Fæðingar- og foreldraorlof samkvæmt fæðingarorlofslögum er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.
Tímalengd fæðingarorlofs fyrir báða foreldra er mismunandi eftir fæðingarári barna:
Ef barn fæddist árið 2021 eða síðar er réttur foreldra samtals 12 mánuðir og skiptist þannig að hvort foreldri um sig á rétt til sex mánaða en allt að sex vikur eru framseljanlegar milli foreldra. Þannig gæti t.d. annað foreldri nýtt sjö mánuði og tvær vikur á meðan hitt foreldrið nýtir fjóra mánuði og tvær vikur.
Fyrir börn fædd árið 2020 er rétturinn alls 10 mánuðir þar sem hvort foreldri á fjóra mánuði í sjálfstæðan rétt en tveir mánuðir eru sameiginlegir.
Fæðingarorlof vegna fæðingar barns er hægt að taka upp að 24 mánaða aldri barns en réttur vegna ættleiðingar eða varanlegs fóstur fellur niður 24 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.
Þegar foreldri fer í fæðingarorlof fellur það af launaskrá hjá atvinnurekanda og fær greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði, að uppfylltum skilyrðum fæðingarorlofslaga. Mánaðarleg greiðsla til foreldris frá sjóðnum er 80% af meðaltali heildarlauna en hámarksgreiðslur frá sjóðnum eru 600.000 kr. Réttur til greiðslna hjá sjóðnum er því eftirfarandi.
- Foreldrar sem eru með lægri mánaðarleg meðallaun en 750.000 kr. eiga rétt á 80% af meðaltali heildarlauna. Þetta er fjárhæð fæðingarorlofs fyrir lögbundinn frádrátt s.s. skattgreiðslur, framlag til lífeyrissjóðs og iðgjald til stéttarfélags.
- Foreldrar sem er með hærri meðallaun en 750.000 kr. á mánuði lenda í þakinu svonefnda þar sem 80% af þeirri tölu eru 600.000 kr. og fá ekki hærri greiðslur en sem því nemur. Þetta er fjárhæð fæðingarorlofsgreiðslna fyrir lögbundinn frádrátt s.s. skattgreiðslur, framlag til lífeyrissjóðs og iðgjald til stéttarfélags.
Rétturinn til að taka fæðingarorlof stofnast við fæðingu barns en foreldri er heimilt að hefja töku þess allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Móðir skal vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Réttur til fæðingarorlofs er bundinn því að foreldri fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar fæðingarorlof er tekið. Forsjálaust foreldri á rétt til fæðingarorlofs ef fyrir liggur samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir.
Foreldri öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að tíu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi. Hið sama gildir um einhleypa móður sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur ættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur. Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 24 mánaða aldri færist sá réttur fæðingarorlofs sem hinn látni hefur ekki nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris. Foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs sem það hefur ekki nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti.