Nærri sjö af hverjum tíu Íslendingum eru mótfallnir frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um að heimila sölu á áfengi í verslunum. Meirihluti stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi er mótfallinn frumvarpinu.
Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við Háskóla Íslands, en BSRB styrkir rannsóknir Rúnars. Rannsóknin var unnin með Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
Andstaðan mest hjá Vinstri grænum, Samfylkingu og Framsókn
Alls eru 69,2% landsmanna andvíg því að frumvarpið verði að lögum en 30,8% eru því fylgjandi. Andstaða við frumvarpið er mest meðal stuðningsmanna Vinstri grænna, 88,8%, Samfylkingarinnar, 82,6%, og Framsóknarflokksins, 77,8%, en meirihluti stuðningsmanna allra flokka er andvígur frumvarpinu.
Þannig eru 54,4% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins á móti frumvarpinu, 54,8% stuðningsmanna Viðreisnar og 56,8% þeirra sem styðja Bjarta framtíð. Þá eru 58,4% stuðningsmanna Pírata andvígir því að frumvarpið verði að lögum.
Marktækur munur er á afstöðu kynjanna til frumvarpsins. Þannig eru nærri fjórar af hverjum fimm konum, 77,8%, andvígar frumvarpinu, en um þrír af hverjum fimm körlum, 60,6%.
Þegar afstaða landsmanna til frumvarpsins er skoðuð eftir aldri má sjá að meirihlutinn er andvígur frumvarpinu í öllum aldurshópum öðrum en þeim yngsta. Andstaðan eykst með hækkandi aldri. Aðeins hjá þeim sem eru 18 til 29 ára er naumur meirihluti fylgjandi frumvarpinu, alls 53,7%.
Andstaðan við frumvarpið er meiri á landsbyggðinni, þar sem 74% eru því mótfallnir, en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 66,5% eru andvígir þeirri breytingu sem boðuð er í frumvarpinu.
Tíma Alþingis sóað
Í niðurstöðum Rúnar Vilhjálmssonar prófessors kemur fram að allir helstu fagaðilar og stofnanir á þessu sviði hérlendis hafi lagst einarðlega gegn frumvarpinu og vísað til fjölmargra erlendra rannsókna um áhrif af almennri sölu áfengis á aukna áfengisneyslu og vandamál henni tengdri. Þá hafa alþjóðlegar stofnanir á heilbrigðissviði sem um málið hafa fjallað einnig eindregið hvatt til takmarkana á sölufyrirkomulagi áfengis.
Rúnar segir ennfremur að það veki furðu að tíma Alþings sé varið í umfjöllun um þetta mál þing eftir þing. Vandséð sé að flutningsmenn gangi erinda almennings í málarekstri sínum.
Áhugasamir geta kynnt sér nánari upplýsingar um rannsóknina hér.