Þing BSRB er haldið þriðja hvert ár og fer það með æðsta vald í öllum málum bandalagsins, það mótar stefnu bandalagsins og kosið er í helstu embætti þess.
Formannaráð bandalagsins gegnir því hlutverki að móta stefnu og megináherslur í málum sem kunna að koma upp á milli þinga ásamt því að vera samráðsvettvangur aðildarfélaga bandalagsins. Það fylgir jafnframt eftir framkvæmd samþykkta þingsins og annarra mála sem vísað er til þess af þingi BSRB.
Stjórn BSRB hefur svo það hlutverk að stýra starfsemi bandalagsins í samræmi við samþykktir BSRB ásamt stefnumörkun formannaráðs, þings og aðalfundar BSRB. Stjórnin hefur æðsta vald í málefnum BSRB milli þinga og aðalfunda.
Skrifstofa BSRB er til húsa í Félagamiðstöðinni að Grettisgötu 89 í Reykjavík og hefur svo verið frá 1978. Þar eru innt af hendi ýmis störf fyrir samtökin og aðildarfélög þess.
Skrifstofan hefur það hlutverk að fylgja eftir stefnu bandalagins og vera í forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu. BSRB heldur utan um réttindi starfsfólks á opinberum og almennum vinnumarkaði og stendur vörð um réttindi og skyldur félagsmanna.
Bandalagið veitir aðildarfélögunum þjónustu á ýmsum sviðum, svo sem varðandi lög- og hagfræðileg efni. Bandalagið sinnir auk þess fræðslu og upplýsingagjöf og sér um samskipti, bæði við önnur heildarsamtök og erlenda aðila. Þá sér skrifstofan um skil iðgjalda til aðildarfélaga bandalagsins.
Þá annast skrifstofa BSRB umsjón útleigu Birkihlíðar sem er eina sumarhús bandalagsins. Félagsmönnum bandalagsins stendur til boða að leigja húsið og fer það fram í gegnum skrifstofuna.