Hinn 5. mars sl. féll dómur í Félagsdómi í máli nr. 13/2024 þar sem staðfest var sú túlkun sem BSRB og önnur heildarsamtök launafólks hafa haldið fram um rétt til launa í veikindum vegna fyrri þjónustualdurs hjá hinu opinbera. Álitamálið varðaði grein 12.2.1 sbr. grein 12.2.5 í kjarasamningi Kjalar stéttarfélags í almannaþjónustu og Sambands íslenskra sveitarfélaga um mat á ávinnslu veikindaréttar þegar viðkomandi hefur skipt um starf.
Málið varðaði félagskonu Kjalar sem hafði starfað hjá hinu opinbera í meira en tólf ár og átti þannig rétt til launa í 273 daga í veikindum. Hún fluttist á milli sveitarfélaga og hóf störf hjá nýju sveitarfélagi en veiktist fljótlega eftir upphaf starfsins. Sveitarfélagið taldi hana einungis eiga rétt til launa í 14 daga en ekki 273 daga þar sem hún hafði ekki unnið samfellt í tólf mánuði hjá opinberum launagreiðanda fyrir veikindin og jafnframt skemur en þrjá mánuði hjá viðkomandi sveitarfélagi.
Í kjarasamningi segir að við mat á ávinnslurétti starfsmanns skuli taka tillit til þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda en einnig ríki, öðrum sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru af almannafé. Þá segir að á fyrstu þremur mánuðum samfelldrar ráðningar skuli þó fyrri þjónustualdur ekki metinn nema viðkomandi hafi samfelldan þjónustualdur hjá framangreindum aðilum í 12 mánuði eða meira. Fyrir liggur að viðkomandi félagskona átti svo langan samfelldan þjónustualdur í fortíðinni en sveitarfélagið taldi að þessir samfelldu tólf mánuðir þyrftu að vera í beinni samfellu við ráðningu viðkomandi þegar hún veiktist. Umrædd félagskona hefði því, að mati sveitarfélagsins, þurft að hafa starfað samfellt hjá opinberum launagreiðanda í að lágmarki tólf mánuði áður en hún veiktist.
Þessi afstaða sveitarfélagsins er þekkt og hafa opinberir launagreiðendur haldið þessu fram áður. BSRB og önnur heildarsamtök hafa mótmælt þessari afstöðu harðlega enda segir hvergi í kjarasamningi að þessir samfelldu tólf mánuðir þurfi að vera síðustu tólf mánuðir. Samband íslenskra sveitarfélaga tók undir með sveitarfélaginu og taldi óþarft að taka málið fyrir í samstarfsnefnd. Af þeim sökum var ákveðið að stefna málinu fyrir Félagsdóm.
Félagsdómur taldi túlkun Sambandsins í stuttu máli ekki fá stoð í orðalagi ákvæðisins. Sambandið vísaði til dreifibréfs fjármálaráðuneytisins frá árinu 2007 máli sínu til stuðnings en Félagsdómur taldi það ekki geta haft þýðingu þar sem ákvæði kjarasamnings gildi einfaldlega samkvæmt orðalagi sínu. Dreifibréf sem samin eru einhliða af öðrum aðila kjarasamnings geta þannig ekki falið í sér samræmda túlkun beggja aðila kjarasamnings.
Niðurstaða Félagsdóms var því að félagskona Kjalar ætti rétt til 273 daga í launuðum veikindum, enda hafði hún starfað í meira en tólf ár hjá opinberum launagreiðendum og í meira en tólf mánuði samfellt á einhverjum tímapunkti en það tímabil þurfi ekki að vera í beinum tengslum við núverandi ráðningu. BSRB fagnar þessari niðurstöðu og vonar að ekki þurfi að koma til frekar ágreinings vegna mála sem þessara framvegis, enda ákvæði kjarasamnings skýr hvað þetta varðar.