Almenn skilyrði þess að fá skipun eða ráðningu í starf hjá ríkinu skv. 6. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalaga) eru:
- Átján ára aldur. Þó má víkja frá þessu aldurslágmarki um störf samkvæmt námssamningi, ræstingastörf, sendilsstörf eða önnur svipuð störf. Einstök ákvæði í öðrum lögum, þar sem annað aldurstakmark er sett, skulu haldast.
- Lögræði. Þó gildir lögræðiskrafan ekki þegar undanþága er gerð skv. 1. tölul.
- Nauðsynleg heilbrigði, andleg og líkamleg, til þess að gegna þeim starfa sem hverju sinni er um að ræða.
- Almenn menntun og þar að auki sú sérmenntun sem lögum samkvæmt er krafist eða eðli málsins samkvæmt verður að heimta til óaðfinnanlegrar rækslu starfans.
- Fjárforræði, ef starfi fylgja fjárreiður, svo sem gjaldkera- eða innheimtustörf, eða ef svo er fyrir mælt í lögum eða sérstök ástæða þykir til að gera þá kröfu.
- Ef umsækjandi um starf hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað sem hann framdi og var sviptur heimild til að rækja starf sitt hjá hinu opinbera telst hann ekki fullnægja starfsskilyrðum starfsmannalaga.