Umsögn BSRB um tillögu um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 190, um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni
Reykjavík, 4. nóvember 2019
BSRB hefur tekið til umsagnar tillögu um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnu-málastofnunarinnar nr. 190, um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni, og tilmæli nr. 206 sem fylgja samþykktinni, sem sett voru í samráðsgátt stjórnvalda 17. október 2019.
BSRB fagnar því að íslensk stjórnvöld hyggist fullgilda samþykktina og styður fullgildingu eindregið. Bandalagið telur ljóst að uppfæra þurfi lög og reglugerðir að einhverju leyti vegna fullgildingar og leggur áherslu á við þá vinnu verði samráð við aðila vinnumarkaðarins viðhaft, líkt og gert er ráð fyrir í samþykktinni og tilmælunum. Má í því samhengi nefna að nú er starfandi aðgerðarhópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um vinnu gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi í félagsmálaráðuneytinu. Hópurinn var settur á fót í kjölfar #metoo byltingarinnar og hefur það hlutverk að koma á fót og fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir einelti, áreitni og ofbeldi.
Meðal þess sem þarf að bæta og tryggja að virki er eftirfylgni með þeim reglum sem eru í gildi, auk þess að horft sé á áreitni og ofbeldi sem kerfislægt vandamál frekar en vandamál einstaklinga. Í nýrri rannsókn Félagsvísindastofnunar sem gerð var að frumkvæði annars starfshóps í félagsmálaráðuneytinu kemur fram að töluvert skortir á í þeim efnum. Til dæmis hafa aðeins 7% stjórnenda í úrtaki rannsóknarinnar framkvæmt áhættumat sem tekur til sálfélagslegra þátta.
BSRB telur að fullgilding samþykktar nr. 190 og tilmæla nr. 206 sé mikilvægt og þarft skref í að innleiða breytingar á þessu sviði og er bandalagið tilbúið að taka þátt í vinnu ráðuneytisins og annarra aðila með það að markmiði að útrýma ofbeldi og áreitni í heimi vinnunnar.
Fyrir hönd BSRB
Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur