Skerpt hefur verið á áherslum BSRB í nýrri stefnu bandalagsins sem unnin var á 45. þingi bandalagsins, en stefnan hefur nú verið gerð opinber. Allt starf BSRB grundvallast á þeirri stefnu sem mótuð er á þingum bandalagsins.
Stefnan er í alls 14 köflum þar sem fjallað er um almannaþjónustuna, atvinnumál og efnahags- og skattamál. Þar er einnig fjallað um heilbrigðismál, húsnæðismál, jafnrétti, menntamál og starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu. Hægt er að lesa einstaka kafla í stefnunni hér.
Ný stefna BSRB er viðamikil en skerpt er á helstu þáttum hennar með ályktunum þingsins, sem einnig eru komnar inn á vefinn.
Í kjölfar þingsins hefur verið unnið að því að forgangsraða þeim fjölmörgu mikilvægu málum sem fjallað er um í stefnu bandalagins. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að þar standi nokkur mál upp úr.
„Það er skýr krafa um það að launafólk geti lifað af dagvinnulaununum, en ekki síður á að stjórnvöld standi við skýr loforð um jöfnun launa á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins,“ segir Sonja.
„Grundvallaratriði er að launafólk geti lifað af dagvinnulaunum því augljóst er að fyrr verður ekki sátt um kjaramál í þessu landi. Draga þarf úr yfirvinnu, enda leiðir minna vinnuálag til þess að afköst starfsfólks aukist hlutfallslega,“ segir meðal annars í nýrri stefnu BSRB.
„BSRB telur grundvallaratriði að launamunur milli hins opinbera og hins almenna vinnumarkaðar verði jafnaður samanber samkomulag um lífeyrismál frá 19. september 2016. Launakannanir hafa sýnt að launamunur á milli markaða sé um það bil 17 prósent. Þá verður áfram að vinna að hækkun lægstu launa,“ segir þar jafnframt.
Launaþróunartrygging leiði til stöðugleika
Sonja segir að einnig verði lögð áhersla á að launaþróunartryggingin verði hér eftir fest í kjarasamninga. Í launaþróunartryggingu, sem samið var um í rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins árið 2015, felst að starfsmönnum á opinberum vinnumarkaði er bætt það launaskrið sem verður á almenna markaðinum sjálfkrafa. Með því er ætlunin að laun hjá hinu opinbera sitji ekki eftir í almennri launaþróun.
„BSRB krefst þess að sérstök launaþróunartrygging verði lögfest eða sett í kjarasamninga opinberra starfsmanna en megintilgangur hennar er að tryggja samræmi í launaþróun á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Unnið verði að sátt á milli stéttarfélaga innan BSRB um útfærsluna. Þannig telur BSRB að opinberir starfsmenn muni njóta launahækkana sem eru umfram umsamdar launahækkanir í kjarasamningum auk þess sem upptaka launaþróunartryggingar ætti að leiða til aukins stöðugleika á vinnumarkaði,“ segir um þetta í nýrri stefnu bandalagsins.
Stytting vinnuvikunnar í forgangi
BSRB hefur undanfarin ár lagt þunga áherslu á styttingu vinnuvikunnar og staðið að tilraunaverkefnum með Reykjavíkurborg annars vegar og ríkinu hins vegar. Sonja segir að áfram verði lögð mikil áhersla á að ná í gegn styttingu vinnuvikunnar. Í nýrri stefnu bandalagsins segir að lögfesta þurfi „styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80 prósent af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar“.