Reglur um vinnutíma
Um vinnutíma er fjallað í kjarasamningi og í lögum. Vinnuvikan er sem stendur 40 stundir, en í kjarasamningum frá því í mars 2020 var samið um styttingu vinnuvikunnar. Þannig var heimilt, hjá dagvinnufólki, að stytta vinnuvikuna allt niður í 36 stundir 1. janúar 2021 eða fyrr og hjá vaktavinnufólki styttist vinnuvikan niður í 36 stundir 1. maí 2021, með möguleika á enn frekari styttingu fyrir fólk sem vinnur utan dagvinnumarka.
Sérstakir frídagar og stórhátíðardagar eru taldir upp í kjarasamningi og ef unnið er á þeim dögum greiðist yfirvinna eða stórhátíðarkaup. Vaktavinnufólk fær einnig frídaga á sama hátt og dagvinnufólk fær frí á almennum frídögum.
Dagvinnumörk eru skilgreind í kjarasamningi. Oft eru þau á milli 8 og 17 á virkum dögum, en þó má semja um annað. Hámarksvinnutími að yfirvinnu meðtalinni skal ekki vera umfram 48 klukkustundir á viku að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. Vinnutími næturvinnu starfsmanna skal að jafnaði ekki vera lengri en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili. Þó er heimilt að víkja fá þessu í kjarasamningi.
Reglur um hvíldartíma
Reglur um hvíldartíma eru í lögum og kjarasamningum. Reglurnar eru lágmarksreglur sem settar eru með öryggi og heilsu starfsmanna að leiðarljósi og á almennt ekki að víkja frá þeim.
Lágmarkshvíld
Á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, skal starfsmaður fá að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Verði því við komið skal dagleg hvíld ná til tímabilsins frá kl. 23:00 til 06:00. Byrjun vinnudags miðast við hvern starfsmann, þannig ef skipulagt upphaf vinnudags starfsmanns er kl. 08:00 skal miða við það tímamark. Ef starfsmaður hefur vinnu kl. 20:00 er sólarhringurinn miðaður við það tímamark. Ef starfsmaður vinnur vaktavinnu er eðlilegt að miða upphaf vinnudags við merktan vinnudag á vaktskrá.
Frávik frá daglegri lágmarkshvíld
Heimilt er að víkja frá reglunni um 11 klukkustunda hvíld og stytta hvíldartíma niður í allt að 8 klst. á skipulegum vaktaskiptum. Þetta á t.d. við þegar starfsmaður skiptir af morgunvakt yfir á næturvakt samkvæmt skipulagi vaktskrár. Ekki á að nýta þetta úrræði umfram það sem nauðsynlegt er og mikilvægt er að haga skipulagi vaktakerfis þannig að skipti milli mismunandi tegunda vakta séu sem sjaldnast á vaktahring. BSRB hefur verið með þá kröfu að þessi undanþága verði felld út en um það hefur ekki tekist samkomulag. Þegar stytting vinnutíma vaktavinnufólks var rædd í kjaraviðræðum 2019 og 2020 voru samningsaðilar þó sammála um að draga úr notkun á þessari undanþágu.
Einnig er heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld í allt að 8 klst. þegar upp koma ófyrirséð atvik, bjarga þarf verðmætum eða almannaheill krefst þess að haldið verði uppi nauðsynlegri heilbrigðis- eða öryggisþjónustu. Ef þessu fráviki er beitt skal starfsmaður fá samsvarandi hvíld í staðinn og í beinu framhaldi af slíkri vinnulotu skal starfsmaður fá 11 klst. hvíld á óskertum launum.
Truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna
Einnig má víkja frá hvíldartímaákvæðum ef ytri aðstæður, svo sem veður eða önnur náttúruöfl, slys, orkuskortur eða bilanir í vélum, krefjast þess. Það gildir eingöngu ef koma þarf í veg fyrir verulegt tjón þar til regluleg starfsemi hefur komist á að nýju. Þetta er algjör undantekning og rétt er að kalla annan starfsmann til vinnu til að leysa af starfsmann sem hefur ekki náð tilskilinni hvíld ef þess er nokkur kostur.
Vikulegur hvíldardagur
Á hverju 7 daga tímabili skal starfsmaður fá a.m.k. einn vikulegan hvíldardag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal miða við það að vikan hefjist á mánudegi. Starfsmaður skal þannig fá a.m.k. 35 klst. samfellda hvíld einu sinni í viku. Almenna reglan er að vikulegur hvíldardagur sé á sunnudegi. Það er einnig heimilt að gera samkomulag um að vikulegum frídegi sé frestað og tveir teknir saman á hverjum tveimur vikum. Einnig er heimilt að fresta vikulegum hvíldardegi þannig að tveir séu teknir saman ef sérstök þörf er á því.
