43. þing BSRB fór fram dagana 10. til 12. október 2012 í Reykjavík. Alls tóku um 250 félagsmenn aðildarfélaga BSRB sæti á þinginu. Á þinginu fór fram öflug málefnavinna fram alla þingdagana sem birtist m.a. í ályktunum þingsins og nýrri stefnu BSRB sem gefin var út í kjölfarið. Unnið var að lagabreytingum, stefnu þingsins og ályktunum þess. Vinnan fór að mestu fram í hinum ólíku nefndum auk þess sem sérstakar málstofur voru haldnar á þinginu í fyrsta skiptið.
Málstofur þingsins
Málstofurnar voru fjórar talsins og fjölluðu um stöðu heimilanna, umhverfismál, velferðarmál og jafnréttismál. Gestir með sérþekkingu á hverju sviði fyrir sig voru fengir til að halda erindi á málstofunum, standa fyrir svörum og leiða þær umræður sem þar áttu sér stað. Hverri málstofu var síðan skipt niður í smærri hópa sem skiluðu loks af sér niðurstöðum sem stjórn BSRB hefur síðan tekið til úrvinnslu.
Stefna BSRB
Eitt af meginhlutverkum þinga BSRB er að móta áherslur og stefnu bandalagsins til næstu starfsára. Sú nýbreytni var á þinginu árið 2012 að unnið var að formlegri stefnu BSRB. Undanfarin ár hafa ályktanir bandalagsins gegnt eins konar hlutverki stefnu BSRB en að þessu sinni var unnið að sérstöku stefnuskjali sem gefið var út að þinginu loknu.
Skiptist stefnan í nokkra kafla sem fjalla um almannaþjónustu, atvinnumál, heilbrigðismál, húsnæðismál, jafnréttismál, kjaramál, lífeyrismálm skattamál, umhverfismál og vinnuvernd. Henni er ætlað að vera einskonar yfirlit yfir stefnu bandalagsins í helstu málaflokkum og leiðarljós fyrir starfið næstu þrjú árin. Stefnu BSRB má nálgast hér.
Ályktanir þingsins
Þótt að sérstök stefna hafa verið samþykkt sendi þingið jafnframt frá sér nokkrar ályktanir sem sömuleiðis má nálgast á heimasíðu BSRB. Ályktanirnar fjölluðu m.a. um kjaramál, atvinnumál, afnám verðtryggingar, umhverfismál, jafnréttismál og lífeyrismál.
Allar ályktanir 43. þings BSRB má nálgast hér.
Kosningar í embætti BSRB
Á lokadegi þingsins fóru kosningar í embætti BSRB fram þar sem Elín Björg Jónsdóttir var endurkjörin formaður með 93,5% greiddra atkvæða. Þá var kosið til framkvæmdastjórnar BSRB. Árni Stefán Jónsson, formaður SFR-stéttarfélags í almannaþjónustu, var endurkjörinn fyrsti varaformaður og Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, annar varaformaður. Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, hlaut kosningu til áframhaldandi starfa sem ritari BSRB.
Þá var Snorri Magnússon, formaður Landsambands lögreglumanna, kjörinn gjaldkeri og kemur hann nýr inn í framkvæmdastjórn bandalagsins í stað Þuríðar Einarsdóttur, formanns Póstmannafélags Íslands, sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa í framkvæmdastjórn. Ofantaldir ásamt formanni BSRB skipa því framkvæmdastjórn BSRB fram að næsta þingi.