BSRB tekur undir kröfur Sjúkraliðafélags Íslands um að menntamálaráðherra láti af áformum um sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautarskólans við Ármúla og þar með einkavæðingu þess síðarnefnda.
Eins og bent er á í ályktun stjórnar Sjúkraliðafélags Íslands yrði sameining Fjölbrautarskólans við Ármúla við Tækniskólann, sem er í eigu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samorku og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, nemendum og starfsfólki ekki til framdráttar.
Fjölbrautarskólinn við Ármúla hefur sinnt menntun sjúkraliða af alúð alla tíð. Þá hefur skólinn útskrifað heilbrigðisritara, lyfjatækna, læknaritara og fleiri heilbrigðisstéttir. Það er ástæða til að óttast um framtíð þeirrar kennslu, enda vandséð að núverandi eigendur Tækniskólans hafi mikinn áhuga á menntun heilbrigðisstétta.