Daglegt hvíldarhlé
Starfsmaður á rétt á a.m.k. 15 mínútna hléi ef daglegur vinnutími hans er lengri en 6 klst. Þetta hlé getur verið hluti af daglegum matar- eða kaffitímum.
Frítökuréttur
Eins og áður segir eru reglur um hvíldartíma lágmarksreglur og á almennt ekki að víkja frá þeim nema brýna nauðsyn krefji. Þegar brot eru framin skapast frítökuréttur.
Ef stjórnandi fer fram á að starfsmaður mæti til vinnu áður en 11 klst. lágmarkshvíld er náð skapast frítökuréttur, 1,5 klst. (í dagvinnu) fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skerðist. Ávinnsla frítökuréttar einskorðast ekki við heilar stundir. Starfsmaður á ekki að mæta aftur til vinnu fyrr en hann hefur náð 11 klst. hvíld nema hann hafi sérstaklega verið beðinn um það.
Ef hvíld er rofin einu sinni eða oftar innan 24 stunda tímabils, miðað við upphaf vinnudags starfsmanns, skal bæta það sem vantar upp á að 11 klst. hvíld náist, miðað við lengsta hlé innan vinnulotu með frítökurétt, 1,5 klst. fyrir hverja klukkustund sem vantar upp á 11 klst. hvíld.
Ef starfsmaður hefur unnið samtals meira en 16 klst. á einum sólarhring, miðað við upphaf vinnudags starfsmanns, án þess að ná 8 klst. samfelldri hvíld, skal starfsmaður undantekningarlaust fá 11 klst. samfellda hvíld að lokinni vinnu, án frádráttar frá launum. Frítökuréttur, 1,5 klst. (dagvinna) safnast upp fyrir hverja klst. sem unnin var umfram 16 klst.
Í þeim sérstöku undantekningartilvikum að starfsmaður vinni samfellt fullar 24 stundir, skal frítökuréttur aukast þannig að hver heil stund umfram 24 veiti frítökurétt sem er 1,8% lengri en sá frítökuréttur sem næsta stund á undan gaf. Þetta tilvik er algjör undantekning, og á eingöngu við ef almannaheill krefur eða aðrar ytri aðstæður, svo sem veður eða slys. Þannig gefur fyrsta stund umfram 24 klst. 1,527 klst. í frítökurétt, sú næsta 1,55 o.s.frv.
Frítökuréttur á einnig við ef starfsmaður vinnur það lengi á undan hvíldardegi þannig að ekki náist 11 klst. hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags eða vaktar. Ef það gerist skal starfsmaður mæta síðar við upphaf næsta reglubundna vinnudags, eða frítökurétt, 1,5 klst., fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skerðist.
Uppsafnaður frítökuréttur skal koma fram á launaseðli og veittur í heilum og hálfum dögum. Frídaga vegna frítökuréttar skal veittur í samráði við starfsmann. Að auki er heimilt að greiða út 0,5 klst. (dagvinnu) af hverri 1,5 klst. sem starfsmaður hefur áunnið sér í frítökurétt, óski hann þess. Ótekinn frítökuréttur skal gerður upp við starfslok með sama hætti og orlof og fyrnist hann ekki.
Ákvæði um vinnutíma, hvíldartíma og frítökurétt gilda ekki um æðstu stjórnendur og aðra sem ráða vinnutíma sínum sjálfir.
Dæmi um hvíldartímabrot
Starfsmaður vinnur venjulega frá 08:00 til 16:00. Hann er á bakvakt frá 16:00 til 08:00 og er kallaður út tvisvar, fyrst frá 19:00 til 20:00 og svo frá 02:00 til 03:00. Lengsta hvíldin sem starfsmaður nær er 6 klst., frá 20:00 til 02:00 og vantar því fimm tíma upp á að hann nái 11 klst. hvíld. Best væri ef starfsmaður gæti strax tekið 11 klst. hvíld eftir seinna útkallið, þ.e. mætt kl. 14:00 daginn eftir. Ef það er ekki hægt fær hann 5*1,5 klst. í frítökurétt, það er 7,5 tíma, sem hann getur tekið síðar.
Starfsmaður í vaktavinnu er á næturvakt og vinnur frá 23:00 til 07:00. Vegna anna er hann látinn mæta á aukavakt kl. 16:00 daginn eftir. Hann fær 9 tíma hvíld og ber því 1,5*2 klst. í frítökurétt, eða 3 tímar.