Viðbótarumsögn um frumvarp um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

Viðbótarumsögn BSRB um frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, 683. mál.

Reykjavík, 25. mars 2020

BSRB vill bæta við umsögn sína um mál nr. 683 varðandi endugreiðslu virðisaukaskatts vegna heimilisaðstoðar.

Í ljósi aðstæðna var umsagnarfrestur vegna málsins mjög stuttur og hefur BSRB aflað frekari upplýsinga eftir að umsögn var send til efnahags- og viðskiptanefndar í gær og sendir því viðbótarumsögn um 3. málsgrein, a-liðar, 5. greinar frumvarpsins. Þar er lögð til tímabundin heimild til að endurgreiða eigendum og leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Vísað er í að ákvæðin eigi sér fyrirmynd í sænskri löggjöf.

Í fyrri umsögn um málið, dags. 24. mars 2020, varar BSRB við því að verið sé að veita undanþágur frá virðisaukaskatti með þessum hætti. Hvatt er til mikilvægum skattstofnum hins opinbera sé haldið eins breiðum og unnt er, bent á að aðgerðin gagnist þeim tekjuháu fyrst og fremst og að ríkið verði af umtalsverðum tekjum vegna þeirra þriggja tillagna um undarþágur frá virðisaukaskattsgreiðslum sem frumvarpið kveður á um. Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs verði um 8 milljarðar króna á árunum 2020 og 2021.

Ríkisendurskoðun Svíþjóðar telur skattaafsláttinn í Svíþjóð ekki hafa náð markmiði sínu

BSRB vísaði til þessa að LO í Svíþjóð (stærstu samtök launafólks þar í landi) væru alfarið á móti niðurgreiðslum sem þessum. BSRB hefur nú átt þess kost að kynna sér niðurstöður Ríkisendurskoðunar Svíþjóðar í úttekt sínu á úrræðinu sem birtar voru í febrúar 2020 [1]. Markmiðið sænskra stjórnvalda með RUT-frádrættinum var að draga úr svartri atvinnustarfsemi, að konur og karlar sem keyptu þjónustuna gætu aukið atvinnuþátttöku sína og að fólk með litla menntun fengi vinnu við þjónustu- og þrif á heimilum annara. Úrræðið átti að leiða til jákvæðra áhrifa á ríkisfjármál, þ.e. auka tekjur ríkisins og var lögfest árið 2007.

Útgjöld ríkissjóðs Svíþjóðar vegna niðurgreiðslunnar voru SEK 4,6 ma. árið 2017 (ca ISK 60 ma.). Um 40% af þeirri fjárhæð fór til efstu tekjutíundar. Barnafjölskyldur voru innan við 30% af þeim sem nýttu sér afsláttinn og aðeins örlítið brot af því rann til einstæðra foreldra. Um fjórðungur fjárhæðanna fór til fólks eldra en 65 ára. Að meðaltali jukust tekjur heimila sem keyptu þjónustuna um 2,5% en rannsakendur setja þó stóra fyrirvara við þá niðurstöðu.

Úttektin sýnir að allt að 30% þeirra sem unnu við þjónustuna komu til Svíþjóðar í þeim tilgangi að vinna á heimilum annara. Hlutfallið hefur vaxið með árunum og flestir koma frá Evrópusambandslöndum eða öðrum Evrópulöndum. Þegar þeir sem komu gagngert til að vinna við heimilisþjónustu eru bornir saman við aðra með sama bakgrunn sést að þau fyrrnefndu voru með meiri atvinnuþátttöku og hærri laun í fyrstu en til lengri tíma hafði þetta ekki áhrif á stöðu þeirra umfram samanburðarhópinn.

Varðandi markmiðið að skattaafslátturinn hefði jákvæð áhrif á ríkissjóð Svíþjóðar var lagt upp með að aðgerðin myndi draga úr svartri atvinnustarfsemi, auka atvinnuþátttöku kaupenda og skapa störf. Úttekt Ríkisendurskoðunarinnar sýnir að gögnin sem lögð voru til grundvallar því markmiði að draga úr svartri atvinnustarfsemi byggðu ekki á kortlagningu sænskra skattyfirvalda heldur á danskri rannsókn sem taldi svarta atvinnustarfsemi í heimilisþjónustu fjórum sinni umfangsmeiri en sænsk skattayfirvöld. Þá var gengið út frá því að kaupendur myndu nota helminginn af þeim tíma sem þjónustukaupin spöruðu til að auka við atvinnuþátttöku sína. Niðurstöður Ríkisendurskoðunarinnar eru að aðeins um fjórðungur tímans hafi verið nýttur í þeim tilgangi. Varðandi fjölgun starfa sem áttu að leiða til lægri bótagreiðslna hins opinbera leiddi úttektin ljós að nær þriðjungur starfanna sem sköpuðust vegna skattaafsláttar komu til vegna innflutnings á vinnuafli. Niðurstöðurnar eru að með engu móti sé hægt að álykta sem svo að afslátturinn hafi haft hlutlaus eða jákvæð áhrif á ríkissjóð Svíþjóðar. Fleiri rannsóknir sýna að úrræðið hafi lítil áhrif á fjölgun starfa [2].

LO hafnar frekari einkavæðingu á félagsþjónustu

Eins og áður sagði hafa stærstu samtök launafólks í Svíþjóð, LO, verið andsnúin þessu úrræði. Í morgun, 25. mars 2020, hélt LO málþing um málið [3]. Tilefnið var að ríkisstjórn Svíþjóðar hefur hvatt eldri borgara til að nýta skattaafsláttinn vegna þjónustu á heimilum í stað þess að nýta félagsþjónustuna. Leitt er að því líkum að skorið verði niður í opinberri félagsþjónustu til aldraðra og þeim gert að reiða sig á einkavædda þjónustu í ríkara mæli. LO leggst alfarið gegn þessum fyrirætlunum stjórnvalda og telur þær grafa undan jafnræði aldraðra til aðgangs að félagsþjónustu, draga úr nauðsynlegri þjónustu og leiða til verri vinnuaðstæðna og kjara fyrir starfsfólkið.

Að lokum

Ef markmið tillögu um niðurfellingu virðisaukaskatts á heimilisaðstoð er að draga úr svartri atvinnustarfsemi, auka atvinnuþátttöku eða skapa fleiri störf, og stuðla að því að fólk með litla menntun fái vinnu við þjónustu- og þrif er ljóst að 13 ára reynsla Svíþjóðar sýnir að þau markmið nást ekki með þessari leið.

BSRB telur að verja megi því fjármagni sem átti að renna til úrræðisins t.d. með því að styðja sveitarfélög við uppbyggingu leikskóla um landið allt og þannig stuðla að því að tryggja megi börnum dagvistun að loknu fæðingarorlofi. Með því skapast störf við framkvæmdir og breytingar á leikskólahúsnæði og enn fremur skapast störf á leikskólunum vegna umönnunar yngri barna sem komast þá fyrr inn á leikskóla. Enn fremur má horfa til þess að styrkja tækifæri ófaglærðra starfsmannas leikskóla til frekari menntunar s.s. leikskólaliðanám eða leikskólakennaranáms.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

[1] Sjá hér.

[2] Sjá t.d. Tillväxtanalys Rapport 2020:01 

[3] Sjá hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?