I. KAFLI
Nafn og hlutverk
1. gr.
Nafn
BSRB er bandalag stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði auk annarra aðila sem rétt eiga til aðildar að bandalaginu samkvæmt lögum þessum.
Heimili og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Hlutverk
Hlutverk BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og stuðla að bættu velferðarsamfélagi. Bandalagið fer með samningsrétt í sameiginlegum málum félaganna og þeim sem því er falið hverju sinni.
BSRB styður og eflir aðildarfélögin við gerð kjarasamninga og hagmunagæslu félagsmanna. Þá vinnur bandalagið að samstöðu meðal aðildarfélaga og stuðlar að jafnræði þeirra í framkvæmd þjónustu til félagsmanna. Bandalagið vinnur jafnframt að fræðslu- upplýsinga- og menningarstarfsemi og jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði.
Þá vinnur BSRB að aukinni samstöðu, samstarfi og tengslum í stéttarfélagsmálefnum innanlands og erlendis.
II. KAFLI
Aðild að bandalaginu
3. gr.
Aðild
Aðild að BSRB geta átt:
a. Öll sambönd og/eða félög starfsmanna sem rétt hafa eða hafa haft til að gera kjarasamning skv. lögum nr. 94/1986.
b. Sambönd eða félög starfsmanna fyrirtækja eða stofnana sem starfa í almannaþágu.
c. Stéttarfélög sem skipulögð eru í samræmi við lög, reglur og samþykktir BSRB.
4. gr.
Skilyrði aðildar
Félög þau eða sambönd félaga sem óska aðildar að bandalaginu skulu skipulögð á lýðræðisgrundvelli og lög þeirra mega ekki brjóta í bága við lög þessi eða grundvallaratriði í samþykktum bandalagsins. Félög eða sambönd sem óska inntöku á grundvelli 1. tölul. 3. gr. skulu á sannanlegan hátt uppfylla þá tölu um fullgilda félagsmenn sem kveðið er á um í 5. gr. laga nr. 94/1986. Jafnframt uppfylla félögin ákveðin skilyrði um þjónustu til félagsmanna samkvæmt reglugerð sem aðalfundur setur. Í reglugerðinni skulu sett viðmið um þjónustu félaga varðandi skrifstofuhald, sjálfstæði þeirra við kjarasamningsgerð og aðra þjónustuþætti sem við á.
Umsókn um aðild skulu fylgja eftirtalin gögn:
a. Eintak af lögum félagsins.
b. Félagsmannatal þar sem tilgreint er fullt nafn, kennitala, heimilisfang og vinnustaður hvers félagsmanns.
c. Nöfn stjórnar- og varastjórnarmanna, svo og þær upplýsingar aðrar sem stjórn BSRB óskar eftir.
Stjórn BSRB tekur ákvörðun um inntöku stéttarfélaga. Leita skal staðfestingar aðalfundar sem skal studd með 2/3 greiddra atkvæða fundarins.
5. gr.
Brottvikning úr BSRB
Þyki sannað að aðildarfélag hafi framið alvarlegt brot á lögum þessum eða vísvitandi valdið bandalaginu tjóni á annan hátt getur aðalfundur vikið viðkomandi félagi úr bandalaginu en til þess þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Ákvörðun um brottvikningu skal leggja fyrir næsta þing BSRB til fullnaðarákvörðunar. Til að staðfesta brottvikningu þarf 2/3 greiddra atkvæða.
6. gr.
Úrsögn úr BSRB
Tillaga um úrsögn úr BSRB skal rædd á lögmætum aðalfundi félags eða fulltrúaþingi landssambands og hennar getið í fundarboði.
Gera skal stjórn BSRB viðvart um tillöguna með minnst 4 vikna fyrirvara og skal fulltrúi stjórnar BSRB ávallt sitja fundi eða fulltrúaþing aðildarfélaga þegar fjallað er um úrsögn úr bandalaginu.
