Um starfsmenn ríkisins gilda starfsmannalög. Samkvæmt lögunum skiptast heimildir atvinnurekanda til uppsagna úr starfi í tvennt; vegna ástæðna sem rekja má til starfsmannsins sjálfs og vegna aðstæðna sem varða atvinnurekandann.
Áminning og uppsögn
Stjórnvöld hafa almennt ekki heimild til að segja upp starfsmönnum sínum vegna ástæðna sem má rekja til starfsmanna sjálfra nema að undangenginni áminningu. Enn fremur verður ástæða uppsagnar að vera af sama eða samkynja tilefni og áminning var veitt fyrir. Með öðrum orðum, að um ítrekun sé að ræða á sams konar hegðun og starfsmaður hafði áður fengið formlega áminningu fyrir. Að öðrum kosti getur áminning ekki verið grundvöllur uppsagnar, sbr. t.d. Hrd. nr. 384/2005. Í málinu var deilt um lögmæti uppsagnar starfsmanns vegna afskipta hans af umsókn manns um starf á vinnustaðnum. Starfsmanninum var sagt upp vegna brota í starfi með vísan til þess að honum hefði tvívegis verið veitt áminning vegna atvika sem vörðuðu útreikning launa starfsmanna sambýlisins. Niðurstaða Hæstaréttar var að uppsögnin væri ólögmæt þar sem um óskyld atvik væri að ræða sem áminningin varðaði annars vegar og uppsögnin hins vegar. Ítarlega umfjöllun um áminningar má finna hér.
Uppsagnir úr starfi vegna ástæðna sem varða starfsmanninn
Í 44. gr. starfsmannalaga er fjallað um heimildir atvinnurekanda til að segja upp ríkisstarfsmanni vegna ástæðna er varða hann sjálfan. Ástæðurnar eru þá vegna brota í starfi en nauðsynlegur undanfari slíkrar uppsagnar er áminning. Í lagaákvæðinu segir:
Skylt er að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar.
Áminningu má veita starfsmanni ef hann hefur í starfi sínu sýnt „óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.“, sbr. 21. gr. starfsmannalaga.
Algengur misskilningur er að veita verði þrjár áminningar áður en til uppsagnar kemur. Hið rétta er að nægilegt er að veita eina áminningu og er þá heimilt að segja starfsmanni upp á grundvelli samkynja starfsbrots. Ekki hefur verið slegið föstu hve langur tími má líða frá því starfsmaður fékk áminningu og honum er tilkynnt um uppsögn vegna ítrekaðs samkynja starfsbrots. Í þeim efnum er vísað til eðlilegs tímalegs samhengis og miðað við 1 - 2 ár eftir alvarleika brotsins. Ítarlega umfjöllun um áminningar má finna hér.
Uppsagnir úr starfi vegna ástæðna sem varða atvinnurekandann
Að baki hverri ákvörðun um uppsögn á opinberum vinnumarkaði verða að ríkja málefnaleg sjónarmið. Málefnaleg sjónarmið eru til dæmis talin vera fyrir hendi þegar ákvörðun um uppsögn er byggð á skipulagsbreytingum eða vegna hagræðingar. Því er heimilt að segja starfsmönnum upp á þeim grundvelli.
Engar skráðar reglur eru fyrir hendi um hverjum beri að segja upp þegar fækka þarf starfsmönnum en leiða má af reglum stjórnsýsluréttar að svonefnt öfugt hæfnismat eigi að fara fram á starfsmönnum áður en til uppsagna kemur. Í því felst að þeim starfsmönnum verði sagt upp sem hafa minnstu hæfnina til að gegna störfunum.
Ef um endurskipulagningu eða hagræðingu er að ræða hefur stjórnvald ákveðið svigrúm við slíkt mat en þó verður að gæta að grunnreglum stjórnsýsluréttar og byggja ákvörðun á málefnalegum sjónarmiðum. Þannig þarf að framkvæma mat á starfi og hæfni starfsmanna áður en ákvörðun er tekin um það hvaða starfsmönnum verði sagt upp, sbr. Hrd. 389/2014 þar sem deildarstjóra launadeildar var sagt upp störfum vegna endurskipulagningar og verkefni hans færð yfir á annan starfsmann. Stjórnvaldi tókst ekki að sýna fram á að sú ákvörðun hefði verið afrakstur faglegrar vinnu, enda hafði ekki verið framkvæmt mat á starfi eða hæfni þess starfsmanns sem átti að taka við verkefnum deildarstjórans í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að hann gæti sinnt verkefnunum. Þar af leiðandi var ekki gætt að málefnalegum sjónarmiðum við uppsögnina og deildarstjóranum dæmdar bætur.