Munur á hæstu og lægstu launum á vinnumarkaðnum dregist saman

Samsetning reglulegra heildarlauna fyrir fullvinnandi karla og konur hjá
BSRB í maí 2024, mánaðarlaun í þúsundum króna - meðaltal.

Haustskýrsla kjaratölfræðinefndar er komin út og var kynnt á blaðamannafundi í húsakynnum ríkissáttasemjara í morgun 13. nóvember. Þar er fjallað um þróun efnahagsmála og launa, vinnumarkaðsmál og kjarasamninga.

Í skýrslunni kemur fram að langtímakjarasamningar hafa verið undirritaðir fyrir 80-90% launafólks á vinnumarkaði í þessari samningalotu sem hófst í febrúar á þessu ári. Samningum er lokið fyrir allflest launafólk á almennum markaði, flest félög innan Alþýðusambands Íslands, BSRB og hluta félagsmanna BHM á opinbera markaðinum. Enn er hinsvegar ósamið við um 40% opinbera markaðarins, eða við um 24 þúsund manns. Þarna er helst um að ræða fólk í BHM, Kennarasambandi Íslands sem og lækna og hjúkrunarfræðinga sem standa utan heildarsamtaka. Hvað varðar aðildarfélög BSRB eru nú á bilinu 10%-15% félaga enn með lausa samninga.

Launaþróun það sem af er samningstímabilinu er því nokkuð ólík eftir mörkuðum. Laun hafa hækkað mest á almennum markaði þar sem samningum nær allra er lokið en minna á opinberum markaði þar sem stórir hópar eru enn með lausa samninga.

 

Hlutfallslega mest hækkun lægstu launa

Áhersla á krónutöluhækkanir í kjarasamningum á undanförnum árum, sem hafa skilað hlutfallslega mestri hækkun lægstu launa, hefur leitt til þess að munur á hæstu og lægstu launum á vinnumarkaðnum hefur dregist saman á undanförnum árum. Áhersla á krónutöluhækkanir í kjarasamningum á undanförnum árum, sem hafa skilað hlutfallslega mestri hækkun lægstu launa, hefur leitt til þess að munur á hæstu og lægstu launum á vinnumarkaðnum hefur dregist saman á undanförnum árum.

Kaupmáttur launa jókst um 0,5% á fyrri helmingi þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra en vegna hárra vaxta og verðbólgu dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna lítillega saman. Eiginfjárstaða heimila hefur batnað á síðustu árum og skuldastaða er almennt góð í sögulegu tilliti en vaxtagjöld sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafa farið vaxandi einkum hjá yngra fólki. Dregið hefur úr spennu á vinnumarkaði og starfandi fólki fjölgar nú hægar en undanfarin misseri en atvinnuleysi er áfram lágt og atvinnuþátttaka mikil.

 

Staða innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði

Þátttaka innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði er ein sú mesta meðal OECD ríkja. Lítill munur er á hlutfalli starfandi innflytjenda og þeirra sem eru með íslenskan bakgrunn. Í samanburði við önnur lönd eru innflytjendur á Íslandi vel menntaðir og algengara að þeir sinni starfi sem er ekki í samræmi við menntunarstig þeirra en fólk með íslenskan bakgrunn. Kunnátta innflytjenda á tungumáli búseturíkis er þó lítil hér á landi í samanburði við önnur OECD ríki.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur er fulltrúi BSRB í Kjaratölfræðinefnd, en hún hefur setið í nefndinni frá upphafi eða frá 2019. Sigríður segir þessa skýrslu óvenjulega fyrir þær sakir að upplýsingar um launaþróun beri þess merki að enn sé ósamið við stóra hópa á opinberum markaði þó BSRB sé búið að ljúka flestum af sínum kjarasamningum. Hún segir jafnframt; „Stærstu fréttirnar í haustskýrslunni eru auðvitað þær að munurinn á hæstu og lægstu launum á íslenskum vinnumarkaði er að dragast saman. Ástæðan fyrir því eru auðvitað krónutöluhækkanirnar sem hafa hækkað lægri laun hlutfallslega meira en hærri laun. Þetta er jákvæð þróun fyrir launafólk í aðildarfélögum BSRB ekki síst konurnar og þær eru jú í meirihluta félaga í bandalaginu“

 

Haustskýrslu KTN og fylgigögn má finna á vef kjaratölfræðinefndar


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?