Úrsagnartillaga skal afgreidd með allsherjaratkvæðagreiðslu, þó ekki fyrr en 4 vikum eftir aðalfund eða fulltrúafund. Samþykki a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna á aðalfundi eða fulltrúaþingi þarf til þess að tillagan gangi áfram til allsherjaratkvæðagreiðslu.
Úrsögn telst samþykkt ef a.m.k. helmingur félagsmanna er henni fylgjandi eða 2/3 hlutar þeirra sem þátt taka í allsherjaratkvæðagreiðslunni. Félagi telst hafa tekið þátt í allsherjaratkvæðagreiðslum er hann skilar kjörseðli.
Yfirkjörstjórn BSRB sér um atkvæðagreiðslu um úrsögn, sbr. 33. grein.
Úrsögn tekur gildi frá lokum þess árs er hún hlýtur samþykki og er viðkomandi félag skattskylt fyrir það ár. Félag sem segir sig úr BSRB á ekki tilkall til sjóða eða annarra eigna bandalagsins.
III. KAFLI
Réttindi og skyldur
7. gr.
Starfsemi aðildarfélaga
Hvert aðildarfélag hefur fullt frelsi um mál sín, þó svo að eigi fari í bága við lög þessi eða samþykktir þings BSRB.
Aðildarfélög BSRB skulu hafa lýðræðislegan grundvöll við ákvörðunartöku og vinna í þágu samstöðu og lýðræðis, fylgja samþykktum BSRB og reglugerð um þjónustu félaga varðandi skrifstofuhald, sjálfstæði þeirra við kjarasamningsgerð og aðra þjónustuþætti sem við á. Þá skulu félögin afhenda BSRB þær upplýsingar sem bandalagið þarfnast vegna hlutverks síns. BSRB skal halda skrá yfir félagsmenn aðildarfélaga sinna og stjórnir þeirra í samráði við félögin og með aðstoð þeirra.
8. gr.
Sérdeild lífeyrisþega
Aðildarfélög geta stofnað sérdeildir lífeyrisþega og/eða eftirlifandi maka þeirra. Heimilt er að stofna félög þeirra lífeyrisþega og/eða eftirlifandi maka sem verið hafa innan BSRB en eru ekki sérdeild aðildarfélags.
Deildir lífeyrisþega samkvæmt 1. mgr. myndi með sér samband lífeyrisþega sem njóti réttinda skv. þessari grein. Formaður Sambands lífeyrisþega eða staðgengill hans sitji í formannaráði BSRB með málfrelsi og tillögurétti.
9. gr.
Trúnaðarstörf fyrir BSRB
Enginn getur átt atkvæðisrétt eða kjörgengi til trúnaðarstarfa samkv. lögum þessum nema í einu aðildarfélagi BSRB.
Starfi maður samkvæmt kjarasamningum fleiri en eins stéttarfélags sem á aðild að BSRB skal hann gagnvart BSRB einungis teljast félagsmaður þess stéttarfélags sem samið hefur um stærstan hluta starfs hans.
Ef mörkin eru óljós eða starfið skiptist að jöfnu milli tveggja kjarasamninga ákveður starfsmaður sjálfur í hvoru stéttarfélaginu hann teljist félagsmaður gagnvart BSRB.
10. gr.
Ágreiningsmál
Ágreiningsmálum, sem upp kunna að koma í félagi og varða bandalagið, má skjóta til stjórnar þess. Úrskurður hennar skuldbindur aðila en áfrýja má honum til aðalfundar.
Sama gildir um ágreiningsmál er rísa kunna milli bandalagsfélaga og þeim tekst ekki að jafna.
11. gr.
Allsherjaratkvæðagreiðsla í aðildarfélögum
Ef stjórn BSRB eða þing telja nauðsyn bera til að leita allsherjaratkvæðagreiðslu í aðildarfélögum, skal hún snúa sér til hlutaðeigandi félagsstjórnar sem þá er skylt að láta slíka atkvæðagreiðslu fara fram.
Kjörskrá við allsherjaratkvæðagreiðslu skal vera skrá BSRB yfir félaga í aðildarfélögum þess.
