárveitingar til fjárfestinga aukast mun meira og vegur bygging Nýs Landspítala við Hringbraut þar þyngst.
Undir málefnasvið Heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa falla heilsugæslan, sérfræðiþjónusta og heimahjúkrun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun auk sjúkraflutninga. Fjallað er um áskoranir í málaflokknum og má þar m.a. nefna mönnun heilbrigðisþjónustunnar, þörf fyrir fjölbreyttari stuðnings- og endurhæfingarúrræði fyrir aldraða til að tryggja sem lengst sjálfstæða búsetu, eflingu heimahjúkrunar og velferðartæknilausnir. Heilsugæslan á að verða leiðandi þátttakandi í eflingu lýðheilsu og forvarna og efla á fjölbreytta geðheilbrigðisþjónustu. Þá er fjallað um aukna þörf fyrir sjúkraflutninga vegna breytinga á skipulagi heilbrigðisþjónustu og fjölgunar ferðamanna. Fjárveitingar til málefnasviðsins eiga að hækka um 6,6 ma.kr. á tímabilinu. Reiknaður kerfislægur vöxtur á málefnasviðinu var tæpir 1,5 ma.kr. vegna fjárlagaársins 2025 og því virðist að öllu óbreyttu verða lækkun á raunframlögum til málefnasviðsins á tímabilinu.
Á málefnasviði hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu eru helstu áskoranirnar hlutfallsleg fjölgun aldraðra, mönnun bæði faglærðs og ófaglærðs starfsfólks og skortur á hjúkrunarrýmum. Fjárveitingar til rekstrar aukast um tæplega 16 ma.kr. og fjárfestingarframlög fara vaxandi yfir tímabilið. Af greinargerðinni er erfitt að ráða hversu mörg hjúkrunarrými verða byggð á næstu árum og hvenær á tímabilinu og þar af leiðandi að meta hvort framlög til fjárfestinga séu nægjanleg.
Eins og fram kemur í greinargerð um málefnasviðið Örorka og málefni fatlaðs fólks munu breytingar á örorkulífeyriskerfinu leiða til umtalsverðrar hækkunar fjárframlaga. BSRB fagnar því að loks verði kjör öryrkja bætt. BSRB hafnar hins vegar alfarið áformum ríkisstjórnarinnar um að fylgja eftir stefnu fyrri ríkisstjórnar sem fólst í því að fjármagna breytingarnar m.a. með niðurfellingu framlags til jöfnunar á lífeyrisbyrði lífeyrissjóða. Það er vægast sagt ósvífið að láta verkafólk á ellilífeyrisaldri, sem og láglaunakonur sem sinntu þjónustustörfum hjá sveitarfélögum, greiða fyrir breytingar á örorkulífeyriskerfinu með skertum greiðslum úr lífeyrissjóðum. Myndin hér að neðan var birt í umsögn lífeyrissjóðsins Festu um málið haustið 2024. Þar mótmæltu fjölmargir umsagnaraðilar, þ.á.m. BSRB, fyrirætlunum um skerðingu framlagsins árið 2025 og niðurfellingu þess frá og með árinu 2026. Þáverandi ríkisstjórn tók athugasemdirnar ekki til greina og skerti framlagið og nú stendur til að fella það alveg niður.

Mynd 2: Örokulífeyrisbyrði eftir lífeyrissjóðum 2023
Eins og myndin sýnir glögglega er örorkubyrði lífeyrissjóða mjög ólík og þess vegna hefur ríkið, samkvæmt samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins, greitt framlag til að jafna þessa byrði frá árinu 2007. Þessu samkomulagi var rift einhliða af fyrri ríkisstjórn. Lífeyrir láglaunafólks mun sæta mestu skerðingunum en t.d. munu áhrif á LSR, lífeyrissjóð ráðherra og alþingismanna, verða óveruleg enda örorkubyrðin þar meðal þeirrar lægstu. BSRB krefst þess að fyrirkomulag jöfnunar lífeyrisbyrði verði fært aftur í sama horf og það var á árunum 2007-2024 þegar 0,325% af gjaldstofni tryggingargjalds voru nýtt í þessu tilliti.
