Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, afhenti Elínu Björgu Jónsdóttur, þáverandi formanni BSRB, viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma á þingi bandalagsins haustið 2015. Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði starfshóp um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma til að halda utan um tilraunaverkefnið í lok apríl 2016.
Markmið verkefnisins var að kanna áhrif þess að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 með gagnkvæmum ávinningi fyrir starfsmenn og þær stofnana sem tóku þátt í verkefninu. Sérstaklega var skoðað hvernig útfæra mætti styttinguna hjá ólíkum tegundum stofnana, þar með talið á vinnustöðum þar sem unnin var vaktavinna.
Fjórir vinnustaðir voru valdir til að taka þátt í tilraunaverkefninu í mars 2017. Fjölmargir vinnustaðir sóttu um að taka þátt og þurfti að velja úr. Niðurstaðan varð sú að þeir vinnustaðir sem hófu tilraunina þann 1. apríl 2017 voru Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Ríkisskattstjóri, Útlendingastofnun og Þjóðskrá.
Tilraunaverkefnið átti að standa í eitt ár, frá 1. apríl 2017. Vinnustundum starfsmanna var fækkað úr 40 á viku niður í 36 stundir án þess að til launaskerðingar kæmi. Rannsakað var hver áhrif styttingar vinnutímans voru á gæði og hagkvæmni þjónustu sem vinnustaðirnir veittu, auk áhrifa á vellíðan starfsmanna og starfsanda. Sambærilegar mælingar voru gerðar á vinnustöðum þar sem vinnuvikan var höfð óbreytt til að fá samanburð.
Af þeim fjórum stofnunum sem hófu þátttöku í verkefninu í apríl 2017 var einn vaktavinnustaður. Í framhaldinu var ákveðið að vinna á því að bæta öðrum vaktavinnustað inn í verkefnið til að niðurstöður þess endurspegluðu fjölbreytni starfa hjá ríkinu.
Mælanlegur árangur
Fjallað var um fyrstu niðurstöður úr tilraunaverkefninu í grein félags- og jafnréttismálaráðherra í Fréttablaðinu í febrúar 2018. Þar kom fram að niðurstöður tveggja kannanna og rýnihópa bentu til þess að tilraunaverkefnið væri að skila mælanlegum árangri. Starfsánægja hafði aukist, líðan á vinnustað batnað, lífsgæði aukist og auðveldara var fyrir starfsfólkið að samræma vinnu og einkalíf. Ákveðið var í mars 2018 að framlengja verkefnið í eitt ár hjá þeim stöðum sem þegar höfðu verið valdir.
Í byrjun júlí 2018 var tilkynnt að fimmta vinnustaðnum, Lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi, hefði verið bætt í tilraunaverkefni BSRB og ríkisins. Ástæðan fyrir því að bætt var við vinnustað var einkum til að fá betri mælingu á áhrifum styttingar vinnuvikuna á vaktavinnuhópa.
Fyrir var einn vaktavinnustaður, Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, en þar sem mikill fjöldi opinberra starfsmanna vinnur vaktavinnu innan heilbrigðisþjónustunnar var talið mikilvægt fyrir tilraunaverkefnið að fá góða mælingu á áhrifum styttingar vinnuvikunnar á þann hóp.
Jákvæð upplifun og áhrif
Í apríl 2019 gaf félagsmálaráðuneytið út skýrslu með hagrænum mælingum eftir að tilraunaverkefnið hafði verið í gangi í tólf mánuði. Niðurstöður viðhorfskannana leiddu í ljós jákvæða upplifun þátttakenda og jákvæð áhrif á líðan þeirra í vinnu og daglegu lífi. Niðurstöður hagrænna mælinga sem snéru að veikindafjarvistum, yfirvinnustundum, skilvirkni og árangri sýndu að styttri vinnuvika hafði ekki neikvæð áhrif á skilvirkni og árangur.
Kannað var hvernig þátttakendum gekk að samræma vinnu og einkalíf og spurt um væntingar og reynslu af styttingu vinnuvikunnar. Niðurstöður sýndu að það hafði dregið úr upplifun af kulnun sem og andlegum og líkamlegum streitueinkennum. Hvað varðar viðhorf til vinnustaðar og starfs, vinnustaðarbrags og stjórnunar mældist upplifun af álagi í starfi almennt minni. Starfsandi mældist betri, viðhorf til starfs jákvæðari og sjálfstæði í starfi almennt meira. Þá fannst þátttakendum almennt skýrara til hvers er ætlast af þeim í starfi og fannst minna um misrétti.
Starfsmenn upplifðu einnig réttlátari stjórnun og aukna hvatningu frá stjórnendum. Niðurstöður bentu til aukins jafnvægis milli vinnu og einkalífs og minni árekstra þar á milli. Almennt voru þessi viðhorf jákvæðari á vinnustöðum sem styttu vinnutíma borið saman við viðmiðunarvinnustaðina sem voru með óbreytta vinnuviku en þar voru viðhorf að mestu óbreytt milli mælinga sem framkvæmdar voru eftir sex og tólf mánuði.
Ekki neikvæð áhrif á skilvirkni eða árangur
Þær hagrænu mælingar sem horft var til voru veikindafjarvistir, yfirvinnustundir, skilvirkni og árangur. Niðurstöðurnar sýndu að yfirvinnustundum fækkaði á tveimur vinnustöðum en fjölgaði á tveimur. Það dró úr veikindafjarvistum á tveimur vinnustöðum en þeim fjölgaði á tveimur. Mælikvarðar á skilvirkni og árangri voru ólíkir milli vinnustaðanna og endurspegla ólíka starfsemi þeirra. Niðurstöður þeirra mælinga sem stuðst er við sýndu að styttri vinnuvika hafði ekki neikvæð áhrif á skilvirkni og árangur stofnana.
Í júní 2019 gaf félagsmálaráðuneytið út skýrslu með niðurstöðum rýnihópa og viðtölum við starfsmenn á vinnustöðum sem tóku þátt í tilraunaverkefninu og maka þeirra. Helstu niðurstöður eru þær að þátttakendur upplifðu meiri lífsgæði og leið betur bæði í vinnunni og heima fyrir eftir tólf mánuði af styttingu vinnuvikunnar borið saman við líðanina áður en tilraunaverkefnið hófst.
Að mati stjórnenda vann starfsfólk hraðar, lagði meira af mörkum, tók styttri pásur og var upplifun þeirra að meira væri um samstarf og samhjálp. Heildarvinnutími styttist samkvæmt tímaskýrslum en þó vann starfsfólk áfram yfirvinnu í afmörkuðum einingum vegna álagstoppa og undirmönnunar.
Tíminn eftir vinnu nýttist betur
Starfsfólk talaði um að tíminn eftir vinnu nýttist betur í að sinna fjölskyldu, vinum og tómstundum. Mikil ánægja var með styttingu vinnutíma á föstudögum, sérstaklega hjá þeim sem hættu klukkan tvö á föstudögum en almennt fannst viðmælendum helgarnar lengjast.
Vaktavinnustarfsfólk upplifði meiri fjölskyldusamveru en áður. Starfsfólk í dagvinnu taldi sig þó oftar en áður fara frá hálfloknum verkefnum í lok dags og halda áfram daginn eftir.
Viðtöl við maka starfsmanna leiddu í ljós að stytting vinnutímans hafði létt álagi af fjölskyldum þeirra, sérstaklega þar sem ung börn væru á heimili. Þá var upplifunin almennt sú að dregið hefði úr streitu á morgnana og seinnipartinn og að maki væri ekki eins þreyttur eftir vinnudaginn.