Valið á Stofnun ársins 2017 var kynnt við hátíðlega athöfn á Hilton Nordica í gærkvöld en titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsmanna. Valið er byggt á svörum tæplega 12 þúsund starfsmanna í einni stærstu vinnumarkaðskönnun landsins. Stofnanir ársins 2017 eru Reykjalundur, Frístundamiðstöðin Tjörnin, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Leikskólinn Vallarsel og Persónuvernd.
SFR stéttarfélag í almannaþjónustu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar (St.Rv.) standa sameiginlega að valinu á Stofnun ársins og Stofnun ársins – Borg og Bær.
Niðurstöður voru kynntar á Hilton hótel Nordica að viðstöddu fjölmenni í gærkvöld. Könnun meðal félagsmanna er unnin í góðu samstarfi milli SFR, St.Rv., fjármála- og efnahagsráðuneytisins og VR, sem mun kynna niðurstöður sínar síðar. Gallup sér um framkvæmd könnunarinnar sem er stærsta reglulega vinnumarkaðskönnun sem framkvæmd er hér á landi og var úrtakið tæplega 50.000 manns.
Könnunin gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. Tilgangurinn að baki valsins á Stofnun ársins og Stofnun ársins – Borg og bær er hvatning til stjórnenda að gera vel í starfsmannamálum og er það von okkar að könnunin nýtist þeim sem best. Þátttakendur eru spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti.
Hjá SFR stéttarfélagi hljóta eftirfarandi stofnanir titilinn Stofnun ársins en þeim er skipt í flokka eftir stærð stofnunarinnar.
- Stofnun ársins í flokki stærri stofnana er Reykjalundur með einkunnina 4,458.
- Stofnun ársins í flokki meðalstórra stofnana er Menntaskólinn á Tröllaskaga með einkunnina 4,669.
- Stofnun ársins í flokki minni stofnana er Persónuvernd með einkunnina 4,716.
- Titilinn Hástökkvari fær sú stofnun sem hækkar sig mest á milli ára. Í ár hlýtur þann titil Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum sem hækkaði sig um 50 sæti í raðeinkunn.
Hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar hljóta eftirfarandi stofnanir titilinn Stofnun ársins en þeim er skipt í flokka eftir stærð stofnunarinnar.
- Stofnun ársins - Borg og bær í flokki stærri stofnana er Frístundamiðstöðin Tjörnin með einkunnina 4,379.
- Stofnun ársins - Borg og bær í flokki minni stofnana er Leikskólinn Vallarsel á Akranesi með einkunnina 4,760.
- Titilinn Hástökkvari fær sú stofnun sem hækkar sig mest á milli ára. Í ár er það Listasafn Reykjavíkur sem hlýtur þann titil en stofnunin hækkaði sig um 43 sæti í raðeinkunn.
SFR stéttarfélag veitir einnig átta öðrum stofnunum viðurkenningar með því að útnefna þau Fyrirmyndarstofnanir 2017.
- Fyrirmyndarstofnanir í flokki stærri stofnana eru: Ríkisskattstjóri, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Vínbúðirnar (ÁTVR) og Heilsustofnun NLFÍ.
- Fyrirmyndarstofnanir í flokki meðalstórra stofnana eru: Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Einkaleyfastofan.
- Fyrirmyndarstofnanir í flokki minni stofnana eru: Hljóðbóksafn Íslands og Geislavarnir ríkisins.
Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar veitir einnig fjórum öðrum stofnunum í hvorum flokki viðurkenningar með því að útnefna þær Fyrirmyndarstofnanir 2017.
- Fyrirmyndarstofnanir í flokki stærri stofnana eru: Frístundamiðstöðin Gufunesbær, Orkuveita Reykjavíkur, Frístundamiðstöðin Ársel og Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
- Fyrirmyndarstofnanir í flokki minni stofnana eru: Fjárhags- og stjórnsýslusvið Seltjarnarness, Íþrótta- og tómstundasvið Seltjarnarness, Skrifstofa velferðarsviðs Reykjavíkur og Skipulags- og umhverfissvið Akranesbæjar.
Niðurstöður könnunarinnar sýna að heildareinkunn hefur almennt hækkað á undanförnum árum og á það við um kannanir beggja félaga. Starfsfólk minni stofnana er jafnan ánægðara en starfsfólk stærri stofnana og einnig mælist munur milli kynjanna.
Af þeim níu þáttum sem mældir eru fengu þættirnir sem mæla mat starfsfólks á sveigjanleika vinnu og sjálfstæði í starfi hæsta einkunn hjá SFR en lægsta einkunnin er eins og áður á þættinum sem mælir ánægju með launakjör.
Félagsmenn St.Rv. eru einnig ánægðastir með sjálfstæði í starfi, sveigjanleika og starfsanda en óánægðastir með launakjör en einkunn fyrir þann þátt hækkaði þó mest á milli ára ásamt þáttunum stjórnun og ánægju og stolti hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.
Nánari umfjöllun um könnunina má finna á vef SFR og á vef Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.