Annar liður í fjármögnun nýs örorkulífeyriskerfis felst í skerðingu á bótatímabili atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 18 mánuði eða um heilt ár. Með þessu er ríkisstjórnin að brjóta óskrifaðar reglur vinnumarkaðarins um að slíkar breytingar séu ekki gerðar nema með samkomulagi við verkalýðshreyfinguna. Í greinargerð um málefnasvið Vinnumarkaðar og atvinnuleysis má ráða að þannig hyggist ríkisstjórnin spara um 3,5 ma.kr. árlega á fólki sem er að takast á við atvinnuleysi. Þar er lögð rík áhersla á að fólk sé sem styst fjarverandi af vinnumarkaði vegna atvinnuleysis og er sú áhersla jákvæð. Eðlilegt fyrsta skref í átt að því markmiði væri að Vinnumálastofnun væri með markvissari og einstaklingsmiðaðri úrræði fyrir atvinnulaust fólk. Aðstoð við fólk á atvinnuleysisskrá hefur verið á hendi þeirrar stofnunar. Ef stofnunin hefur verið vanbúin til að takast á við verkefni sín þá er eðlilegt að styrkja starfsemi stofnunarinnar en það er ólíðandi að afkomu fólks á atvinnuleysistryggingaskrá sé ógnað. Í greinagerðinni er vísað til þess að atvinnuleysistryggingatímabilið sé lengra hér á landi en á Norðurlöndunum. Á myndinni má sjá mismunandi atvinnuleysisstig á Norðurlöndunum á 4. ársfjórðungi 2024 úr gagnagrunni OECD. Hvort sem litið er til atvinnuleysis almennt eða langtímaatvinnuleysis er það langlægst á Íslandi að Noregi undanskildum þar sem atvinnuleysi á báða mælikvarða er heldur meira en á Íslandi. Engin greining er lögð til grundvallar í greinagerðinni, t.d. varðandi það hvaða hópar eigi erfiðast með að fá atvinnu né mögulegar skýringar þar á. BSRB mótmælir þessum vinnubrögðum harðlega og hafnar því að sá tiltölulega litli hópur sem glímir við langtímaatvinnuleysi sé látinn gjalda fyrir nýtt örorkulífeyriskerfi með styttingu atvinnuleysistryggingatímabilsins.

Mynd 3: Atvinnuleysi og langtímaatvinnuleysi á 4. ársfj. 2024
Á málefnasviði Fjölskyldumála er verið að auka fjárheimildir vegna yfirfærslu frá sveitarfélögum til ríkis á búsetuúrræðum og þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Frá því að málaflokkur fatlaðs fólks var fluttur frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hafa þessi mál ekki verið í nægilega föstum skorðum og mjög flókið og kostnaðarsamt hefur verið fyrir minni sveitarfélög að sinna þeim. BSRB fagnar því að loksins hafi verið gengið frá framtíðarfyrirkomulagi málaflokksins. Einnig á að byggja nýtt húsnæði vegna öryggisvistunar barna.