IV. KAFLI
Þing BSRB
12. gr.
Hlutverk þings
Þing BSRB fer með æðsta vald í öllum málum bandalagsins. Það skal taka til umfjöllunar þýðingarmikil málefni og móta stefnu BSRB.
Þing BSRB er lögmætt ef það er löglega boðað. Þingfundur er lögmætur þegar fullur helmingur þingfulltrúa er á fundi. Stjórn BSRB og starfsmenn bandalagsins eiga rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétti en atkvæðisrétt hafa þeir ekki nema þeir séu kjörnir fulltrúar.
13. gr.
Þinghald
Þing BSRB skal halda þriðja hvert ár og eigi síðar en í októbermánuði.
Stjórn bandalagsins skal kalla saman aukaþing þegar henni þykir nauðsyn, eða ef meirihluti aðildarfélaga eða félög sem telja meirihluta félagsmanna í bandalaginu krefjast þess skriflega.
14. gr.
Boðun þings
Þing BSRB skal boða með tveggja mánaða fyrirvara bréflega. Aukaþing má boða með styttri fyrirvara þó aldrei skemmri en þrjár vikur.
15. gr.
Afhending gagna fyrir þing
Skýrslu stjórnar BSRB, sjálfstæðar tillögur eða mál, sem formannaráð, stjórn eða aðildarfélög óska að leggja fyrir þing, svo og dagskrá, skal senda félögum eigi síðar en þrem vikum fyrir þing. Tillögur einstakra þingfulltrúa eða breytingartillögur við fyrrgreind mál skulu lagðar fram á þinginu og fjalla skal um þær í þeirri þingnefnd sem málið tilheyrir.
16. gr.
Þingfulltrúar
Aðildarfélögin hafa rétt og skyldur til að kjósa fulltrúa úr hópi fullgildra félaga sinna til setu á þingi BSRB eftir þessum reglum.
Á þingi BSRB skal hvert aðildarfélag eiga tvo fulltrúa fyrir félagafjölda upp að 120 og þá einn fulltrúa fyrir hverja 120 félagsmenn. Kjósa skal jafnmarga til vara. Tala fulltrúa miðast við félagatölu eins og hún reynist 1. janúar það ár sem halda skal þing BSRB. Heimilt er þó að víkja frá þessari dagsetningu við sérstakar aðstæður. Kjörtímabil fulltrúa er þrjú ár, þ.e. milli aðalþinga nema annað sé ákveðið í lögum viðkomandi aðildarfélags. Aðildarfélög skulu gæta að jöfnu kynjahlutfalli við tilnefningu þingfulltrúa eins og kostur er og skal vera 40% af öðru kyni miðað við þann fjölda sem félagið tilnefnir.
Þrír fulltrúar frá Sambandi lífeyrisþega ríkis og bæja (SLRB) eiga rétt til setu á þinginu með fullum réttindum.
Kjörbréf staðfest með undirskrift formanns og ritara aðildarfélags skal afhent í skrifstofu BSRB a.m.k. sex vikum áður en þing á að hefjast.
17. gr.
Kjörbréfanefnd og nefndanefnd
Mánuði fyrir þingbyrjun skal stjórn bandalagsins skipa:
a. Þrjá menn í kjörbréfanefnd til að rannsaka kjörbréf og skal hún skila áliti á fyrsta þingfundi,
b. sjö menn úr hópi kjörinna þingfulltrúa utan stjórnar bandalagsins í nefndanefnd er geri tillögu um fulltrúa í þingnefndir sem verði lagðar fram til afgreiðslu á fyrsta þingfundi.
18. gr.
Dagskrá þings
Dagskrá reglulegs bandalagsþings skal vera:
- Þingsetning
- Kjörbréf lögð fram til úrskurðar
- Kosning starfsmanna þingsins: a) forseta og tveggja varaforseta, b) tveggja þingritara og tveggja til vara, c) kosning þingnefnda skv. 17. gr. b-lið
- Lögð fram skýrsla stjórnar
- Lagabreytingar
- Tillögur, sem borist hafa, teknar til umræðu og vísað til nefnda
- Umræður og afgreiðsla nefndarálita
- Önnur mál
- Kjör formanns BSRB, varaformanna og sex meðstjórnanda sem mynda stjórn BSRB ásamt varamönnum
- Þingið ákveður dagskrá að öðru leyti
19. gr.
