Þjóðin hafnar einkarekstri í heilbrigðiskerfinu

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, hefur rannsakað afstöðu almennings til ólíkra rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu árum saman.

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er andvígur einkarekstri í heilbrigðiskerfinu samkvæmt nýrri rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Andstaðan við einkarekstur hefur aukist verulega á undanförnum árum.

Alls eru 86% landsmanna þeirrar skoðunar að rekstur sjúkrahúsa eigi fyrst og fremst að vera á hendi hins opinbera. Aðeins 1,3% telja að sjúkrahús eigi fyrst og fremst að vera rekin af einkaaðilum. Þetta er ein af niðurstöðum könnunar sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Rúnar frá mars og fram í byrjun maí. BSRB kostaði gerð könnunarinnar.

Hlutfall þeirra sem vilja að ríkið sjái um rekstur sjúkrahúsa hefur aukist verulega á undanförnum árum. Alls voru 80,7% þeirrar skoðunar í sambærilegri könnun sem gerð var árið 2006 og 83,2% í könnun sem gerð var árið 2015.

Stjórnvöld fari að þjóðarvilja

Þessar niðurstöður sýna svart á hvítu að landsmenn eru andvígir þeirri þróun til aukinnar einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu, sem hefur verið áberandi undanfarið. Stjórnvöld verða að líta til þessarar eindregnu afstöðu gegn einkarekstri í sínum áætlunum. Falla ætti frá öllum frekari áformum um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og hefjast handa við að vinda ofan af einkavæðingu undanfarinna ára.

Mikill meirihluti vill einnig að það sé fyrst og fremst hið opinbera sem reki heilsugæslustöðvar, alls 78,7%. Aðeins 2,2% vilja að rekstur heilsugæslustöðva sé fyrst og fremst á hendi einkaaðila. Þá vill stór hluti þjóðarinnar, 67,5%, að hið opinbera reki hjúkrunarheimili en aðeins 3,1% vilja fyrst og fremst fela einkaaðilum rekstur þeirra.

Nær allir vilja meira fé í heilbrigðismálin

Í rannsókninni var einnig spurt um afstöðu fólks til þess hvort leggja ætti meira eða minna fé í heilbrigðisþjónustuna. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, 91,9%, vill að hið opinbera leggi meira fé í heilbrigðisþjónustuna. Aðeins 1% vill draga úr framlögum til málaflokksins.

Hlutfall þeirra sem vill auka útgjöld í heilbrigðisþjónustuna hefur aukist á undanförnum árum. Árið 2006 töldu 81,5% rétt að auka útgjöldin. Hlutfallið var komið upp í 90,9% í sambærilegri könnun árið 2015 og er nú komið í 91,9%.

Aðferðafræðin

Könnunin var gerð af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Rúnar Vilhjálmsson prófessor. Kostnaður við gerð könnunarinnar var greiddur af BSRB. Könnunin var gerð frá 16. mars til 3. maí 2017 og náði til alls 1.733 meðlima í netpanel Félagsvísindastofnunar. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá og er tryggt að dreifing aldurs, kyns, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem gerist meðal landsmanna. Alls svöruðu 1.120 könnuninni og svarhlutfallið því 65%.

Afstaða almennings til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu

 

Afstaða almennings til útgjalda í heilbrigðiskerfinu


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?