Undir málefnasviðið heyra líka barnabætur og fæðingarorlof. Ekki er fjallað um barnabætur í greinagerðinni en BSRB kallar eftir því að áfram verði haldið á þeirri braut að draga úr tekjuskerðingum barnabóta og að lögfest verði að bæturnar hækki til samræmis við launavísitölu. Í greinagerð segir að fjárframlög til Fæðingarorlofssjóðs verði 6,5 mö.kr. hærri við lok tímabilsins en 2025. Er það vegna hækkunar hámarksgreiðslna, spár um fæðingartíðni og launaþróun. Ekki kemur fram hvort halda eigi áfram að hækka þakið fyrir hámarksgreiðslur eftir árið 2026. Í yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninga vorið 2024 var kveðið á um hækkun hámarksgreiðslna úr 600.000 kr. í 900.000 kr. í þremur áföngum, þeim síðasta þann 1. janúar 2026. Mikilvægt er að hámarksgreiðslurnar haldi áfram að hækka árlega eftir það og verði smám saman færðar aftur í það horf sem þær voru í áður en skerða þurfti fæðingarorlofsgreiðslur vegna áfalla ríkissjóðs í kjölfar hruns fjármálakerfisins haustið 2008. Þegar þak var innleitt á fæðingarorlofsgreiðslur árið 2005 var það 480.000 kr. en það jafngildir um 1.500.000 kr. í dag. Markmið þaksins var að tryggja að fólk með ofurlaun tæmdi ekki fæðingarorlofssjóð en að allir aðrir fengju 80% af mánaðarlaunum í fæðingarorlofi. Þá kemur fram í greinargerð að bæta eigi sérstaklega hag tekjulægri foreldra í fæðingarorlofi en ekki kemur fram í undirkafla um helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins að gert sér ráð fyrir þeirri hækkun. Af texta þess kafla og töflu um útgjaldaramma má ráða að hægræða þurfi til að mæta auknum útgjöldum á málefnasviðinu en ekki er fjallað um það sérstaklega. Það vekur upp spurningar um hvaða málaflokkar innan sviðsins eigi að sæta niðurskurði eða raunlækkun.
Á málefnasviði Húsnæðis- og skipulagsmála á að halda áfram að vinna á grunni þess starfs sem unnið hefur verið á undanförnum árum. BSRB styður að íbúðum til fastrar búsetu verði fjölgað og áframhaldandi uppbyggingu innan almenna íbúðakerfisins. Mikilvægt er að fjárframlög áranna 2026 til 2028 séu í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við undirritun kjarasamninga vorið 2025 þar sem ríkið lofaði fjárstuðningi við byggingu 1.000 íbúða á ári innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlánakerfisins til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins. Fram kemur í greinagerð að eftir árið 2028 eiga að endurmeta þörfina. BSRB leggur ríka áherslu á að þessi áform gangi eftir enda er húsnæðisöryggi stórra hópa verulega ábótavant. Í greinagerðinni er einnig fjallað um að gera eigi húsnæðisstuðning hins opinbera markvissari. BSRB vill af þessu tilefni benda á að almennur skattafsláttur vegna úttektar séreignarsparnaðar vegna afborgana af húsnæðislánumfer fyrst og fremst til tekjuhæstu hópanna í samfélaginu. Þá telur BSRB brýnt að húsnæðisbætur til leigjenda og sérstakar húsaleigubætur sveitarfélaga verði sameinaðar svo að leigjendur njóti jafnræðis óháð búsetu. Tillögur um slíka sameiningu kerfanna liggja nú þegar fyrir sem er afrakstur samstarfshóps aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.
BSRB lýsir yfir áhyggjum af því að skera eigi niður fjárframlög til framhaldsskóla, háskóla og annarra skólastiga sem og menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála. Erfitt er að greina hver áhrif niðurskurðarins verða. Þá er fjallað um að efla eigi hagskýrslugerð, gagnaöflun, samhæfingu milli stofnana og aðgengi að gögnum en þrátt fyrir það á að skerða fjárframlög á því málefnasviði.