Fundarsköp
Þingfundum skal stjórnað samkvæmt þingsköpum BSRB. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.
V. KAFLI
Stjórnsýsla BSRB
20. gr.
Formannaráð BSRB
Formannaráð BSRB er skipað formönnum aðildarfélaga bandalagsins hverju sinni. Formaður BSRB er formaður ráðsins og boðar hann fundi að lágmarki þrisvar sinnum á ári.
Boðað skal til funda með minnst þriggja vikna fyrirvara en heimilt er að stytta þann tíma við sérstakar aðstæður. Þá skal boðað til fundar ef 1/3 hluta ráðsins óskar þess. Fundur er lögmætur þegar meirihluti formannaráðsins er á fundi. Stjórnarmenn í stjórn BSRB, sem ekki þegar eiga sæti í formannaráðinu, eiga rétt til setu á fundum þess með málfrelsi og tillögurétti en atkvæðisrétt hafa þeir ekki.
21. gr.
Hlutverk formannaráðs BSRB
Formannaráð BSRB mótar stefnu og megináherslur BSRB í málum sem kunna koma upp milli þinga ásamt því að vera vettvangur samráðs aðildarfélaga bandalagsins. Það fylgir jafnframt eftir framkvæmd samþykkta þingsins og annarra mála sem vísað er til þess af þingi BSRB. Stjórn BSRB getur lagt ákvörðun um stefnumótun bandalagsins fyrir formannaráð.
22. gr.
Stjórn BSRB
Stjórn BSRB skal skipuð níu einstaklingum, þ.e. formanni, 1. og. 2. varaformanni og sex meðstjórnendum ásamt sjö varamönnum. Varamenn taka sæti í stjórn í forföllum stjórnarmanna. Kjósa skal formann, 1. og 2. varaformann hvern fyrir sig en meðstjórnendur sameiginlega á þingi BSRB. Varamenn skulu kosnir í þeirri röð er þeir taka sæti aðalmanns. Við skipun í stjórn skulu ekki vera fleiri en einn frá hverju aðildarfélagi bandalagsins.
Enginn er löglega kosinn nema hann fái helming greiddra atkvæða. Kjörgengir eru allir fullgildir félagar í BSRB.
Ef formaður eða varaformaður lætur af störfum á kjörtímabilinu kýs stjórn 2. varaformann úr sínum hópi.
23. gr.
Hlutverk stjórnar BSRB
Stjórn BSRB stýrir starfsemi bandalagsins í samræmi við samþykktir BSRB ásamt stefnumörkun formannaráðs, þings og aðalfundar BSRB. Stjórnin hefur æðsta vald í málefnum BSRB milli þinga og aðalfunda og ber hverju aðildarfélagi að hlíta fyrirmælum hennar. Hvert félag hefur rétt til að skjóta ágreiningsmálum sínum við stjórn bandalagsins til þings BSRB, sem þá fellir fullnaðarúrskurð í málinu.
Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að sinna ákveðnum verkefnum.
24. gr.
Formaður BSRB
Formaður BSRB boðar stjórnarfundi eigi sjaldnar en hálfsmánaðarlega. Stjórnarfund skal boða ef tveir stjórnarmenn óska og skal hann haldinn innan fimm daga frá því að ósk þess efnis er sett fram. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund og ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála á stjórnarfundum. Ef atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.
25. gr.
Hlutverk formanns BSRB
Formaður hefur yfirumsjón með og leiðir starfsemi bandalagsins ásamt formannaráði og stjórn og gegnir öðrum venjulegum formannsstörfum. Formaður stýrir og boðar formannaráðs– og stjórnarfundi og ber ábyrgð á framkvæmd ákvarðana þings, formannaráðs og stjórnar bandalagsins.
