Formenn flokkanna sem bjóða fram til alþingis komu til samtals við verkalýðshreyfinguna um áherslumál sinna flokka. Umræðum stjórnuðu Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Í spilaranum hér fyrir neðan má horfa á fundinn í heild sinni.
Á fundinum var lagt upp með umræðu um áherslur flokkanna varðandi húsnæðismál, verð á matvöru, félagslegum innviðum á borð við heilbrigðis- og menntakerfi og jöfnuð. Í inngangi sagði Finnbjörn Hermannsson meðal annars:
Við finnum sterkt fyrir væntingum okkar félagsfólks um að næsta ríkisstjórn grípi til aðgerða til að rétta kúrsinn af. Verðbólga er að minnka og vextir hafa lækkað lítillega – gangi hagspár eftir heldur sú þróun áfram yfir kjörtímabilið. Við stöndum á krossgötum og hefja þarf uppbyggingartímabil í kjölfar tímabils sem einkenndist af viðbragði við óvæntum áskorunum sem fylgdu Covid, eldgosum og í kjölfarið verðbólga og háir vextir. Hefja þarf uppbyggingu félagslegra innviða og tryggja velferð og öryggi fyrir öll. Valkostirnir sem stjórnmálaflokkarnir hafa teiknað upp skiptast í megindráttum í tvennt, valið stendur á milli enn frekari einstaklingshyggju eða aukinnar samstöðu og félagshyggju.