Það var troðfullt hús í Bíó Paradís þegar Framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025 afhenti kröfugerð sína sex forsvarsmönnum stjórnmálaflokka þann 24. október síðastliðinn. Þann dag var nákvæmlega eitt ár frá því að kvennaverkfallið 2024 var haldið; fjölmennasti útifundur sem haldinn hefur verið hér á landi.
Kröfurnar má lesa í heild sinni á vef Kvennaárs 2025
Það stjórnmálafólk sem mætti og tók við kröfugerðinni voru: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristrún Frostadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson og Sanna Magdalena Mörtudóttir.
Að sögn Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanns BSRB, var efnt til þessa gjörnings því þrátt fyrir loforð stjórnmálafólks í kjölfar kvennaverkfallsins í fyrra um að taka jafnréttismálin föstum tökum hafi lítið gerst. Ákveðið var því að skerpa kröfugerðina og afhenda stjórnmálafólki hana í persónu.
Heimildamyndin „Dagurinn sem Ísland stöðvaðist,” eftir Pamelu Hogan og Hrafnhildi Gunnarsdóttur um Kvennafrídaginn 1975 var frumsýnd við sama tækifæri. Uppselt var á myndina, sem blés áhorfendum mikinn baráttuanda í brjóst, því að henni lokinni safnaðist fólk saman í andyri bíósins og þær Rauðsokkur sem voru í húsinu leiddu baráttufjöldasöng.