Stjórn NFS, Norræna verkalýðssambandsins, samþykkti á fundi sínum í gær að fela Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB, formennsku í stjórninni á næsta ári.
NFS er samband bandalaga verkalýðsfélaga á Norðurlöndunum sem hefur það hlutverk að samræma starf verkalýðsfélaga í löndunum, auka samvinnu milli landa og vinna að hagsmunum launafólks. Auk BSRB eiga ASÍ og BHM aðild að sambandinu.
Ýmis stór verkefni eru framundan hjá NFS á næsta ári, en þar ber eflaust hæst þing sambandsins, sem haldið verður í Svíþjóð í september. Á árinu á að leggja mikla áherslu á bæði jafnréttismál og umhverfismál.
Formenn þeirra bandalaga sem aðild eiga að NFS skiptast á að gegna formennsku í stjórn sambandsins í eitt ár í senn og mun því Sonja láta af embætti í lok árs 2019.