Heimilt er formanni með samþykki stjórnar að fela varaformönnum að fara með einhvern hluta af störfum sínum. Fyrsti varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans.
26. gr.
Framkvæmdastjóri BSRB
Stjórn BSRB ræður framkvæmdastjóra bandalagsins. Hlutverk hans er að hafa á hendi alla daglega stjórnun bandalagsins, ráða starfsfólk skrifstofu BSRB og semja um kjör þeirra.
27. gr.
Aðalfundur BSRB
Aðalfundur BSRB skal haldinn fyrir 1. júní ár hvert. Heimilt er að boða til aukafundar ef þörf krefur. Aðalfund skal boða með þriggja vikna fyrirvara. Aukafund má boða með skemmri fyrirvara. Sitji formenn hann sem fulltrúar fyrir fyrstu 400 félagsmenn aðildarfélags en félögin kjósi viðbótarfulltrúa fyrir hverja 400 félagsmenn aðildarfélags þar fram yfir eða brot úr þeirri tölu.
Starfsmenn BSRB hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema þeir séu kjörnir fulltrúar á aðalfundinn.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og ritara
2. Skýrsla stjórnar og reikningar BSRB
3. Framkvæmdaáætlun til næsta aðalfundar
4. Aðildarumsóknir
5. Ákvörðun aðildargjalds (félagsgjalds), þ.e. hlutfall heildarlauna og fast gjald fyrir hvern félagsmann sem tekur gildi frá og með næstu áramótum
6. Fjárhagsáætlun lögð fram til staðfestingar
7. Reglugerð um gæðaviðmið skv. 4. gr. laga BSRB
8. Kjör skoðunarmanna reikninga
9. Önnur mál
Bera skal einstaka dagskrárliði undir atkvæði fundarmanna til samþykkis eða synjunar.
VI. KAFLI
Fjármál
28. gr.
Fjárhagsáætlun BSRB
Á aðalfundi BSRB sem halda skal fyrir 1. júní ár hvert, leggur stjórn bandalagsins fram fjárhagsáætlun aðalsjóðs fyrir komandi starfsár.
29. gr.
Aðildargjöld til BSRB
Hvert aðildarfélag greiði gjald til bandalagsins ákveðinn hundraðshluta af heildarlaunum félagsmanna sinna og fast gjald fyrir hvern félagsmann sem aðild á að bandalaginu. Aðildargjaldið skal ákveðið á aðalfundi BSRB, sbr. 5. tölul. 3. mgr. 27. gr. laga þessara. Heimilt er bandalagsstjórn í umboði félags að innheimta gjald þetta hjá launagreiðendum.
30. gr.
Innheimta aðildargjalda
Innheimta félagsgjalda fari fram með rafrænum hætti í gegnum bókunar- og innheimtumiðstöð BSRB (BIBS).
31. gr.
Kostnaður vegna fulltrúastarfa fyrir BSRB
Kostnaður við þinghald, aðalfundi, fundi stjórnar og aðra fundi sem boðað er til af stjórn BSRB greiðist af bandalaginu, þar með talinn ferðakostnaður fulltrúa búsettra utan þingstaðar og nágrennis. Stjórn BSRB hefur ákvörðunarvald um hvað telst til kostnaðar.
32. gr.
Endurskoðun ársreikninga
Aðalfundur BSRB kýs tvo skoðunarmenn og tvo til vara. Skoðunarmenn hafa eftirlit með fjárreiðum bandalagsins milli aðalfunda og gera þær kannanir á bókhaldi sem þeir telja ástæðu til. Skýrslu um störf sín skulu þeir skila formanni stjórnar.
Endurskoðun ársreikninga skal lokið fyrir aðalfund ár hvert. Ef endurskoðun leiðir í ljós að verulegir gallar eru á bókhaldi eða eignavörslu skal tafarlaust gefa bandalagsstjórn skýrslu þar um og ber henni þá þegar að gera viðeigandi ráðstafanir.
VII. KAFLI
Önnur ákvæði
33. gr.
Yfirkjörstjórn
Þriggja manna yfirkjörstjórn og jafnmargir til vara skal skipuð af stjórn eftir hvert aðalþing. Skal hún hafa yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd atkvæðagreiðslu sem fram fer á vegum bandalagsins og ákveða fyrirkomulag hennar.
Yfirkjörstjórn staðfestir kjörskrá sem gerð er eftir félagatali bandalagsins með breytingum samkvæmt upplýsingum stjórna bandalagsfélaganna.
Yfirkjörstjórn ákveður hverju sinni meðferð kjörgagna og fyrirkomulag á talningu atkvæða.
34. gr.
Lagabreytingar
Lögum bandalagsins má aðeins breyta á aðalþingi. Skulu hafðar tvær umræður um lagabreytingar og telst breyting ekki samþykkt nema 2/3 atkvæða á þingfundi samþykki hana.
Tillögur til lagabreytinga skal senda félögum eigi síðar en þremur vikum fyrir þing, sbr. 15. gr.
35. gr.
Gildistaka og bráðabirgðaákvæði
Þetta eru lög BSRB eftir breytingar á 44. þingi 28. – 30. október 2015. Samþykkt 29. október 2015 og öðlast þegar gildi. Ákvæði varðandi aðildargjald í 29. gr. laga þessara tekur gildi á næsta aðalfundi BSRB sem haldinn verður fyrir 1. júní 2016 og kemur til framkvæmda 1. janúar 2017.
Þeir sem átt hafa einstaklingsaðild að BSRB við gildistöku laga BSRB sem tóku gildi 1. janúar 2013 geta haldið henni kjósi þeir svo, þar til þeir láta af störfum.
ÞINGSKÖP BSRB
I. Þingsetning o.fl.
1. gr.
Formaður bandalagsins setur þing og stjórnar fundi þar til kosning þingforseta hefur farið fram.
2. gr.
Þegar að þingsetningu lokinni skilar kjörbréfanefnd (sbr. a lið 17.gr. laga BSRB) áliti sínu. Formaður leitar atkvæða um kjörbréf. Þegar að lokinni samþykkt kjörbréfa fer fram kosning þingforseta.
Tekur hann þegar við störfum og lætur fram fara kosningu 1. og 2. varaforseta, tveggja ritara og tveggja vararitara. Dagskrárnefnd er skipuð þingforsetum.
II. Verksvið forseta og umræður
3. gr.
Forseti stjórnar fundum. Vilji hann taka þátt í umræðum skal hann láta varaforseta taka við fundarstjórn á meðan. Rísi ágreiningur um þingsköp úrskurðar forseti.
4. gr.
Forseti skal gefa mönnum orðið í sömu röð og þeir hafa kvatt sér hljóðs. Ef fleiri en einn kveðja sér hljóðs samtímis úrskurðar forseti í hvaða röð þeir skulu taka til máls. Ræður skal flytja úr ræðustóli.
5. gr.
Engir aðrir en framsögumenn meiri- og minnihluta mega taka oftar en tvisvar til máls við sömu umræðu. Forseta er leyfilegt að takmarka ræðutíma með samþykki þingfundar.
6. gr.
Forseti gætir góðrar reglu á fundum.
Ef ræðumaður heldur sér ekki við umræðuefnið eða viðhefur ótilhlýðileg orð varðar það áminningu frá forseta sem þá hefur vald til að taka orðið af ræðumanninum.
7. gr.
Eigi má, nema með leyfi forseta, lesa upp prentað né skrifað mál annað en nefndarálit og tillögur.
III. Tillögur og atkvæðagreiðsla
8. gr.
Allar tillögur skal gera skriflega og afhenda forseta. Bera skal þær undir atkvæði í sömu röð og þær hafa verið lagðar fram, sbr. þó 12. gr. Séu fleiri en ein tillaga í sama máli skal þó fyrst bera upp þá tillöguna sem lengst gengur.
9. gr.
Breytingartillögur skal bera upp á undan aðaltillögu. Breytingartillögu sem kollvarpar eða breytir aðaltilgangi annarrar tillögu má ekki taka til greina.
