Reykjavíkurborg boðar mikla uppbyggingu á leikskólum og ætlar að bjóða öllum börnum leikskólavist við 12 mánaða aldur fyrir lok árs 2023. Forsenda fyrir því að átakið dugi til að eyða umönnunarbilinu er að stjórnvöld lengi fæðingarorlofið í 12 mánuði.
BSRB hefur kallað eftir því að umönnunarbilið verði brúað og beint þeirri kröfu bæði að stjórnvöldum og sveitarstjórnum víða um land. Í skýrslu sem bandalagið vann nýverið kom fram að mikill munur sé á því hvenær börn komast inn á leikskóla. Þegar úttektin var gerð voru börn að jafnaði um 20 mánaða gömul þegar þau komust inn á leikskóla, en fæðingarorlofið er aðeins 9 mánuðir. Umönnunarbilið er því að jafnaði 11 mánuðir.
Það er fagnaðarefni að Reykjavíkurborg sé að stíga svo afgerandi skref í því að brúa umönnunarbilið, eins og fjallað er um í nýrri skýrslu starfshóps borgarinnar. BSRB kallar nú eftir því að önnur sveitarfélög sem ekki taka inn börn á leikskóla frá 12 mánaða aldri fylgi fordæmi borgarinnar.
Eins og bandalagið hefur ítrekað bent á er ekki eftir neinu að bíða fyrir stjórnvöld að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði, auk þess sem hækka þarf hámarksgreiðslur á mánuði í 650 þúsund á mánuði og tryggja að fyrstu 300 þúsund krónurnar skerðist ekki. Þá kallar BSRB einnig eftir því að Alþingi tryggu óskoraðan rétt allra barna til leikskólavistar við 12 mánaða aldur.
Þetta eru hvorki flókin skref né óyfirstíganleg. Fordæmin liggja fyrir á hinum Norðurlöndunum þar sem tryggð er samfella milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða.