Breytingar lögum um lífeyrismál taka gildi

Aðalfundur BSRB segir það skýra kröfu að staðið verði við samkomulag um lífeyrismál sem gert var við opinbera starfsmenn að fullu.

Breytingar á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna taka gildi í dag, 1. júní. Þrátt fyrir að lögin hafi tekið gildi krefst BSRB þess að stjórnvöld standi að fullu við það samkomulag sem undirritað var 19. september síðastliðinn.

Í ályktun aðalfundar BSRB um lífeyrismál kemur fram að lögin sem Alþingi setti fyrir áramót hafi ekki verið í samræmi við afar skýrt orðalag samkomulagsins. Þar var kveðið á um að réttindi sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar yrðu jafn verðmæt fyrir og eftir breytingarnar, eins og sjá má í lið 1c í samkomulaginu. Við þetta var ekki staðið.

Aðalfundur BSRB ítrekar að í lögunum er hin óbeina bakábyrgð launagreiðenda á skuldbindingum sjóðfélaga í A-deildunum sem ekki hafa náð 60 ára aldri afnumin án bóta. „Það er skýr krafa aðalfundarins að staðið verði við samkomulagið og lögum breytt til að viðhalda óbeinu bakábyrgðinni fyrir þennan hóp eða bæta honum ella afnám hennar,“ segir í ályktun aðalfundarins.

Í ítarlegri umfjöllun um málið, sem finna má á vef BSRB, er farið yfir aðkomu bandalagsins að málinu og áhrifin sem breytingarnar munu hafa á sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar. Þar er einnig að finna svör við algengum spurningum um breytingarnar, sem getur verið gagnlegt að kynna sér.

Laun milli markaða verða jöfnuð

Nú þegar lífeyrisréttindin hafa verið samræmd þannig að enginn munur er á réttindum þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðinum og hinum opinbera er næsta skref að jafna launin á milli markaða. Í samkomulaginu segir að vinna eigi markvisst að því að jafna launin. Um það er fjallað sérstaklega í 7. lið samkomulagsins sem undirritað var þann 19. september 2016.

Fjallað er um breytingarnar á vef LSR, sem og á vef Brúar lífeyrissjóðs.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?