Athugasemd við fullyrðingu fjármálaráðs
Í umsögn fjármálaráðs um fjármálastefnu er birt mynd á bls. 10 af þróun launavísitölu á almenna markaðnum og opinbera markaðnum á tímabilinu janúar 2020 til desember 2024 og út frá henni dregnar þær ályktanir að hið opinbera hafi verið leiðandi í launaþróun. BSRB gerir alvarlegar athugasemdir við þessa túlkun og bendir á að kjarasamningar á opinbera markaðnum taka mið af almenna markaðnum. Í kjarasamningunum 2019-2022/2023 og 2024-2028 var lagt upp með krónutöluhækkanir. Þær hafa þau áhrif að lægri laun hækka hlutfallslega meira en hærri laun. Í því sambandi er rétt að benda á að launastigið er lægst hjá sveitarfélögunum og hæst á almenna markaðnum að meðaltali eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Upplýsingarnar eru fengnar af vef Kjaratölfræðinefndar og voru birtar í maí 2023 en það eru nýjustu tölur nefndarinnar þar sem allir markaðir eru á sama stað í kjaralotunni. Því fer víðs fjarri að hið opinbera leiði launaþróun í landinu en eðli kjarasamninga undangenginna ára hefur hækkað launavísitölu sveitarfélaga umfram aðrar vegna þess að þar er lægsta launastigið.

Myns 4: Regluleg laun fullvinnandi eftir mörkuðum í maí 2023 - meðaltal
Samantekt
- BSRB mótmælir órökstuddri stefnu ríkisstjórnarinnar að draga eigi úr umfangi hins opinbera í hagkerfinu á sama tíma og þjónustuþörf er að aukast og verða flóknari.
- Skattlækkanir undangenginni ára voru ófjármagnaðar og það hefur valdið áralöngum halla á ríkissjóði og að rekstur hans er ósjálfbær.
- BSRB hvetur ríkisstjórnina til að afla frekari tekna til að tryggja að ríkið geti sinnt meginverkefnum sínum sem eru, auk innviðafjárfestinga, að halda uppi öflugu velferðarkerfi þar sem öll búa við örugga framfærslu, framúrskarandi heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntun, jafnrétti og öryggi óháð búsetu og efnahag.
- Hagræðingarkrafan er kynjuð – konur vinna í meirihluta hjá hinu opinbera, nýta þjónustuna og tilfærslurnar í meira mæli – og mun því bitna verr á konum en körlum.
- BSRB gerir alvarlega athugasemd við að ekki sé gert ráð fyrir raunaukningu fjárframlaga til sjúkrahúsa og heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Mannekla er viðvarandi vandamál og mun verða það áfram nema að starfsumhverfi verði bætt og virði kvennastarfa endurmetið til launa.
- BSRB hafnar því alfarið að nýtt örorkulífeyriskerfi verði fjármagnað með niðurfellingu á framlögum ríkisins til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða og styttingu atvinnuleysis-tryggingatímabilsins.
- Halda þarf áfram að draga úr tekjuskerðingum barnabóta, hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi og tryggja afkomu þeirra tekjulægstu í fæðingarorlofi. Engin skýr áform er að finna um í fjármálaáætluninni.
- Hæsta launastigið er að meðaltali á almenna vinnumarkaðnum. Kjarasamningar þar hafa lagt línurnar fyrir opinbera markaðinn og áherslan á krónutöluhækkanir hefur hækkað lægri laun hlutfallslega meira en hærri laun. Því hafa laun hjá sveitarfélögunum, sem eru að meðaltali með lægsta launastigið, hækkað að meðaltali hlutfallslega mest undanfarin ár.
- BSRB hvetur stjórnvöld til að setja sér háleit markmið um gæði opinberrar þjónustu og gera starfsaðstæður starfsfólks ríkisins að forgangsmáli og draga þannig úr veikindakostnaði og þeim kostnaði sem felst í starfsmannaveltu. Með þessum aðgerðum má ná fram verulegri hagræðingu til lengri tíma, auk þess sem ríkisstjórnin myndi sýna hugrekki og marka árangursrík spor í sögu þar sem hagræðingaraðgerðir hafa reynst árangurslitlar og oft skaðlegar.
Fyrir hönd BSRB
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur
[1] Sjá einnig umfjöllun um hærra hlutfall veikindafjarveru kvenna en karla vinnumarkaði og rannsóknina í umfjöllun Kastljóss 25. apríl 2023: https://www.ruv.is/ungruv/spila/kastljos/33550/9vukos