10. gr.
Breytingartillögur um að fella úr, bæta í eða auka við tillögu skal bera upp þannig að lesa fyrst upp aðaltillögu óbreytta, því næst breytingarnar og loks aðaltillöguna eins og hún yrði með breytingunum.
11. gr.
Forseti hefur heimild til að bera tillögu upp í tveimur eða fleiri liðum en þó því aðeins að hver liður sé sjálfstæður og að skiptingin geri tillöguna ekki óljósa.
12. gr.
Forgangstillögur eru í þessari röð:
- Tillaga um að ganga til atkvæða
- Tillaga um að vísa máli frá
- Tillaga um að taka fyrir næsta mál á dagskrá
- Tillaga um að fresta máli
- Tillaga um að vísa máli til annars valds
- Tillögur undir 1. tölul. má ekki ræða
13. gr.
Tillögu sem hefur verið felld má ekki bera upp aftur á sama þingfundi. Með samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða má þó taka málið upp á ný síðar á þinginu.
14. gr.
Heimilt er tillögumanni að taka aftur tillögu á hvaða stigi máls sem er en öðrum fulltrúum er heimilt að taka hana upp á ný.
15. gr.
Atkvæðagreiðsla fer fram með handauppréttingu. Skrifleg atkvæðagreiðsla eða nafnakall fer fram ef 1/10 fundarmanna samþykkir það.
IV. Kosningar
16. gr.
Á hverju aðalþingi er skylt að kjósa eftirtaldar nefndir:
- Starfskjaranefnd.
- Allsherjarnefnd.
- Kjörnefnd.
- Aðrar nefndir samkvæmt ákvörðun þingsins. Stjórn BSRB gerir tillögu að fjölda fulltrúa í nefndum þingsins.
Tillögur nefndanefndar og kjörnefndar svipta ekki einstaka fundarmenn tillögurétti um menn í nefndir eða stjórn.
Kosning nefnda er bundin við tilnefningu og fer fram skriflega nema eigi séu fleiri tilnefndir en kjósa á en þá eru nefndarmenn sjálfkjörnir.
Auk kjörinna nefndarmanna hafa allir þingfulltrúar rétt til að koma á fundi nefndanna með málfrelsi og tillögurétti. Einstakar nefndir geta þó ákveðið lokaða fundi.
17. gr.
Sá sem fær flest atkvæði í nefnd eða er fyrst tilnefndur, ef nefnd er sjálfkjörin, kveður nefndina saman til fyrsta fundar og stjórnar þar kosningu formanns. Síðan fer fram kosning ritara og framsögumanns.
18. gr.
Þegar kosning er bundin má ekki kjósa aðra en þá sem tilnefndir hafa verið.
Ef meirihluta greiddra atkvæða þarf til að ná kosningu og það atkvæðamagn næst ekki í fyrstu umferð skal kosið að nýju um þá sem ekki náðu kosningu. Verði kosningu þá ekki heldur lokið skal kjósa um þá sem flest atkvæði fengu en ekki náðu kosningu í annarri umferð þannig að tveir séu í kjöri um hvert sæti.
Ef tveir eða fleiri fá jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti úrslitum.
19. gr.
Atkvæðaseðill er ógildur ef á honum eru nöfn manna sem ekki eru í kjöri, eða ef ekki eru greidd atkvæði jafnmörgum mönnum og kjósa á.
Auður seðill telst til greiddra atkvæða.
20. gr.
Kosning formanns, 1. og 2. varaformanns, meðstjórnenda og varamanna fer fram samkv. 22. gr. laga BSRB.
Kjörnefnd annast undirbúning og framkvæmd kosningar í stjórn BSRB.
V. Breyting þingskapa
21. gr.
Þingsköpum þessum má breyta á reglulegu þingi BSRB með 2/3 greiddra atkvæða.
Þannig eftir breytingar á 43. þingi BSRB 28. –30. október 2012. Samþykkt 29. október 2015.