Húsnæðismál

Húsnæðisöryggi, hvort sem er í leiguhúsnæði eða séreign, er mannréttindi. Hið opinbera á að tryggja að öll hafi aðgengi að heilsusamlegu húsnæði á viðráðanlegu verði. Sagan sýnir að markaðurinn einn og sér mun ekki leysa vandann. Það er á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga að tryggja að byggt sé nægt íbúðarhúsnæði fyrir alla hópa samfélagsins. Til þess þarf að útvega lóðir og tryggja að nauðsynlegir innviðir fyrir byggð séu til staðar. Einnig þarf að koma böndum á uppkaup húsnæðis í þeim tilgangi að leigja til ferðafólks.

Skynsamlegasta leiðin til að auka húsnæðisöryggi er að greiða niður húsnæði fyrir tekjulægri hópa og þau sem eru með mikla framfærslubyrði að því markmiði að fólk greiði ekki meira en 25% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað og hafi raunverulegt val á milli leigu, eignar og búseturéttar. Reynslan sýnir að áherslan á auknar lánveitingar hefur áhrif til hækkunar húsnæðisverðs og gerir öflun húsnæðis enn torveldari fyrir þau sem eru að koma ný inn á markaðinn. Slíkar aðgerðir hafa bein áhrif á efnahagskerfið með aukinni verðbólgu og óstöðugleika.

BSRB krefst þess jafnframt að aukið verði við húsnæðisframboð á Íslandi. Í þessu sambandi þarf að huga að þeim sem vilja búa í eigin húsnæði, en íslenskur almenningur greiðir í mörgum tilvikum óviðunandi háar greiðslur af fasteignalánum og hefur greiðslubyrði aukist til muna á undanförnum árum.

Almenna íbúðakerfið hefur sannað sig og íbúðum í kerfinu fjölgar ár frá ári. Bjarg, leigufélag BSRB og ASÍ, er burðarásinn í því kerfi og stuðlar að húsnæðisöryggi launafólks í lægri tekjuhópum. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu Bjargs þá hefur sú aukning ekki náð að haldast í takt við eftirspurn. BSRB leggur ríka áherslu á að árleg stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum verði að lágmarki fyrir þúsund íbúðum árlega til að mæta brýnni þörf launafólks fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði og til að flýta uppbyggingu.

BSRB leggur áherslu á að ríki og sveitarfélög greiði götu leigufélagsins Blævar, sem er leigufélag í eigu BSRB og ASÍ. Mikilvægt er að auka valkosti launafólks á húsnæðismarkaði sem er yfir tekjuviðmiðum í almenna íbúðakerfinu og stuðla þannig að húsnæðisöryggi fyrir öll. Bandalagið mun vinna að tillögum til hins opinbera um lagasetningu sem miðar að því að búa lághagnaðardrifnum leigufélögum, eins og til dæmis Blæ, aðlaðandi rekstrarumhverfi og uppbyggingarmöguleika. Slíkri lagasetningu væri ætlað að styðja af krafti við uppbygginu íbúðarhúsnæðis af þessu tagi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?